Birtist í DV 24. apríl 2013
Á nýafstaðinni alþjóðaráðstefnu innanríkisráðuneytisins og fleiri aðila um mannréttindi og stríð sagði Cynthia Enloe, prófessor við Clarke-háskóla, sögu af því þegar frjáls félagasamtök sem börðust fyrir mannréttindum í Afganistan dreifðu útvarpstækjum í fjallaþorpum þar sem samgöngur voru strjálar og langt milli fólks. Félagasamtökin stóðu síðan fyrir útvarpssendingum með upplýsingum og fréttum og lögðu jafnframt áherslu á að fjalla um réttindi og heilsu kvenna, enda getur engin mannréttindabarátta farið fram án þess að taka mið af ólíkri stöðu kynjanna í heiminum.
En svo reyndist þetta ekki eins vel og vonir stóðu til. Hvers vegna?
Jú, útvarpstækin voru strax komin undir „stjórn“ karlanna í þorpunum. Konur máttu ekki snerta þau eða vera viðstaddar þegar karlar söfnuðust saman til að hlýða á erindi hins frjálsa heims. Útvarpstækin urðu því til að auka völd karla í þessum litlu samfélögum, þeir urðu handahafar hinna mikilvægu upplýsinga á meðan bilið milli þeirra og kvenna breikkaði.
Ekki önnur veröld
Þessi saga kemur ítrekað upp í hugann þegar Píratar kynna stefnumál sín þar sem internetið er í forgrunni. Það er reyndar áhugavert út af fyrir sig hvernig liðsmenn samtakanna stilla ítrekað fram röngum upplýsingum um aðgerðir innanríkisráðuneytisins vegna kláms í þeim tilgangi að mála sig upp sem varðhunda internetsins – sjóræningja í stríði sem á sér ekki stað. Það er þó ekki viðfangsefni þessarar greinar, heldur hitt, hvernig internetinu er stillt upp sem lausn við öllum heimsins vanda, nú síðast við fátækt með grein sem birtist í Fréttablaðinu 19. apríl sl.
En Internetið er, líkt og útvarpið í frásögn Enloe, aðeins miðill, tæki sem hægt er að nota til að koma upplýsingum á framfæri og taka við þeim. Hvernig sá miðill er nýttur er aftur allt annað mál. Miðla er hægt nota til góðs eins og upplýstrar lýðræðisumræðu eða ills, eins og þegar útvarpið var misnotað til múgæsingar og hvatningar til fjöldamorða í Rúanda og Bosníu. Hér spila því inn fjölmargir þættir sem krefjast betri athugunar, þættir sem hafa að gera með samfélag fólks, enda er netið ekki önnur veröld sem lýtur öðrum lögmálum, eins og skilja má af málflutningi sumra þeirra sem kenna sig við ást á netinu.
Efling lýðræðis
Það er hins vegar rétt hjá Pírötum að internetið er um margt vannýtt nú á bernskudögum þess. Í innanríkisráðuneytinu hefur verið unnið mikið starf á síðustu árum við að byggja upp þekkingu og innviði sem gera að verkum að internetið megi nýta betur í þágu lýðræðisins, samhliða því að efla beint lýðræði. Þannig hafa verið samþykkt lög um rafrænar kosningar til sveitarstjórna og íbúar sveitarfélags geta nú samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum farið fram á íbúakosningu um mikilvæg málefni. Haldnar hafa verið ráðstefnur og fundir um beint lýðræði með aðkomu evrópskra og bandarískra sérfræðinga í þessum málefnum, auk hinna fjölmörgu innlendu sérfræðinga og áhugafólks um málaflokkinn.
Þessi stefna þýðir þó ekki að hægt sé að láta ótalið að ræða einnig um dekkri hliðar samfélags fólks á internetinu. Hvernig tæknin getur verið notuð til að meiða og kúga og hvernig markaðsöflin nýta netið til að móta hugsun og hegðun fólks. Við þurfum að fjalla um þann mismun sem getur verið á aðgengi fólks að netinu eftir uppruna, búsetu og heilsu og þann aðstöðumun sem getur verið milli fólks í netsamfélaginu. Þetta eru ekki nýjar spurningar með tilliti til lýðræðisins, en netið hefur bætt nýrri vídd við þær.
Stefnan þarf að vera ljós
Internetið er ekki lausn, heldur verkfæri. Það er ekki nóg fyrir stjórnmálahreyfingu að kynna tækið sem hún vill nota. Við þurfum líka að vita hvert hreyfingar ætla að stefna, hvernig Ísland þær vilja byggja upp. Þetta þurfa allir kjósendur að spyrja um þegar valið snýst um afturhvarf til sérhagsmunagæslu hinna fáu eða vonina um réttlátara samfélag þar sem almannahagsmunir eru í öndvegi.