Grein um nauðganir
Birtist á Múrnum 27. júlí 2004

Helgi ofbeldisglæpa framundan?

Verslunarmannahelgin nálgast með öllu því sem henni heyrir til. Landinn skellir sér í regngallann og verslar ýmis konar varning fyrir þúsundir króna. Áfengi, súkkulaði, snakk, grillkjöt, grillsósur, einnota kolagrill, tjaldhælar og fleira rjúka út svo að heitar lummur mega sín einskis.

Þetta er allt saman gott og blessað. Fólk kemur saman í góðra vina hópi, nýtur samvista við náttúruna og leysir heimsvandann yfir glasi. Þannig er mín reynsla sú að á útihátíðum sé vanalega góð stemmning og fólk vinalegt og opnara en oft áður.

Ég hef svo sannarlega ekki orðið vör við meiri leiðindi á útihátíðum en annars staðar þar sem fólk kemur saman. Einhvern veginn finnst mér þetta miklu heilbrigðari skemmtun en nokkrun tíma miðbær Reykjavíkur um helgar. Miðbærinn einkennist nefnilega af reykmettuðum skemmtistöðum og það telst mikil heppni að komast með óskaddaðar tær út af vinsælustu stöðunum. Staðirnir eru svo, heill sé frelsinu, opnir langt fram undir morgun svo göngutúrar um þrjú leytið í fersku lofti eru úr sögunni.

En verslunarmannahelgum fylgir því miður ákveðinn fórnarkostnaður. T.a.m. eru umferðaróhöpp tíðari enda ekki á hverjum degi sem 100.000 manns rjúka út í nýja jeppanum með risatjaldvagn í eftirdragi. Það er þó von að öflugt eftirlit lögreglu og stöðugur áróður Umferðarstofu fái fólk til aka varlega um og virða umferðarreglurnar.

Dekksta hlið verslunarmannahelganna er þó án efa þau kynferðisbrot sem upp koma. Sem betur fer hefur verið mikil vitundarvakning í þjóðfélaginu hvað varðar nauðganir. Karlar hafa í auknum mæli tekið afstöðu gegn þessum glæp en betur má ef duga skal.

Á Íslandi er að minnsta kosti fimmtu hverri konu nauðgað. Það má því leiða líkur að því að fimmti hver karlmaður sé nauðgari. Þrátt fyrir að sumir karlar nauðgi kannski fleiri en einni konu þá er vert að benda á að hópnauðganir eiga sér líka stað. Með þessum tölum ekki ætlunin að reyna að ráðast að fólki með látum heldur einungis að benda á að augljóslega er um stórt samfélagslegt mein að ræða sem við þurfum öll að taka ábyrgð á og vinna gegn.

Um verslunarmannahelgar, líkt og aðrar helgar, eiga alltof margar nauðganir sér stað. Til þess að vinna gegn nauðgunum þarf fyrst og fremst að setja skömmina þar sem hún á heima; hjá ofbeldismanninum.

Svona ljótan ofbelsiglæp á ekki að líða. Nauðganir verða aðeins stöðvaðar ef við vinnum að því.

Með von um nauðgunarfría helgi, nú sem síðar.