Grein um heilbrigðismál
Birtist í Fréttablaðinu 11. apríl 2009

Heilbrigðisþjónusta á tímamótum

Grunnheilbrigðisþjónustu verður að efla og niðurskurðaraðgerðir í velferðarkerfinu þurfa að byggja á heildarsýn þannig að sparnaður á einum stað leiði ekki til kostnaðar á öðrum stað. Þetta er meðal þess sem fram kom á opnum vinnudegi með starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem heilbrigðisráðherra, í samstarfi við fag- og stéttarfélög, efndi til þann 7. apríl. Líflegar umræður sköpuðust á fundinum og í fjórum málstofum sem boðið var upp á þar sem var rætt um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, samráð við ákvarðanatöku, samspil hins andlega og hins líkamlega og þær áskoranir sem heilbrigðisþjónusta stendur frammi fyrir á krepputímum.

Þátttaka í vinnudeginum fór fram úr björtustu vonum og a.m.k.150 manns mættu á staðinn. Mikil ánægja var með aukið samráð og jafnframt kom fram að heilbrigðisyfirvöld yrðu að standa sig betur í því að kalla „fólkið á gólfinu” til skrafs og ráðagerða. Eftir þessar góðu viðtökur og ábyrgu umræður er ekki annað hægt en að taka undir það.

Burt með girðingar

Allir einstaklingar eru á einhverjum tímapunkti ævi sinnar háðir heilbrigðisþjónustunni og umræður á fundinum einkenndust öðru fremur af mikilli virðingu fyrir þessu mikilvæga hlutverki. Meðal þess sem lagt var til var að auka heimahjúkrun og heimaþjónustu; sameina heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið til að tryggja sem besta og skilvirkasta þjónustu; innleiða rafræna sjúkraskrá til að auðvelda alla vinnu og spara fé; endurskoða launakerfi heilbrigðisstarfsfólks; efla samráð við allar ákvarðanir og rífa niður girðingar milli fagstétta.

Hugmyndirnar nýtast allar vel til þeirrar vinnu sem framundan er í heilbrigðiskerfinu. En betur má ef duga skal. Flestir fundargestir virtust sammála um að meiri tíma þyrfti til að móta framtíðartillögur og heilbrigðisstarfsfólk er fúst til að leggja sín lóð á vogarskálarnar í þeim erfiðu verkefnum sem framundan eru. Aukið samráð er það sem koma skal – heilbrigðisþjónustunni og Íslendingum öllum til heilla.

Halla Gunnarsdóttir
Aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra