Grein um heilbrigðismál
Birtist í Bæjarins besta 8. apríl 2009
Tálknfirðingur verður Íslendingur

Nýverið átti ég samtal við Akureyring sem í ónefndu samhengi minntist nokkrum sinnum á hagsmuni landsbyggðarinnar. Í framhaldinu fór ég að velta fyrir mér þessari hugmynd um landsbyggðina sem eina heild en henni er oft stillt upp andspænis höfuðborgarsvæðinu. Sjálf er ég alin upp í Mosfellsbæ og bý í Reykjavík en kynni mig aldrei sem Mosfelling eða Reykvíking. Tvisvar sinnum hef ég tekið mitt hafurtask og flutt út á land, nánar tiltekið austur á firði, og í bæði skiptin kom það mér á óvart þegar ég flutti suður aftur að hægt væri að tala um Austfirðinga sem einn hóp. Á heimaslóðum var rígurinn slíkur milli bæja að erfitt var að ímynda sér að íbúar gætu nokkurn tímann komið sér saman um eitthvert mál. En einhvern veginn er það þannig að þegar samhengið verður stærra verður samstaðan meiri. Þannig verða Tálknfirðingar Vestfirðingar, Vestfirðingar landsbyggðarfólk og landsbyggðarfólk Íslendingar, allt eftir samhengi.

Þetta kom mér í huga þegar ég fetaði mig inn í frumskóg heilbrigðisþjónustunnar fyrir rúmum tveimur mánuðum en þar er hópaskiptingin er mikil. Annars vegar er skipting milli stofnana og þ.a.l. svæða en hins vegar milli fagstétta, sem eiga það til að hnýta hverjar í aðra. Að sjálfsögðu er smá rígur bara hressandi en hann getur orðið heftandi og staðið í vegi fyrir bestu málum.

Aldrei hefur samstaða innan heilbrigðiskerfisins verið mikilvægari en einmitt nú, þegar skórinn kreppir að. Niðurskurðurinn hefur eðli málsins samkvæmt verið sársaukafullur og forstöðumenn stofnana og starfsfólk hafa sýnt ótrúlegt þrek við erfiðari aðstæður.

Velferðarmál eru atvinnumál

Reynsla annarra landa sýnir að á krepputímum á velferðarþjónusta oft mjög undir högg að sækja. Stjórnvöld þurfa að senda skýr skilaboð og það getur varla talist skynsamlegt að standa að niðurskurði sem leiðir til fjöldauppsagna á einum stað en ráðast á sama tíma í stór atvinnuátaksverkefni á öðrum stað. Eitt stærsta atvinnumálið er því að standa vörð um störf á vegum hins opinbera og þar vegur heilbrigðiskerfið þungt.

Með vel ígrunduðum ákvörðun, sem taka mið af reynslu og þekkingu þeirra sem starfa á hverju svæði fyrir sig, má koma í veg fyrir að unninn verði óafturkræfur skaði á heilbrigðisþjónustunni. Til þess þarf samstöðu, bæði innan heilbrigðisþjónustunnar og utan. Leggjum hópaskiptinguna til hliðar og sameinumst í varðstöðu um íslenskt velferðarkerfi. Það margborgar sig til lengri tíma litið.

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra