Ávarp flutt á opnum borgarafundi í Iðnó
8. nóvember 2008

Kæri Björgólfur

Björgólfur!
mig langar svo að tala við þig
útskýra mína hlið
og hvernig ég sé þetta
ég vona ég sé ekki að trufla
ertu upptekinn þessa dagana?

Björgólfur,
ég er blaðamaður
á mogganum
sem þú átt
eða áttir
eða hvað?

geturðu sagt mér, Björgólfur
hvað verður um moggann?
mér finnst svo óþægilegt að vita það ekki

***

Björgólfur,
þetta kaupæði
sem þú sagðir í mogganum
að hefði runnið á alla íslendinga
ég kannast ekki við það
ég á ekki sumarhús
eða hjólhýsi
eða jeppa

Björgólfur,
ég keypti mér aldrei flatskjá
ég á ekki einu sinni sjónvarp

það er ópíum fólksins
held ég

og fyrir framan sjónvarpið
slokknar á öllu
það er gott, Björgólfur

mjög gott

og hættulegt
stórhættulegt

ég á reyndar örbylgjuofn
þú nefndir hann samt ekki

***

Björgólfur,
ég hef alltaf verið dugleg að vinna
ég vann í sjoppu
ég þjálfaði fótbolta
ég vann á lager
ég kenndi börnum
ég raðaði trópí í hillur

ég reyndi einu sinni að selja pressuna
en þá hrópaði á mig gamall maður
að pressan væri rusl
ég hætti að selja pressuna

þá hélt ég að gamlir menn hefðu alltaf rétt fyrir sér
hafa þeir það?

Björgólfur,
ég las við þig viðtalið
og mig langar að segja
að ég skil þig
ég veit hvernig tilfinning það er
að hrópað sé á þig
eins og þú sért höfuð alls ills

ég er blaðamaður, Björgólfur
seðlabankinn, fyrirtæki, stjórnmálamenn, eftirlitsstofnanir
og ekki síst fjölmiðlar
það sagði þorgerður katrín

og ég hélt allt í einu að ég hefði skemmt allt

***

mér fannst alltaf skrítið að fólk keypti allt á lánum
og mér fannst alltaf skrítið að menn væru í stanslausu spili
matadori, Björgólfur

mér þykja einkaþotur asnalegar
en mér var alveg sama þótt þú værir í keppni
við hina strákana

ég hef spilað matador
ég veit hvernig tilfinning það er
að vinna
ég vann næstum því alltaf

en ef ég tapaði
þá var það allt í lagi
ég fékk mér bara ristað brauð
og kakó

tvö glös af kakói
það var eftirlætið mitt
þegar ég var lítil

þegar ég var lítil
og spilaði matador
og fékk kakó
stundum

***

sjónvarpsleysið, Björgólfur
það bjargaði mér ekki
það slokknaði líka á mér
ég áttaði mig ekki á því
að ég þyrfti að borga fyrir matadorið
sem ég tók ekki þátt í

það á ekki að fara illa með almannafé
og ég er sammála, Björgólfur
ég er sammála því að það eigi ekki að bruðla með peninga
hvorki almanna né eigin

en samt sagði ég ekki neitt

þegar þú keyptir austurstræti og bankastræti og aðalstræti og hafnarstræti og pósthústræti og laufásveg og laugaveg og sólvallagötu og hávallagötu
fyrir peningana mína

peninga sem voru faldir bak við orð sem ég skildi ekki

***

áramótaheitið mitt, Björgólfur
var að reyna að skilja peninga

ég fór á námskeið og lærði um stýrivexti og eigið fé og spákaupmennsku og lánshæfiseinkunn og skortstöðu og skortsölu og vísitölu og verðtryggingu
og ég reyndi að spyrja eins mikið og ég gat

og alltaf létu menn eins og þeir væru með allt á hreinu
en gátu samt ekkert útskýrt

Björgólfur, maður talar ekki skýrar
en maður hugsar
matadorið ykkar var alltof flókið
svo flókið að það kunni enginn reglurnar
og svo asnalegt að allir töpuðu
og nú þarf ég að borga
aftur

***

ég veit alveg, Björgólfur
að það verður í lagi með mig
ég veðsetti engar götur
en Björgólfur,
það verður ekki allt í lagi með alla
og það finnst mér sárt

ég veit alveg
að við tókum öll þátt í rétttrúnaðinum
við sungum með

trallalalalalala
lalalalala

ég söng falskt
til að ögra kórnum
og fannst ég vera að mótmæla
en ég söng samt

TRALLALALALA
LALALALA
LALALA
LALLALALALA

***

og ritstjórinn minn gamli
hann sagði að það væru hræðilegir hlutir að gerast
í fjármálaheiminum
ég hlustaði
en ég skildi hann ekki
og ég viðurkenni
að stundum hélt ég hann væri orðinn smá klikk

hann var stríðsmaður, Björgólfur
harðsnúinn kaldastríðsmaður
alla tíð
og ég hélt hann vildi vera það áfram

ég er ekki stríðsmaður, Björgólfur
mér finnst best ef allir hjálpast að

***

Björgólfur,
pabbi segir að þú sért fínn kall
og bubbi segir það líka
ég trúi þeim, Björgólfur

ég hitti þig einu sinni
og ég man að það kom mér svo á óvart hvað þú varst hress
ég hélt að maður
sem ætti svona mikla peninga
gæti ekki verið hress
ekki frjáls

Björgólfur, er ekki vont að eiga heimavörn?

***

Björgólfur,
ég veit að þú varst duglegur að vinna
eins og ég
og líklega vannstu lengri vinnudag
mín vegna hefðirðu alveg mátt, Björgólfur
fá tvöfalt hærra kaup
og kannski aðeins meira en það
vegna ábyrgðar

Björgólfur,
ég var eins árs þegar davíð oddsson varð borgarstjóri
síðan forsætisráðherra
seðlabankastjóri
og hann er líka skáld
ég treysti honum ekki, Björgólfur
en samt hlusta ég
þegar hann talar
því ég þekki röddina hans svo vel

Björgólfur, hann var alltaf í skaupinu
afmælisbarn með stóra köku
og eina sneið fyrir gestina

Björgólfur,
mig langaði ekkert í köku
ég hafði það bara fínt
í mínu flatskjásleysi
og þannig vil ég hafa það áfram

***

Björgólfur,
ég vona að forseti gefi þér upp sakir
og öllum hinum
égerreiðútíykkurþvímiglangaðiaðnotaspariféðmittíferðtilindlandsenekkitilaðborganiðurskuldirsemégskilekkiafhverjuerutilen

ég losna við reiðina
og ég skal borga, Björgólfur
ég skal borga með einu skilyrði
að þetta gerist ekki aftur
að við hjálpumst að
við að byggja upp samfélag

saman í þessu

og við getum spilað matador
um helgar
með pappírspeninga
og drukkið kakó

saman í þessu

ertu til í það, Björgólfur?

ertu til í það?