Grein um heilbrigðismál
Birtist í Fréttablaðinu 1. apríl 2009

Öflug heilbrigðisþjónusta skiptir sköpum

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, hélt fróðlegt erindi á morgunverðarfundi heilbrigðisráðuneytisins 19. mars sl. þar sem fram kom að starfsfólk heilbrigðisgeirans er líklegra til að glíma við streitu á vinnustað en aðrar starfsstéttir. Skýringarnar eru m.a. þær að umönnunarstörf geta tekið mjög á líkama og sál en einnig þær að álag er mikið og deildir oft undirmannaðar. Það er einkum þetta síðasta sem veldur áhyggjum nú þegar Íslendingar ganga í gegnum mikla samdráttartíma.

Góðærið virðist nefnilega ekki hafa náð til stofnana heilbrigðisþjónustunnar. Þvert á móti hafa þessar grunnstofnanir þurft að draga saman ár frá ári til langs tíma. Sparnaðarkröfur eru því ekki nýr veruleiki. Nú þarf að velta við hverjum steini og finna allar leiðir til að hagræða í rekstri. Á það við um heilbrigðisþjónustuna sem annað. Hins vegar verður að vara við því að niðurskurður leiði til stórfelldra uppsagna innan heilbrigðisþjónustunnar og velferðarkerfisins almennt. Ekki nóg með að þær myndu leiða til þess að öll þjónusta við fólk yrði lakari heldur getur það orðið mjög kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið til lengri tíma litið ef atvinnuleysi verður viðvarandi vandamál. Þess vegna skyti skökku við ef stjórnvöld myndu á einum stað skera niður þannig að til fjöldauppsagna kæmi en á öðrum stað leggjast í stór og viðamikil atvinnusköpunarverkefni.

Eitt stærsta atvinnumálið er því að standa vörð um störf á vegum hins opinbera. Konur eru í miklum meirihluta starfsfólks heilbrigðisþjónustunnar og eins og Guðbjörg Linda benti á í áðurnefndum fyrirlestri er það eingöngu læknastéttin sem er að meirihluta skipuð körlum. Uppsagnir í heilbrigðisþjónustunni myndu því koma illa niður á stórum kvennastéttum. Sé litið til reynslu annarra landa má sjá að tilhneigingin er sú á krepputímum að senda konur heim af vinnumarkaðinum og á sama tíma búa til störf fyrir karla, t.d. í þungaiðnaði og mannaflsfrekum framkvæmdum. Ekki þarf að fjölyrða um að þau störf krefjast oft kostnaðarsamra tækja og tóla og um mengandi starfsemi getur verið að ræða. Stærsta vinnutólið innan velferðakerfisins er hins vegar oftast manneskjan sjálf. Þannig mætti t.d. skapa atvinnu með því að fjölga stöðugildum í heimaþjónustu og heimahjúkrun, sem aftur myndi minnka álag á velferðarkerfið á erfiðum tímum.

Staðan sem íslenskt þjóðfélag er í kallar á nýjar lausnir og ný viðhorf. Reynsla annarra landa sýnir að öflugt velferðakerfi skiptir sköpum á tímum sem þessum. Stöndum vörð um velferðarkerfið. Það borgar sig margfalt til lengri tíma litið.