Grein um jafnréttismál
Birtist á Múrnum 31. ágúst 2004

Hver misskilur jafnréttishugtakið?

Mikið fjör hefur verið í kringum Framsóknarflokkinn á undanförnum mánuðum. Það skemmtilegasta við flokkinn er án efa það að deilur innan hans rata oft í fjölmiðla svo þjóðin fær að fylgjast með. Engin skal halda því fram að Framsóknarflokkurinn sé eini flokkurinn þar sem fólk deilir.

Hér er ekki ætlunin að taka afstöðu til þeirrar ákvörðunar forystu flokksins að setja Siv Friðleifsdóttur af. Hins vegar hefur umræðan í kjölfarið verið nokkuð áhugaverð.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir ritar pistil á Tíkina þar sem hún segir konur innan Framsóknarflokksins misskilja jafnréttishugtakið. Um leið hvetur hún aðra þrýstihópa til að grípa til sömu aðgerða og Framsóknarkonur enda eigi ytri einkenni manna ekki að hafa nokkuð að gera með skipanir í nefndir, ráð eða ríkisstjórn. Sérstaklega hvetur hún svarta, sköllótta, fatlaða og einhleypa til að láta til sín taka. (Ekki veit ég raunar hvernig einhleypir rata inn í þennan hóp sem hún kennir við ytri einkenni.)

En hvernig á fólk að veljast í ríkisstjórn? Hver eru hin eftirsóknarverðu „innri” einkenni?

Ef það er alltaf hæfasti einstaklingurinn sem er valinn í ábyrgðarstöður, hvort sem það er á vegum ríkisins eða innan einkageirans, hvernig stendur þá á því að þessir hæfu einstaklingar eru langoftast hvítir karlar (stundum sköllóttir og stundum einhleypir, stundum ekki)? Nú eru konur t.d. um helmingur þjóðarinnar og það er meira að segja sýnt og sannað að konur geta verið ágætis stjórnendur og leiðtogar (þótt það sé erfitt að trúa því!)

Að halda því fram að á Íslandi sé lítið af hæfum konum er fjarstæða. Að líkja réttindabaráttu kvenna við réttindabaráttu sköllóttra og einhleypra er enn meiri fjarstæða enda hefur lítið farið fyrir því að sköllóttum mönnum eða einhleypum sé sérstaklega haldið frá völdum í samfélaginu. Hins vegar verð ég að taka undir það að fatlaðir og „svartir” (geng ég um leið út frá því að hér sé átt við Íslendinga sem ekki skipta um lit í andlitinu við minnstu veður- eða heilsubreytingar) geri tilkall til valda í samfélaginu. Það er nefnilega svo að fólk með mismunandi bakgrunn setur mismunandi baráttumál á oddinn. Án fjölbreyttrar ríkisstjórnar munu öll þau mál sem snerta landsmenn aldrei fá umfjöllun. Ég ætla ekki að byrja að telja upp öll þau mál sem konur hafa komið í gegn og hefðu eflaust aldrei orðið að veruleika hefðu þær ekki látið til sín taka. Ef allir þjóðfélagsþegnar eiga jafnan rétt er nokkuð ljóst að ríkisstjórnin væri nokkurs konar þverskurður af þjóðinni. Á Íslandi væri því tæplega ríkisstjórn með helmingi fatlaðra enda fatlaðir langt frá því að vera helmingur þjóðarinnar.

Heiðrún Lind talar jafnframt um jákvæða mismunun í pistli sínum. Þar gætir enn og aftur þess misskilnings að jákvæð mismunun sé lögbundin á Íslandi. Jákvæð mismunun þýðir að ef allir umsækjendur uppfylla lágmarksskilyrði skal aðili að því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfstétt ganga fyrir. Slík lög gilda ekki hér á landi.

Hins vegar eru hér á landi lög um jafnan rétt sem fela í sér að séu tveir einstaklingar jafnhæfir skal aðili að því kyni sem er í minnihluta fá stöðuna. Þess má geta að þetta á jafnt við um karla sem konur. T.a.m. ganga karlar fyrir í kennarastöður og leikskólakennarastöður. Lög þessi urðu ekki til fyrir hreina tilviljun. Það er nefnilega svo að í öllum valda- og áhrifastöðum eru hvítir karlar ráðandi. Það getur ómögulega verið vegna þess að þeir eru alltaf hæfastir og það þarf ekki mikinn sérfræðing til þess að sjá að kyn greiðir leið, ekki kvenna heldur karla.

Það er þó réttmæt ábending að skoða þarf vel hvort lagasetning sé heppilegasta leiðin til þess að vinna gegn misréttinu. Þætti mér því gaman að fá að heyra frá Heiðrúnu Lind eða öðrum Tíkum hvaða leiðir gætu verið raunhæfar.

Það vinnst alla vega fátt með því að réttlæta forréttindastöðu karla í heimi fjármála og valda.