Grein um heilbrigðismál
Birtist í Morgunblaðinu eftir nokkra bið 15. maí 2009

Af hverju ekki?

Af hverju ekki? Af hverju ættum við ekki að geta gert hlutina öðruvísi? Þessum spurningum varpaði Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir, fram við lok opins vinnudags sem heilbrigðisráðherra, í samstarfi við fag- og stéttarfélög, efndi til þann 7. apríl sl. Líflegar umræður spunnust um þær áskoranir sem heilbrigðisþjónustan stendur frammi fyrir á tímum efnahagsþrenginga og tekið var á ólíkum hliðum í fjórum málstofum þar sem var rætt um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, samráð við ákvarðanatöku, samspil hins andlega og hins líkamlega og um heilbrigðisþjónustu á krepputímum.

Í kringum 150 manns lánuðu vinnudeginum krafta sína og hugmyndaflug og úr varð mikill hugmyndabanki sem nýtist til áframhaldandi vinnu. Meðal þess sem lagt var til var að efla grunnþjónustu til muna; auka heimahjúkrun og heimaþjónustu; sameina heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið til að tryggja sem besta og skilvirkasta þjónustu; innleiða rafræna sjúkraskrá til að auðvelda alla vinnu og spara fé; endurskoða launakerfi heilbrigðisstarfsfólks og efla samráð við allar ákvarðanir.

Kærkomið samráð

Það skemmtilegasta við vinnudaginn var að kalla saman fólk frá ólíkum stofnunum og í ólíkum stöðum innan heilbrigðisþjónustunnar og fá það til að móta tillögur í sameiningu. Stundum virðast nefnilega múrar milli stétta innan heilbrigðisþjónustunnar vera háir og einn málstofuhópanna lagði t.a.m. áherslu á að rífa þyrfti þessa múra niður. Á vinnudeginum var hins vegar ekki hægt að merkja hópaskiptingu heldur var samhugur í fólki um að takast á við breyttan veruleika með hag heilbrigðisþjónustunnar – og þannig allra íbúa Íslands – að leiðarljósi.

Þá kom skýrt fram að samráð væri mjög kærkomið en mörgum þótti tíminn á vinnudeginum knappur. Það er því ljóst að heilbrigðisstarfsfólk er fúst til að leggja sín lóð á vogarskálarnar í þeim erfiðu verkefnum sem framundan eru. Gerum þetta saman. Af hverju ekki?