Birtist á Múrnum 18. júlí 2004

Matadorkynslóðin

„Tvenna! Ég má gera aftur!”
„Nei, þetta var fjórða tvennan þín. Þú ferð í fangelsi.”
Reglur eru reglur. Þó að fólk kunni þær ekki endilega.
„Aha! Borga mér! Ég á Skólavörðustíg. Látum okkur sjá, með einu húsi…”
„Nei, þú mátt ekki rukka mig meðan þú ert í fangelsi.”
Refsing skal vera refsing.
„Hei! þú varst á götunni minni, þú átt að borga mér.”
„Nei, því ég er búinn að kasta teningunum. Ég var bara nógu snöggur.”
Ef þú fylgist ekki með ertu bara búin/-n að tapa.

Ef þú nærð að kaupa Bankastræti og Austurstræti, lendir aldrei á byrjunarreit og færð Forseti gefur þér upp sakir spjald á lukkureitunum en ekki Þú ferð beina leið í steininn – þá getur þú sigrað. Reyndu að nota alltaf peningana þína í tæka tíð til þess að vera tilbúin þegar sveitastyrksspjaldið kemur. Ekki spyrja hvað þú getur gert fyrir kerfið heldur hvað kerfið getur gert fyrir þig.
Við spilum saman en vitum að aðeins eitt okkar getur unnið. Hin verða að tapa. Einhver lenda svona mitt á milli og una sæmilega við sitt. Þau vita samt að þau gætu haft það svo miklu, miklu betra.

Stelpan í botnsætinu vill byrja upp á nýtt. Deila peningunum jafnt út.
„Nei, það er ekki búið fyrr en einn okkar hefur eignast allt,” segir hetjan á toppnum.
Einhver reyna að styðja stelpuna en gefast upp fyrir ákefð hetjunnar. Það er jú rétt, eitt okkar verður að vinna. Þú vinnur með því að eignast allt og gera öll hin gjaldþrota.

Hetjan verður æstari og finnst skemmtilegra og skemmtilegra að rukka hin. Austurstræti og Bankastræti, Laugavegur, Hafnarstræti og Aðalstræti.
„Verst að geta ekki eignast fangelsið líka. Það væri nú fyndið, ef þið þyrftuð að borga mér fyrir að sitja inni.”

Við kaupum, við seljum, við veðsetjum, við græðum, við töpum. Við erum Matadorkynslóðin. Millistéttin lítur upp til sigurvegarans en niður á taparann. Sigurvegarinn er þar fyrir eigin kænsku en taparinn af því að hann nennir ekki að leggja meira á sig. Hetjan ræður hvenær spilið er búið.

„Þetta er ekkert heppni. Þetta snýst allt um taktík. Við lögðum allir af stað með það sama. Ég gæti náð svona langt með hvaða köst sem er. Þið verðið bara að læra að berjast og koma þér áfram.”

Einhver bendir á takmarkað skemmtanagildi spilsins.
„Þetta er ekkert gaman svona. Við erum öll að berjast en þú ert búinn að eignast allt.”
„Svona er þetta. Ég skal lána ykkur öllum fimm þúsund kall. Þið hljótið að geta náð ykkur á strik.”

Og eftir allt erum við bara að kasta teningum og fara í hring. Við vitum að það kemur að leikslokum og þá róast hetjan, taparinn sleikir sár sín og millistéttin tekur peningana saman; og gefur upp á nýtt.