Ávarp flutt við frumsýningu stuttmyndarinnar Fáðu já – um mörkin milli kynlífs og ofbeldis
29. janúar 2013

Ágætu frumsýningargestir,

Fyrir hönd verkefnisstjórnar um vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum, býð ég ykkur hjartanlega velkomin hingað í Bíó Paradís á forsýningu stuttmyndarinnar Fáðu já – um mörkin milli kynlífs og ofbeldis.

Undirritun alþjóðasamnings kann að láta lítið yfir sér í fyrstu. Lagatæknivinna við fullgildingu nær ekki endilega athygli almennings og alþjóðleg eftirfylgni ekki heldur. En þegar betur er að gáð þá kunna alþjóðasamningar að hafa víðtæk áhrif á þróun í mannréttindamálum ef rétt er haldið á spöðunum.

Ég hef þetta ávarp á þessum nótum þar sem stuttmyndin sem við erum hér saman komin til að fylgja úr hlaði er ekki eyland. Hún á rætur sínar í einum þætti viðamikils samnings Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu gegn börnum. Þetta er samningur sem fjölmörg ríki Evrópu, þar á meðal Ísland, hafa undirritað og þannig skuldbundið sig til þess að vinna af öllum mætti gegn kynferðisofbeldi. Samningur sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt í verki að þau taka alvarlega og skipa sér þannig í hóp þeirra ríkja sem viðurkenna kynferðisofbeldi gegn börnum sem alþjóðlegt viðfangsefni, brot sem okkur ber að taka alvarlega, hvar, hvernig og hverra í milli sem þau eiga sér stað.

Samningurinn leggur þær skyldur á herðar aðildarríkjanna að standa fyrir vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum og beina henni að almenningi, réttarvörslukerfinu, fólki sem á samskipti við börn í starfi sínu og síðast en ekki síst – að börnunum sjálfum. Ríkisstjórn Íslands ákvað að fara þá leið að setja á laggirnar verkefnisstjórn með fulltrúum þriggja ráðherra, það er Guðbjarts Hannessonar, Katrínar Jakobsdóttur og Ögmundar Jónassonar, en þau sitja hér öll í dag. Markmiðið með þessu var í samræmi við Evrópuráðssamninginn að vitundarvakningin yrði sem víðtækust og með aðkomu allra nauðsynlegra aðila.

Vitundarvakning um kynferðisofbeldi er ekki að hefjast á Íslandi með þessu átaki. Þvert á móti hófst hún fyrir um þrjátíu árum, ekki síst fyrir tilstuðlan kvennahreyfingarinnar og síðar fjölmargra grasrótarsamtaka og einstaklinga sem hafa lagt sín lóð á vogaskálarnar til að berjast gegn kynferðisofbeldi. Við undirbúning vitundarvakningarinnar var tekin sú ákvörðun að reyna eftir fremsta megni að byggja á því starfi sem hefur verið unnið innan landsteinanna á síðustu árum og áratugum. Með öðrum orðum að nýta þá þekkingu og það frumkvæði sem er fyrir hendi og stíga þannig skref fram á við. Og einmitt þannig varð þess mynd til.

Fyrsti fundur verkefnisstjórnarinnar með handritshöfundunum Brynhildi Björnsdóttur, Páli Óskari Hjálmtýssyni og Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur er mér eftirminnilegur. Þar var fyrir að fara krafti og smitandi eldmóði, sem í mínum huga tók af allan vafa um að þau væru rétta fólkið og með réttu hugmyndina. Verkefnisstjórnin ákvað því að verja stórum hluta þess fjármagns sem hún hafði til ráðstöfunar á síðasta ári til gerðar þessarar myndar.  Brynhildur, Palli og Þórdís, þið eigið mikið lof skilið fyrir alla þá vinnu og orku sem þið hafið lagt í myndina og fyrir að hafa fengið allt þetta góða fólk til liðs við ykkur við leik og framleiðslu.

Stuttmyndin Fáðu já – um mörkin milli kynlífs og ofbeldis er ekki aðeins liður í þessari vitundarvakningu, heldur tel ég að með myndinni sé stigið nýtt skref í almennum forvörnum gegn kynferðisofbeldi á Íslandi, með því að taka til gagnrýnnar umræðu mörkin milli kynlífs og ofbeldis, með því að útskýra með skilmerkum hætti að klám er ekki kynlíf og að ofbeldi og kynlíf eiga ekkert skylt. Og með því að draga fram fáránleikann sem er fólginn í því að beita aðra manneskju kynferðislegu ofbeldi.

Til þess að sporna gegn kynferðisofbeldi þurfum við að kveða niður óttann sem við kunnum að bera í brjósti gagnvart því að ræða ofbeldi. Og á sama tíma þurfum við að yfirvinna feimnina við að ræða kynlíf. Ræða það að kynlíf er ekki bara líkamlegt samneyti heldur snýst það einnig um tilfinningar, nánd, öryggi og virðingu. Kynsjúkdómavarnir og ótímabærar þunganir eru ekki það eina sem þarf að huga að, heldur er það á ábyrgð okkar hvers og eins að fara ekki yfir mörk annarra, að virða sjálfsákvörðunarrétt fólks þegar kemur að kynlífi og kynlífsathöfnum. Og um þetta fjallar Fáðu já.

Ágætu frumsýningargestir,

Evrópuráðssamningur um varnir gegn kynferðislegu ofbeldi ratar nú inn í hvert einasta pláss á Íslandi. Á Norðfirði, Ísafirði og í Reykjavík, í framhaldsskólum og grunnskólum, undirbúa kennarar og annað starfsfólk skóla sýningu myndarinnar. Ef allt fer að óskum munu allir 10. bekkingar landsins og fjölmargir framhaldsskólanemar horfa á myndina á morgun. Þá gefst gullið tækifæri til að ræða þessi mál af ábyrgð og yfirvegun, kærleika og skilningi.

Áður en ég gef Brynhildi, Páli Óskari og Þórdísi Elvu orðið, vil ég nota tækifærið og óska þeim, leikurunum, Zeta film og okkur öllum til hamingju með myndina. Að sýningu myndarinnar lokinni verða handritshöfundar, við í verkefnisstjórninni, og eftir föngum ráðherrarnir hér til viðtals og almenns skrafs.

Njótið sýningarinnar.