Birtist í tímariti UNIFEM
2007

Andstæðurnar á svæðinu við Kaspíahafið í norðurhluta Írans eru miklar. Öðrum megin við þjóðveginn eru sumarhúsahverfi með stórum, loftkældum húsum þar sem Teheran búar ala manninn í fríum og á flótta frá menguninni í stórborginni. Hinum megin við þjóðveginn eru lítil þorp þar sem lífsbaráttan er öllu harðari. Í einu þessara þorpa býr Maryam.

Maryam er aðeins nokkrum árum eldri en ég, 31s árs. Hún er með stór og falleg augu sem einhvern veginn geisla af æðruleysi. Maryam hefur getið sér gott orð sem spákona og sífellt fleiri leita til hennar til að forvitnast um möguleg örlög sín. Þar á meðal vel stæðar konur frá Teheran. Ein af hástéttarvinkonum mínum úr höfuðborginni, sem annars myndi aldrei fara ótilneydd inn á lágstéttarheimili, leitar reglulega til hennar og í þetta skipti fengu tveir forvitnir Íslendingar að fylgja með.

Við vorum varla komnar inn úr dyrunum þegar Maryam spurði hvort ég væri að fara til Indlands. Ég hikaði því ég hafði einmitt verið að hugsa til indverskrar vinkonu minnar og hvort ég kæmist nú ekki til hennar fljótlega.

Ég hef aldrei viljað fara til spákonu, miðils, eða annarra sem segja manni hvað eigi að gerast í framtíðinni. Og ég hugsa ég fari aldrei aftur. En eftir að hafa fylgst með öruggum hreyfingum Maryam og hlustað á sefandi rödd hennar lesa úr spilunum á farsí fyrir vinkonu mína stóðst ég ekki mátið að fá að prófa að hlýða á minn eigin spádóm, með milligöngu vinkonu minnar enda talar Maryam ekki ensku.

Spádómurinn var líklega nokkuð klassískur. Ég mun giftast fljótlega og óskir mínar munu rætast. Hún sá að það var eitthvað að angra mig en lofaði að það yrði farsællega leyst innan níu vikna eða níu mánaða. Talan níu kom oft upp.

Eftir að Maryam hafði lagt út spil og lesið úr bolla í klukkustund var komið að mér að spyrja hana út í hennar líf, enda var ég í Íran í þeim tilgangi að taka viðtöl við konur. Hún svaraði mér í einlægni og lá stundum svo mikið á hjarta að varla gafst tími fyrir vinkonu mína að þýða.

Giftist 14 ára

Foreldrar Maryam eignuðust þrjár dætur í röð en óskuðu þess allan tímann að eignast son. Tvær þeirra fengu hlaupabólu sem dró aðra þeirra til dauða en hin lamaðist. „Þetta er vegna þess að foreldrar mínir voru ekki þakklátir guði fyrir að hafa eignast dætur, þetta var refsing,“ útskýrir Maryam og bætir við að þau hafi loks eignast son og studdu síðar kom Maryam sjálf í heiminn.

Þegar Maryam var fjórtán ára höfðu foreldrar hennar fundið handa henni mann og þau giftust. Hann var þá 21s árs. Maryam flutti heim til eiginmanns síns og fjölskyldu hans og bjó þar í þrjú ár áður en þau fluttu í eigið húsnæði. Tengdafjölskyldan var stjórnsöm og eiginmaðurinn hefur ekki reynst Maryam vel. Hann er háður eiturlyfjum, heldur framhjá og stundar fjárhættuspil og hefur fyrir vikið aldrei staðið við sínar skuldbindingar í hjónabandinu.

Maryam byrjaði sjálf að vinna sem hárgreiðslukona og snyrtifræðingur. „ Þegar ég fór að vinna varð maðurinn minn mjög afbrýðisamur því hann hélt ég yrði kannski frægur snyrtifræðingur. Svo að hann bannaði mér að vinna. Hann hélt mér fanginni á heimilinu en sjálfur átti hann í ástarsamböndum eins og honum sýndist. Ég kvartaði til dómstóla yfir brotum hans og í hvert skipti sem ég kvartaði lamdi hann mig illa. Kerfið stóð aldrei með mér,“ segir Maryam en í Íran byggja dómstólar á íslömskum lögum þótt deilt sé um hversu mikið í takti við íslam lögin sem dæmt er eftir séu. Klerkarnir í dómarasætunum hlustuðu lítið á Maryam. „Lögin eru ekki fyrir konur. Þau vinna ekki með þeim. Alltaf þegar kona leita réttar síns er henni sagt að hún sé kona og þurfi að sætta sig við þetta. Þeir minnast aldrei á það við karl að hann eigi að breyta hegðun sinni á nokkurn hátt. Fólk eins og ég, ég fann mína leið til að gera mig hamingjusama. En ég þekki konur sem hafa framið sjálfsmorð því þær hafa ekki fundið neina aðra leið.“

