Grein um heilbrigðismál
Birtist í Austurglugganum 8. apríl 2009

Heilbrigðismál eru atvinnumál

Íbúar Austurlands hafa eins og aðrir Íslendingar fundið áþreifanlega fyrir niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Það segir sig sjálft að þegar útgjöld til heilbrigðisþjónustu eru 6,7 milljörðum króna lægri en áætlað var þá er það ekki sársaukalaust, sérstaklega í ljósi þess að stofnanir heilbrigðisþjónustunnar voru langt frá því að vera offjármagnaðar eftir langa valdatíð Sjálfstæðisflokksins.

Starfsfólk heilbrigðisstofnanna hefur sýnt ótrúlegt þrek við erfiðari aðstæður. Baráttan er hins vegar rétt að byrja. Dæmin frá öðrum löndum sýna að þegar illar árar er fljótt farið að saxa á grunnstoðir velferðarþjónustunnar. Slíkar aðgerðir geta valdið óbætanlegum skaða og orðið til þess að afleiðingar efnahagsþrenginga verða langvinnari og dýrari en annars.

Langvarandi atvinnuleysi getur haft mjög slæm áhrif á heilsufar og þannig aukið álag á heilbrigðisþjónustuna. Þess vegna eru atvinnumál heilbrigðismál og um leið eru heilbrigðismál atvinnumál. Eitt stærsta atvinnumálið er að verja störf á vegum hins opinbera og þar vegur velferðarkerfið þungt.

Verkefni næstu ára verða strembin og kalla á ný viðhorf og nýjar lausnir. Með vel ígrunduðum ákvörðunum, sem taka mið af reynslu þeirra sem starfa á hverju svæði fyrir sig, getum við seinna meir litið stolt um öxl og fagnað því að hafa komist frá þessum tímum án þess að vinna stórskaða á grunnstoðum velferðarkerfisins. Það margborgar sig til lengri tíma litið.

Halla Gunnarsdóttir
aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra