Fótboltinn, kynin og hraðinn

Birtist á knuz.is 8. maí 2013

Enn á ný er sprottin upp umræða um jafnréttismál og fótbolta, að þessu sinni í tengslum við greiðslur til dómara eftir því hvort þeir dæma leiki í úrvalsdeild karla eða úrvalsdeild kvenna. Í ljós hefur komið að munurinn á greiðslum er 156%, þar sem dómarar á karlaleikjum fá greiddar 39.450 kr. en á kvennaleikjum 15.400. Framkvæmdastjóri KSÍ hefur mætt í fréttir og fréttaþætti til að útskýra þennan mun með vísan til hraða og hinnar miklu ábyrgðar sem það er að dæma karlaleiki. Já, karlarnir hlaupa hraðar, því verður ekki neitað, og sá eða sú sem dæmir karlaleik þarf þ.a.l. að geta hlaupið hraðar. En bíðum aðeins við, er það nægileg ástæða til að réttlæta þennan mikla launamun? Sama hvað tínt er til, hvernig ná menn að reikna það út að það sé 156% erfiðara að dæma karlaleik en kvennaleik, leik sem tekur jafn langan tíma og krefst sömu þekkingar og færni?

Að reikna réttlætið

Hugsum þetta aðeins lengra: Konur hlaupa almennt hægar en karlar og geta þurft þurfa að hafa meira fyrir því að komast í gott form. Munur milli einstaklinga getur líka verið mikill en þetta myndi normalkúrfan segja okkur. Það þýðir að kona sem ætlar að dæma karlaleik þarf að hafa mjög mikið fyrir því að koma sér í form. Aukinheldur þarf hún að slást við rótgróna fordóma vegna kyns síns, þar sem hætt er við að kyn hennar sé gert að aðalatriði ef menn eru ósáttir við dómgæsluna. Karl sem þarf að dæma sama leik þarf ekki að hafa eins mikið fyrir hlutunum. Karl sem dæmir kvennaleik þarf hins vegar að hafa minna fyrir því að vera í nægilega góðu formi en kona sem dæmir kvennaleik. Þannig að ef laun knattspyrnudómara eiga að fara eftir því hversu mikið fólk þarf að leggja á sig fyrir leikina þá mætti alveg eins halda því fram að hæstlaunuðu dómararnir ættu að vera konur sem dæma karlaleiki en þeir lægstlaunuðu karlar sem dæma kvennaleiki. Svo mætti kannski reikna inn í þetta fleiri breytur en kyn, s.s. astma og fituprósentu. Þetta hljómar ruglað – og er ruglað – en ekki endilega fjarstæðukenndara en sá launamunur sem nú er við lýði.

Félagsstarf, ekki iðnaður

Þegar svona reikningskúnstir eru annars vegar má hins vegar ætla að upp komi á yfirborðið hin raunverulegu sjónarmið sem er ekki ólíklegt að búi að baki þeim fullyrðingum sem hafa fengið að fljóta í umræðunni undanfarna daga og er eitthvað á þessa leið: Þeir sem hlaupa hraðar (af náttúrunnar hendi) eiga að fá hærri greiðslur, af því að þeir eru svo fljótir.

Síðan er bætt við: Það horfa miklu fleiri á karlaleikina, tekjur af þeim eru því hærri og þess vegna eiga greiðslur til dómara (og fótboltamannanna) að vera hærri.

Við síðari fullyrðingunni er það að segja að fótbolti er ekki auðlind á Íslandi, hann er fyrst og fremst áhugamál, þeirra sem hann spila og þeirra sem að honum koma. Fótbolti nýtur mikilla styrkja; frá hinu opinbera og einkafyrirtækjum hér heima og frá alþjóðaknattspyrnusamböndunum. Í kringum fótbolta, bæði karla- og kvennabolta, er aukinheldur unnin ómæld sjálfboðaliðavinna, af konum og körlum og börnum. Fótboltinn er því ekki einhver iðnaður sem veltir fjármunum, heldur einkum og sér í lagi vettvangur öflugs félagsstarfs.

Samhengi hlutanna

Og þá komum við að grunnspurningunni, sem við höfum rætt í áratugi: Viljum við halda úti kvennaknattspyrnu á Íslandi (jafnvel þótt konur hlaupi að meðaltali ekki jafnhratt og karlar)?

Þessi umræða sem nú hefur spunnist sprettur nefnilega ekki úr lausu lofti. Hún er í samhengi áranna og áratuganna. Konur hafa haft áhuga á fótbolta allt frá því að leikurinn þróaðist upp úr miðri 19. öld (ég vil auðvitað meina að í eðlilegum heimi jafnra tækifæra og án fordóma þætti öllum gaman að spila fótbolta, undantekningarnar væru jafnmargar og börn sem finnst ekki gaman að hjóla, en það er önnur saga). Konum var hins vegar haldið markvisst frá íþróttinni, þetta átti að vera íþrótt fyrir stráka, ekki stelpur. Þetta er afstaða sem er eiginlega ekkert hægt að leitast við að skýra, svo rugluð er hún, en hún hangir í þeirri heimssögulegu hugmynd að það nægi ekki að karlar og konur séu ólík af náttúrunnar hendi heldur verði samfélögin (menning, trúarbrögð, ríki o.s.frv.) að leita allra leiða til að ýkja þann mun og reka sem öflugasta aðskilnaðarstefnu. Íþróttir hafa þvælst inn í þetta. Hér á landi t.d. í því formi að fótbolti eigi einkum að vera fyrir stráka, í Íran, svo fjarlægt dæmi sé tekið, í því formi að konur eigi alls ekki að hlaupa eða hreyfast hratt, svo sem klerkarnir fyrirskipuðu eftir byltingu árið 1979 (reyndar kom svo í ljós að heilsu kvenna hrakaði svo ofboðslega vegna hreyfingarleysisins að klerkarnir þurftu að endurskoða þessa heilögu, trúarlegu afstöðu sína og breyta um kúrs).

KSÍ gangi á undan

Þegar ég gekk út á völl í frímínútum í sex ára bekk og spurði hvort ég mætti vera með var svarið: Nei, þú ert stelpa (um þróun þessa má lesa nánar hér). Þetta átti sér ekki stað fyrir áttatíu árum síðan heldur árið 1986. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, en ennþá virðast konur þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum í fótbolta á Íslandi. Fréttin um launamál dómara er því ekki einstakt tilfelli sem ber að skoða í ljósi þess hversu hratt fólk getur hlaupið eða hve mörg vafamál koma upp, heldur verður hún að skoðast í samhengi við það misrétti sem ríkt hefur innan íþróttarinnar áratugum saman, misréttis sem við höfum lagt allt kapp á að uppræta og megum ekki láta staðar numið. Þess vegna falla skýringar KSÍ ekki í kramið, því við sættum okkur ekki lengur við að litlar stelpur sem elska fótbolta séu álitnar annars flokks við hliðina á strákum sem elska fótbolta. Því fótbolti er fyrst og fremst félagsstarf, sem við eigum öll að geta notið. KSÍ ber mikla ábyrgð og þarf að ganga á undan með góðu fordæmi, ekki á eftir með hangandi haus. Ég trúi því að innan KSÍ sé viljinn, peningarnir eru til (gróflega áætlað miðað við ársreikning KSÍ), þá er bara að þora og framkvæma!

Prev PostLausnarorðið: Internetið
Next PostÚtlendingamál og rangfærslur Pawels