Grein í aðdraganda Alþingiskosninga
Birtist í Mosfellingi 8. apríl 2009

Íslandsmeistarinn og skólaskákmeistarinn

Nýverið átti ég leið framhjá Varmárskóla og eins og stundum vill verða helltust minningarnar yfir mig. Samferðamaður minn átti sér eflaust einskis ills von en þurfti að hlusta á misskemmtilegar sögur frá æskuárunum og öllusem þeim fylgdi. Eftir ágæta munnræpu áttaði ég mig á því að líklega hefði ég vel getað kallast tómstundatröll. Ég þurfti að vera alls staðar og mátti ekki missa af neinu. Ég var í kór, lúðrasveit, leiklist, skátunum og skák og prófaði allar mögulegar íþróttir, þó að áhuginn hafi oft verið meiri en hæfileikarnir. Það segir sína sögu að miðað við tómstundaæðið á ég afskaplega fáa verðlaunapeninga og gullpeningana get ég talið á fingrum annarrar handar. Á fimmtán ára fótboltaferli var stærsti titillinn sigur á Pæjumótinu í Eyjum og líklega myndu fáir telja það til merkisafreka að hafa orðið Varmárvisionmeistari.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að sé skák til umræðu þá á ég það stundum til að monta mig af því að hafa orðið skólaskákmeistari Varmárskóla árið 1992. Ákveðið hafði verið að veita sérverðlaun í stúlknaflokki en ég og stórvinkona mín, Auður Alfífa Ketilsdóttir, mættum bara tvær stúlkna til leiks. Drengirnir voru margfalt fleiri. Ég vann Fífu, en bætti svo um betur og með lagni og eflaust smá heppni sigraði ég allt mótið.

Eitthvað steig velgengnin mér til höfuðs því að í framhaldinu ákvað ég að skrá mig til þátttöku á Íslandsmeistaramóti kvenna í skák. Rostinn í mér lækkaði þó fljótt og þegar ég mætti sjálfum Íslandsmeistaranum horfði ég feimin niður á taflborðið. Íslandsmeistari þessi tók skákinni með ró; lék einn leik og náði sér svo í kaffi. Fyrir vikið varð ég hin stressaðasta og tók langan tíma í að velta fyrir mér hvernig ég ætti að svara upphafsleiknum. Langur umþóttunartími minn gerði hins vegar fátt annað en að auka á kaffidrykkju Íslandsmeistarans, og ég tapaði skákinni, eins og reyndar öllum öðrum skákum á mótinu.

Það var því fremur lágt á mér risið á verðlaunaafhendingunni. Íslandsmeistarinn varði sinn titil og eftir að hafa tekið við hamingjuóskum vatt sjálf hetjan sér að mér og ræddi við mig um skáklistina. Á örskotsstundu tókst þessari viðkunnanlegu konu að hvetja barnið mig svo mjög áfram að ég gekk vígreif út, sannfærð um að einn daginn yrði ég Íslandsmeistari í skák, ef ég bara myndi æfa mig nóg.

Sá dagur er reyndar enn ekki upprunninn. En ég hélt áfram að tefla og hef alltaf verið þakklát Íslandsmeistaranum þáverandi, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrir þessa miklu hvatningu. Síðan þá hef ég haft tækifæri til að kynnast henni persónulega og þó að hin barnslega lotning sem varð til á mótinu um árið hafi vikið þá hefur aðdáun mín á Guðfríði Lilju sannarlega ekki minnkað. Hún gengur til verks af heilum hug og sé einhver að láta deigan síga, eins og ég um árið, getur hún með sinni ríku hvatningu fengið hjólin til að snúast að nýju. Mosfellingar fá tækifæri þann 25. apríl nk. til að kjósa Guðfríði Lilju til starfa á Alþingi og geta verið stoltir af því að fá hana sem þingmann kjördæmisins.

Sjálf neyðist ég líklega til að fara að æfa mig í skák, ef ég ætla einhvern tímann að fá nýjan gullpening.