Birtist í DV 2. ágúst 2013
Það kann að vera að bera í bakkafullann lækinn að ætla að stinga niður penna vegna máls þess sem skók fótboltasamfélagið á Íslandi í vikunni, það er ákvörðun Arons Jóhannssonar að leika fyrir bandaríska landsliðið fremur en hið íslenska. Í umræðunni hefur mátt greina ýmis stef sem eru skoðunar verð, meðal annars út frá þjóðernishyggju og tengslum hennar við karlafótbolta og aðrar íþróttir, en um þá þætti fjallaði Hafdís Erla Hafsteinsdóttir í áhugaverðri BA ritgerð sinni frá vorinu 2011. Þetta er þó ekki viðfangsefni þessarar greinar, heldur það að staldra aðeins við þann þátt í yfirlýsingu KSÍ vegna málsins að Aron hafi fengið „knattspyrnulegt uppeldi innan vébanda KSÍ“. Af þessu má ráða að KSÍ leggi mikið upp úr knattspyrnulegu uppeldi og eigi þar með talsvert inni hjá fótboltaiðkendum landsins. En þetta er aðeins hálfur sannleikur.
Fjárframlög og sjálfboðaliðar
Í ársreikningi KSÍ fyrir árið 2012 má lesa að sambandið veitti það árið rúmum 70 milljónum króna í styrki til aðildarfélaga. Þar af fóru um 40 milljónir króna til stuðnings við barna- og unglingastarf félaga sem ekki eru með lið í úrvalsdeild karla, en þau síðarnefndu fengu beina styrki frá UEFA til barna- og unglingastarfs. Þetta var því mikilvægur stuðningur en þegar litið er til þeirra fjármuna sem KSÍ ræður yfir þá er fjárhæðin kannski ekki ýkja há. Sem dæmi má nefna að kostnaður við rekstur landsliða var þetta sama ár 355 milljónir króna (þar af um 300 milljónir til A-landsliðanna) og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður sambandsins hljóðaði upp á 178 milljónir króna. Til að gæta sanngirni þá nýtur barna- og unglingastarf að sjálfsögðu góðs af þeim fjármunum sem KSÍ ver til mótahalds og fræðslustarfs. En til að gera langa sögu stutta þá er æskulýðsstarfi fótboltans að langmestu leyti haldið uppi með ómetanlegri sjálfboðaliðavinnu áhugafólks og eftir atvikum styrkjum frá fyrirtækjum, æfingagjöldum og framlagi sveitarfélaga, er lýtur einkum að aðstöðu til íþróttaiðkunar.
Starf yngri flokka telur ekki
Hitt er þó alvarlegra og það er sú afstaða til starfs yngri flokka sem endurspeglast í lögum KSÍ. Samkvæmt þeim fer ársþing sambandsins – knattspyrnuþingið – með æðsta vald í málefnum sambandsins. Þingið setur lög, samþykkir ársreikninga, fjallar um málefni fótboltans á Íslandi og kýs formann og stjórn. Samkvæmt lögum KSÍ eiga fulltrúar frá aðildarfélögum sæti og atkvæðarétt á þinginu, en aðeins að þau haldi úti meistaraflokki. Félög sem eingöngu sinna yngriflokkastarfi, líkt og á stundum við um lítil félög á landsbyggðinni, eiga ekki setu- og atkvæðarétt á þinginu. Þetta gerir það að verkum að félög eins og Hvíti riddarinn og Afríka, sem ekki halda úti æfingum í yngri flokkum, geta átt þátt í ákvörðunum á æðstu samkomu KSÍ á meðan lítil félög sem skipuleggja fótboltastarf á Vestfjörðum og Austfjörðum, svo dæmi séu tekin, geta ekki tekið þátt í stefnumótum sambandsins, nema þar sem þau eiga aðild að sameinuðum liðum sem stilla upp liði í meistaraflokki, en þá er áhrifamáttur þeirra takmarkaður.
Ójafn atkvæðafjöldi
Ennfremur fer fulltrúafjöldi – og þar með atkvæðafjöldi – aðildarfélaga á ársþingi KSÍ eftir því í hvaða deild meistaraflokkar þeirra leika. Þannig eiga félög með úrvalsdeildarlið fjóra fulltrúa á þinginu, lið með félög í fyrstu deild karla þrjá, í annarri deild tvo og lið með meistaraflokka karla eða kvenna í öðrum deildum eiga einn fulltrúa. Þetta gerir það að verkum að KR og FH hafa margfalt meira að segja um þróun KSÍ en félög á borð við Fjarðabyggð/Leikni og Skallagrím. Bæði þessi félög halda þó úti mikilvægu yngriflokkastarfi á svæðum þar sem börn og unglingar leita ekki auðveldlega annað til að æfa fótbolta.
Meistaraflokksáherslan of rík
Í lögum KSÍ endurspeglast því ákveðin afstaða til starfs yngri flokka sem þarfnast endurskoðunar. Með þessu fyrirkomulagi rís KSÍ ekki undir merkjum sem flaggskip fótboltastarfs í landinu. Áherslan á meistaraflokkastarf, einkum bestu liðanna, er of rík. Stjórn KSÍ kann að líta svo á að sambandið eigi eitthvað inni hjá Aroni Jóhannssyni vegna þátttöku hans í ungmennalandsleikjum, en vísunin til knattspyrnuuppeldis almennt vekur upp spurningar, ekki aðeins hvað Aron varðar heldur fótboltbörn og -unglinga landsins í heild sinni. Ég skora á aðildarfélög KSÍ að beita sér fyrir breytingum á þessu, fyrir fótboltann í landinu.