Grein um skattahækkanir
Birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 2009

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú dustað rykið af gamalkunnum hræðsluáróðri um skattpínda þjóð undir stjórn vinstri afla. Á sama tíma er lýst yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafni öllum nýjum sköttum á atvinnulíf og einstaklinga.
Enn sem komið er hafa sjálfstæðimenn þó ekki farið þá frumlegu leið að saka vinstrisinna um að kunna ekki að fara með peninga.

Í þessu ljósi er gott að halda því til haga að sjálfstæðismenn stóðu sjálfir fyrir skattahækkunum skömmu fyrir síðustu jól, enda sáu þeir enga aðra leið færa eftir að efnahagurinn hrundi undir þeirra stjórn. Því liggur beint við að kalla eftir tillögum sjálfstæðismanna um hvaða aðrar leiðir séu færar.

Sjálfstæðisflokkurinn skilaði sannarlega ekki góðu búi eftir hartnær tveggja áratuga valdatíð og seint væri hægt að halda því fram að velferðarkerfið hafi verið offjármagnað á þeim tíma. Svigrúmið til niðurskurðar er einfaldlega ekki mikið. Sé saxað enn frekar á grundvallarstoðir velferðarkerfisins gæti kreppan reynst Íslendingum mun dýrkeyptari til lengri tíma litið.

Við núverandi aðstæður er mjög erfitt að fá glögga mynd af ríkisfjármálum, enda eru óvissuþættirnir margir. Ákjósanlegast væri auðvitað að ekki þyrfti að hækka skatta og að hægt væri að reka öflugt velferðarkerfi án þess að til mikils fjárlagahalla þyrfti að koma. En ef það reynist ómögulegt, hvernig á þá að bregðast við?