Jafnréttismál: Hvað þýðir nei?

Grein um kynferðislegt ofbeldi
Birtist á Múrnum 19. nóvember 2004

Hvað þýðir nei?

Ríkissaksóknara bárust 204 kynferðisbrotamál á síðasta ári. Þar af voru tæp 55% felld niður. Þetta eru fleiri mál en bárust í fyrra en þá fór engu að síður hærra hlutfall fyrir dóm. Kærur eru felldar niður ef talið er ólíklegt að málinu ljúki með sakfellingu. Múrinn tók saman tilvitnanir í nokkra dóma í kynferðisbrotamálum. Hér er ekki fjallað um brot gegn börnum. Rétt er að geta þess að hér er ekki tekin afstaða til þess hver er sekur og hver er saklaus heldur einungis bent á atriði í dómunum sem sýna hvernig sönnunarbyrðinni er háttað.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi þann 16. júní 2003 í máli nr. S-346/2003. Ákærði var sýknaður af tveimur nauðgunum. Dómarar voru Þorgeir Ingi Njálsson og Jónas Jóhannsson og dómstjóri Ólöf Pétursdóttir. Hér eru brot úr dómnum um fyrri nauðgunina.

„Ákærði lýsti samförum þeirra nánar á þann veg að þau hefðu byrjað að kyssast og hann kelað við Y og þuklað á henni utan klæða. Hún hefði í fyrstu ýtt hendi hans frá, en hann ekki gefið sig og haldið áfram að káfa á henni. Hann hefði meðal annars reynt að setja aðra höndina ofan í buxur hennar og hún þá sagt „ekki“. Hann hefði þá dregið höndina til baka, en engu að síður haldið áfram að gæla við hana og þrábeðið hana um að afklæðast og hafa við hann samfarir. Á endanum hefði hún gefið eftir og þau haft „venjulegar“ samfarir í rúminu, þar sem Y hefði legið á bakinu og hann ofan á henni. […]
Guðmundur Baldursson rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dómi að ákærði hefði haft samband við lögreglu á hádegi og verið yfirheyrður um málsatvik sama dag. […] kvaðst Guðmundur hafa haft á tilfinningunni að ákærði hefði ekki séð neitt athugavert við fram-komu sína gagnvart konunni og verið sáttur við það að hafa fengið hana til lags við sig.
[…]
Ákærði hefði því næst kveikt sér í hasspípu, en Y sagt að hann skyldi ekki reykja hass í návist hennar.
[…]
Við skýrslugjöf sína hjá lögreglu greindi Y meðal annars frá því að hún hefði beðið fyrir utan umrætt fjöleignarhús á meðan ákærði hefði vikið sér frá og þóst hringja í félaga sinn. Y tjáði sig síðast um málsatvik í skýrslu sinni fyrir dómi og kvaðst þá hafa beðið í anddyri fjöleignarhússins á meðan ákærði hefði farið eitthvert upp og þóst hringja í félaga sinn.
[…]
Í gögnunum kemur fram að Y hafi verið með einkenni áfallastreitu (kreppuviðbrögð), svo sem skjálfta, hraða öndun, hjartslátt og ógleði. Þá hafi hún verið óttaslegin, grátið samfellt, hniprað sig saman og virst endurlifa atburði næturinnar.
[…]
Á hinn bóginn er á það að líta að Y fór sjálfviljug heim til ákærða þrátt fyrir að vera stödd við hlið lögreglustöðvarinnar, en þar hafði hún áður mætt velvilja lögreglumanna, sem hefðu ekið henni heim eftir gleðskap að næturlagi í Keflavík. Y var að eigin sögn verulega ölvuð umrædda nótt. Einhverra hluta vegna hefur hún, eins og að framan er rakið, verið margsaga um ýmis atriði er varða ætlaða háttsemi ákærða, bæði um aðdraganda að því að þau fóru saman inn í herbergi hans í kjallara umrædds fjöleignarhúss og einnig um nánari atvik að því hvernig ákærði á að hafa veist að henni inni í herberginu og þröngvað henni til samræðis. Dregur þetta óhjákvæmilega úr trúverðugleika frásagnar hennar.“

Með öðrum orðum: Kona í losti á að geta sagt hvort hún beið úti eða inni. Konur fá áfallastreitu eftir kynlíf. Það kallast „venjulegar samfarir“ að þrábiðja e-n um að afklæðast og hafa við sig samfarir. Kona sem er mjög drukkin á frekar að fara á lögreglustöðina en heim með félaga sínum. Ef hún fer sjálfviljug heim með einhverjum hefur hann meiri rétt á að nauðga henni. Það er mjög eðlilegt af ákærða að gefa sig fram við lögreglu daginn eftir kynmök. Athyglisvert er að í dóminum fáum við að vita allt um áfengisneyslu kæranda en afskaplega takmarkað um ákærða. Ekki þykir heldur ástæða til að spyrja hann út í hassreykingar. Ætli áfengi og fíkniefni hafi meiri áhrif á ótrúverðugleika konunnar en karlsins?

