Pólitík: Hvernig viljum við hafa Hæstarétt?

Grein um skipan hæstaréttardómara
Birtist á Múrnum 23. september 2004

Hvernig viljum við hafa Hæstarétt?

Mikil umræða hefur skapast um skipun hæstaréttardómara en Pétur Hafstein lætur af störfum í byrjun næsta mánaðar. Það verður að teljast jákvætt að Björn Bjarnason hafi ákveðið að setja málið í hendur Geirs H. Haarde enda hugsanlegt að Björn hafi brotið lög við síðustu skipun hæstaréttardómara.

Geir H. Haarde á hins vegar vandasamt verk fyrir höndum enda margir hæfir umsækjendur. Sé mögulegt að færa rök fyrir því að Hjördís Hákonardóttir sé hæfust eða jafnhæf þeim hæfustu er valið augljóst því ekki vill Geir brjóta lög þrátt fyrir að dómsmálaráðherra áskilji sér rétt til að brjóta lög sem honum ekki líka.

Þær umræður sem hafa skapast í kjölfar umsagna Hæstaréttar verða vonandi til þess að ferlið varðandi skipun hæstaréttardómara verður tekið til endurskoðunar. Það er hættulegt ef Hæstiréttur fer að gera tilkall til þess að hafa eitthvert úrslitavald þegar kemur að skipun dómara. Dómararnir gætu þá skipað sín eigin skoðanasystkin og það er engum vinnustað gott að hafa aðeins eitt sjónarmið ráðandi. Hæstaréttardómarar eru æviráðnir og það þarf engan stóran spekúlant til þess að sjá hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft ef þessi miklu völd tilheyra einsleitum hópi, hversu hæfir sem dómararnir eru.

Hins vegar er nú kjörið tækifæri til þess að skoða vel hvort það sé besta leiðin að ráðherra skipi hæstaréttardómara. Þrátt fyrir að ráðherra ætti að hafa aðhald lýðræðisins er hann aðeins einn einstaklingur og því meiri hætta á að skipun dómarans taki mið af öðru en lögum og reglum.
hg

Prev PostViðhorf: Í sátt við náttúruna
Next PostViðhorf: Patrekur