Fráskildar konur litnar hornauga

Maryam vildi fá skilnað áður en þau eignuðust barn en foreldar hennar stóðu ekki með henni. Eftir að foreldrarnir féllu frá ákvað hún að láta á það reyna að fá skilnað. Hún hafði erft svolitla peninga og kom sér upp íbúð í borg í nágrenninu. Þar bjó hún í eitt og hálft ár en það hvorki gekk né rak að glíma við kerfið. „Maðurinn minn bannaði mér að sjá börnin mín í sex mánuði en ég sagði við sjálfa mig að það mikilvægasta í mínu lífi væri mitt eigið frelsi sem kona og sem manneskja,“ segir Maryam og lýsir því hvernig hún sló öll vopn úr höndunum á honum. Hún þarfnaðist hans ekki fjárhagslega eða tilfinningalega og sagði að hann mætti þá bara hafa syni þeirra tvo ef hann endilega vildi. „Þá fór hann að grátbiðja mig um að koma aftur, og hann varð einhvern veginn mýkri.“

Maryam segist hafa áttað sig á því að hún væri að sóa lífi sínu enda gæti það tekið 5-9 ár fyrir hana að fá skilnað. Svo að hún ákvað að flytja aftur heim. „Fráskildar konur eru litnar miklu hornauga og mér fannst samfélagið svo slæmt að ég vildi frekar lifa hér á heimilinu í friði,“ segir Maryam og lýsir því þegar dómarar við trúardómstólana buðust til að aðstoða hana við að fá skilnað ef hún veitti þeim kynferðislega greiða á móti. Og gerðirðu það, spyr ég. „Nei, þess vegna fékk ég ekki skilnað.“

Eftir að Maryam flutti aftur heim var maðurinn hennar ekki eins ofbeldisfullur og lagði meira upp úr því að halda friðinn. Hann fylgist engu að síður vel með henni og hún segist ekki geta farið í göngutúr án þess að þurfa að svara mörgum spurningum um hvar hún hafi verið og með hverjum. „ Ég vil bara frelsi,“ útskýrir Maryam. „Ég vil geta farið út þegar ég vil fara út. Í starfi mínu má ég ekki hitta karla, hvers vegna ekki? Af hverju er ég spurð endalausra spurninga og svo svarar maðurinn minn engu þegar hann kemur heim kl. 2 á næturnar?“ spyr Maryam og er líka ósátt við takmarkað kynfrelsi kvenna. „Ég nýt ekki kynlífsins og mér finnst alltaf eins og verið sé að misnota mig eða nauðga þegar við sofum saman. Ég tala mikið við konur í starfinu mínu og ég veit að í langflestum samböndum er þetta svona. Flestar konur sætta sig við þetta.“

Maryam er mjög trúuð og þakkar guði fyrir hæfileikann til að spá enda hafi það gefið henni fjárhagslegt sjálfstæði. Hún gefur hins vegar ekki mikið fyrir túlkun stjórnvalda á íslam. „Guð dró ekki línu milli karla og kvenna. Hann sagðist hafa skapað manneskjur, og það er það sem við erum. Ég trúi á guð. Ég hef mína eigin trú,“ segir Maryam en segist ekki skilja hugmyndina á bak við hejab, þ.e. klæðaburðarreglurnar í Íran sem fela í sér að kona þarf að hylja hár sitt og líkamsvöxt. „Af hverju ættum við að hylja okkur? Ef manneskja er góð, þá veit guð það. Ég get ekki falið minn innri mann. Hugmyndirnar að baki þessu kerfi koma frá karlrembum sem hafa túlkað lögin í sína þágu. Þetta er ekki það sem guð vill, og ekki það sem konur vilja. Ég vona að einn daginn verði litið á konur sem manneskjur, sem eru jafnar körlum,“ segir Maryam.

Hún bað um hjálp

Eftir að við kvöddum Maryam var ég mjög hugsi og hafði satt best að segja takmarkaða þolinmæði í að hlusta á hástéttarvinkonu mína furða sig á því að kona af lágstétt gæti haft svona „réttar skoðanir“ á stjórnvöldum Maryam hafði heillað mig með afdráttarlausum viðhorfum skoðunum sínum og lífsvilja og einhvern veginn brýnt mig til dáða, án þess kannski að hafa ætlað að gera það. Hún bað líka um hjálp.

Staða allra íranskra kvenna er ekki endilega eins og staða Maryam. Ég talaði við konur sem sögðust aldrei hafa heyrt minnst á ofbeldi gegn konum og töldu að það hefði kannski verið í gamla daga en ekki núna. Ég talaði við konur sem giftust af ást og konur sem giftust mönnum sem þær höfðu aldrei séð. Sumar voru hamingjusamar, aðrar ekki. Sumar voru trúaðar, aðrar ekki. En þær sem á annað borð töluðu um kynlíf höfðu svipaða sögu og Maryam að segja. Þeim fannst þær misnotaðar og alls ekki fullnægðar.

Ofbeldi gegn konum er ekki bundið við lítil þorp í Íran. Alls staðar í heiminum eru konur beittar ofbeldi og í mörgum tilvikum af körlum sem þær ættu að geta treyst. Íranskar konur glíma hins vegar við tvöfalt misrétti því að lög og reglur vinna líka gegn þeim. Á Íslandi búum við enn við þann veruleika að fjöldi kvenna verður fyrir ofbeldi og fæstar þeirra treysta sér til að leita réttar síns.

Það er kominn tími til að við veitum Maryam hjálp. Ekki bara hinni írönsku Maryam heldur öllum Maryömunum í heiminum sem þurfa að búa við ógnina af ofbeldi.