Lítum næst á dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-103/2004. X var ákærður fyrir kynferðisbrot, með því að haft samfarir við [A], meðan þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. X var sýknaður. Í dómnum segir m.a.:

„Í málinu er ekki ágreiningur um að ákærði hafði samfarir við vitnið A. Þau greinir hins vegar á um tildrög þeirra samfara en engin vitni voru að samskiptum þeirra í rúminu. Eins og að framan er rakið telur ákærði að samfarirnar hafi verið með fullum vilja og þátttöku vitnisins A, en vitnið A telur að þær hafi átt sér stað eftir að hún sofnaði eða lognaðist út af sökum ölvunar, en hún hafi áður neitað að þýðast hann. Af framburði vitna verður ráðið að A hafi verið mjög miður sín er hún lét vita af sér og hún var sótt eftir atburðinn. Hún skýrði vitnum strax frá því að ákærði hefði haft samfarir við sig sofandi og það væri ástæða ástands hennar. Ákærði og félagi hans yfirgáfu íbúðina fljótlega eftir að A var farin. Þykir framangreint styrkja framburð A. Á hitt er að líta að A bað ákærða, að fyrra bragði, um að fá að sofa hjá honum í rúminu. Verður að leggja til grundvallar að hún hafi skömmu áður farið úr hjónarúmi þar sem B svaf og hraut. Þrátt fyrir að ákærði sýndi strax áhuga á samförum brást A hvorki við með því að yfirgefa rúmið né óska eftir að ákærði gerði það. A kveður ákærða hvorki hafa beitt sig valdi né haft uppi hótanir um það. Þykir framburður ákærða fá nokkurn stuðning í framangreindu.“

Með öðrum orðum: Ef karl vill sofa hjá konu en hún ekki hjá honum á hún alls ekki að liggja í sama rúmi og hann.

Loks er það dómur Hæstaréttar í máli nr. 281/1998 . Í því máli var læknir [X] ákærður fyrir að hafa gefið konu [Y] sem hann hafði til meðferðar róandi lyf í miklu magni og síðan nauðgað henni. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur, segir: „Í málinu liggja fyrir gögn, sem gefa til kynna að kærandi hafi, fyrir og eftir afskipti ákærða af henni, neytt ýmissa annarra lyfja en sannað er að ákærði gaf henni. Er þetta nánar rakið í héraðsdómi. Það var niðurstaða dómsins að við mat á framburði kæranda yrði að líta til þessa. Ríki um það óvissa hvaða lyfja hún hafði neytt, í hvaða magni og hver áhrif þau hefðu haft á meðvitund hennar á þeim tíma, sem ákærði hafði kynmök við hana eftir hádegi 13. janúar 1998.“

Í sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir m.a.:

„Um misræmi í framburði sínum við rannsókn og meðferð málsins sagði ákærði að framburður hans hjá lögreglu hafi ekki verið nákvæmur um ýmis atriði, meðal annars vegna þess að honum hafi verið mjög brugðið vegna rangrar kæru og alvarlegs andlegs ástands síns.
[…]
Y hefur borið að hún muni lítið sem ekkert eftir sér þessa nótt. Hún gat ekki um það borið hversu oft né hvenær ákærði kom, taldi að hann hefði komið í tvígang og gerði sér ekki grein fyrir hvenær hann hafði við hana samfarir.
[…]
Af niðurstöðu lyfjaleitar í blóðsýni og þvagsýni, sem tekin voru úr Y á neyðarmóttöku eftir komu hennar þangað um kl. 22.50 umrætt kvöld, er ljóst að hún var þá í mjög slævðu ástandi.
[…]
Y hefur ekki borið á móti því að hún hafi leyft ákærða að leggjast upp í rúm hjá sér, rámar í að hann hafi beðið sig um þetta, en síðan vaknað við að hann var að hafa við hana samfarir. Símtöl sem hún átti, meðal annars við læknavakt og nafngreindan kunningja sinn norður í landi og hún mundi síðar ekki eftir, þykja benda til þess að lyfjaneyslan hafi fremur valdið minnisleysi en rænuskerðingu. Ekki eru bornar brigður á að Y hafi verið í „black-out“ ástandi, eða minnisleysi, en hegðun og framkoma fólks undir slíkum kringumstæðum þarf ekki að benda til þess að um óeðlilegt ástand sé að ræða.“

Með öðrum orðum: Það er ekkert athugavert við að „sofa hjá“ konu í mjög slævðu ástandi. Enn betra er að hafa gefið henni smá lyfjaskammt sjálfur. Ákærði skýrir misræmi í framburði með alvarlegu andlegu ástandi. Uppdópuð konan á hins vegar að muna allt. Einnig má bera þetta saman við dóminn sem er vísað í hér að framan þar sem það þótti ótrúlegt að misræmis skyldi gæta í framburði konu sem var í losti.

Prev PostDaglegt líf: Sunnudagshugleiðingar
Next PostViðhorf: Jafnrétti um jólin