Friðarmál: Ræða í tilefni af 8. mars

Ræða flutt í Ráðhúsinu á hátíðarhöldum í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna
8. mars 2006

Kæru friðarsinnar

Ég fór svolítið fram og aftur með hvað ég ætti að tala um hérna í dag. Nokkurra mínútna erindi getur hljómað svo óendanlega langt þegar tölvuskjárinn er auður, en um leið svo ótrúlega stutt þegar fjalla á um mikilvægt og víðfemt efni á borð þróunaraðstoð.

Biskup Íslands sagði í predikun milli jóla og nýárs að fólk ætti að gefa þannig að það fyndi fyrir því. Ég kinkaði kolli og þakkaði honum í huganum fyrir áminninguna, síðan hélt ég áfram að vinna fyrir peningum sem ég nota aðeins að litlu leyti í gjafir.

En til hvers að gefa?
Til hvers? Þ.e. hverjum á ég að gefa?
og
Til hvers? Af hverju á ég að gefa?

Nýverið sótti ég heimssamkomu félagshreyfinga í Malí í V-Afríku. Malí er eitt af 10 fátækustu ríkjum heims og V-Afríka er einmitt sunnan Sahara sem oftast er talað um sem fátækasta svæði heims.

Í hverju spori í Malí hugsaði ég um hvað ég ætti að gefa og hvernig ég ætti að fara að því.

Ég hitti konu sem sagði að gjafir þyrfti að gefa með virðingu. Ég kinkaði kolli og skrifaði grein um það. Fyrir greinina fékk ég peninga sem ég gaf ósköp lítið af.

Í Malí sótti ég fund femínista frá ótal löndum sem kalla sig gjafahagkerfisfemínista. Mig langar að kynna fyrir ykkur hugmyndir þeirra.
Gjafahagkerfisfemínistarnir segja markaðshagkerfið ekki vera náttúrulögmál þótt oft sé látið sem svo sé. Markaðurinn leiði af sér einangrun, samkeppni, yfirráð og í sínu versta formi: stríð.
Gjöf er aftur á móti andstæðan við markaðinn. Hún leiðir af sér ánægju, samskipti og vináttu.

Gjafahagkerfisfemínistar vilja fremur að við byggjum samfélag okkar á gjöfum. Líkt og mæður gefi börnum sínum allt hið besta beri fólki að gefa náunganum allt hið besta. Það sé okkur raunar eðlislægra en að kaupa og selja.

Markaðshagkerfi heimsins byggi hins vegar á þvinguðum gjöfum frá botninum, hinu vinnandi fólki, og upp á topp, til hinna ríku. Síðan sé jafnvel látið líta út fyrir að ríka fólkið sé voðalega gott við fólkið á gólfinu með því að veita styrkjum til hinna og þessa málefna eða með því að hækka launin þeirra örlítið.

Ég velti því fyrir mér hversu mikið væri til í þessu. Ein af ástæðunum fyrir því að ég get ferðast er að ég er nokkuð lunkinn við að spara. En ástæðan fyrir að ég get sparað er jú að ég hef peninga milli handanna sem ég get ráðstafað, og ég get valið í hvað ég ráðstafa þeim.
Ég kaupi mér yfirleitt ódýr föt en gleymi að kíkja á hvar þau eru búin til. Þau eru ódýr af tveimur ástæðum: Það er ekkert dýrt merki á þeim og svo eru þau búin til að fólki sem fékk litla peninga fyrir. Fólki sem jafnvel vinnur 14 stunda vinnudag og fær sjaldan frí.
Ég er kannski ekki efst á toppnum að taka við gjöfum þegar ég hugsa um Ísland, en ef ég hugsa hnattrænt er ég ansi ofarlega.

Þegar ég gef þá hef ég miklar áhyggjur af því í hvað peningarnir sem ég gef fara. Getur verið að betlarinn sé bara að þykjast vera betlari en búi í stórri villu?
Áhyggjur mínar eru sambærilegar þeim áhyggjum sem forsvarsmenn Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa þegar þeir ákveða hvar eigi að fella niður skuldir og hvar ekki. Getur verið að peningarnir fari aðeins í vasa spilltra embættismanna?
Reyndar er svo önnur umræða hvort fátæku ríkin skuldi þeim ríkari eða hvort því sé öfugt farið.

Alþjóðastofnanir hafa brugðið á það ráð að setja skilyrði fyrir nýtingu fjársins sem þær láta af hendi.
Skilyrðin eru misgóð. Sum þeirra eru til að styðja við lýðræði og mannréttindi en önnur til að opna markaði og að því er virðist stundum aðeins til að vestræn fyrirtæki geti grætt meira. Krafan er raunar sú að þróunin sem tók nokkrar aldir á Vesturlöndum gerist á nokkrum árum í þróunarlöndum.

Þegar ég gekk um göturnar í Malí var ég oftar en ekki með hugann við það að gefa. Ég gaf öldruðum betlurum, fötluðum og konum. Ástæðan fyrir því að ég bjó mér til reglu var að þá slapp ég við þann leiða ávana að vera svo mikið að velta því fyrir mér hverjum ég eigi að gefa að ég enda með að gefa engum.

Ég er nefnilega ótrúlega vel upp alin af vestrænum gildum um að láta helst aldrei neitt af hendi rakna: Þetta eru mínir peningar og það var ég sem vann fyrir þeim. Flestir sem ásælast þá eru að fúskarar sem geta alveg unnið sjálfir! (Sagði einhver orðræða um íslenska öryrkja?)

Gjöf þarf ekkert endilega að vera fjárhagsleg. Í dag get ég gefið bros, á morgun get ég gefið vinnu mína, hinn daginn get ég gefið peninga. Það eitt að gefa fólki tíma sinn getur verið óendanlega dýrmætt.

Þegar gjöf er gefin eru alltaf tekin ákveðin áhætta. Kannski fer betlarinn beina leið með peningana í lúxusvilluna sína en ætla ég að láta alla betlara heimsins líða fyrir nokkra skúrka?
Kannski kann strætóbílstjórinn ekki að meta það þegar ég brosi til hans. Kannski held ég að hann kunni ekki að meta það því hann brosir ekki á móti en hver veit nema hann hafi glaðst og jafnvel brosað til næstu manneskju. Gjöfin sem ég gef út í samfélagið kemur kannski til baka til mín seinna, í einhverju formi, kannski ekki.

Okkur sem tökum við gjöfum utan úr heimi, t.d. í formi ódýrs vinnuafls, er því miður tamt að gefa fremur lítið til baka og sjaldnast þannig að við finnum fyrir því.
Viljinn er eflaust fyrir hendi en einhvern veginn gleymum við því í amstri dagsins eða okkur finnst kannski að einhver annar eigi að gefa.
En við búum ekki aðeins á Íslandi, við búum í stórum heimi, og í þessum heimi er margt fólk sem þarf á gjöfum okkar að halda.

Til hvers að gefa? Þ.e. hverjum á ég að gefa?
Þeim sem þurfa á því að halda eða biðja mig um gjafir. Líka þeim sem þurfa ekki á því að halda og biðja mig ekki um neitt.
og
Til hvers að gefa?
Af því að ég get það.

Prev PostMalí: Leiðin til Timbúktú
Next PostViðhorf: Bomba eða spjalla?