Tjáningarfrelsi, hótanir og DV

Í DV í dag er fjallað ítarlega um ofbeldishótanir sem konur hafa fengið fyrir að láta í ljós skoðanir sínar, ekki síst þegar þær skoðanir fela í sér gagnrýni á viðtekið ofbeldi gegn konum og þá orðræðu sem býr til farveg fyrir slíkt ofbeldi eða viðheldur því. Er það vel að DV skuli gera þessu skil með svo vönduðum hætti, enda er það alvarleg ógn við tjáningarfrelsið og lýðræðislega umræðu að fólki sé hótað ofbeldi fyrir að segja sína skoðun.

Í umfjölluninni er vitnað í hótunarbréf sem mér barst í janúar 2011. DV spurði mig hvort ég vildi bregðast við þessari umfjöllun núna og segja frá upplifun minni af því að taka við hótunum. Ég baðst undan því, enda hefði ég átt erfitt með að bregðast við án þess að rifja upp hvernig hótunin var til komin, og þar á DV hlut að máli.

Hughrifin fullkomnuð

Á þessum tíma, í janúar 2011, var mál lítils drengs sem fæddur var á Indlandi í hámæli hér á landi. Drengurinn var fæddur af indverskri konu, sem hafði gert tiltekið samkomulag við íslenskt par. Þessa sögu þekkja flestir en fjölmiðlar gerðu málinu ítarleg skil.

Málið var vandasamt, enda staðgöngumæðrun óheimil á Íslandi, auk þess sem íslensk stjórnvöld eru bundin af alþjóðasamningum um réttindi barna, sem m.a. er ætlað að koma í veg fyrir barnasölu. Barn er ekki leyfilegt að flytja milli landa nema fyllilega sé ljóst hver fer með forsjá þess og að sá sé samþykkur flutningnum. Staðgöngumæðrun er hins vegar ekki ólögleg á Indlandi en um hana gilda engin lög. Sambærileg mál hafa komið upp á hinum Norðurlöndunum og víða í Evrópu og þurfa hinir evrópsku foreldrar venjulega að dvelja langdvölum á Indlandi meðan greitt er úr lagaflækjum þar. Slík dvöl getur tekið 1-3 ár, enda er Indland annað stærsta ríki heims og álagið á kerfið þar yfirdrifið.

Í framhaldi af þessu máli tók innanríkisráðuneytið saman upplýsingar um réttarstöðu barns við staðgöngumæðrun og geta áhugasamir kynnt sér þær hér.

Upplýsingar þessar höfðu þegar verið birtar þegar DV.is birti frétt sem byggði á fjögurra ára gömlum viðhorfspistli eftir mig sem birst hafði í Morgunblaðinu. Viðhorfið fjallaði um staðgöngumæðrun, en umræða um hana var á þeim tíma takmörkuð hér á landi. Blaðamaðurinn lagði út af þessu með þeim hætti að gagnrýnin viðhorf mín í garð staðgöngumæðrunar hefðu bein áhrif á málsmeðferð í því einstaklingsmáli sem hér er vitnað til, þar sem ég væri nú aðstoðarmaður innanríkisráðherra (áður dómsmála- og mannréttindaráðherra). Til að fullkomna hughrifin var birt mynd af mér, af litla drengnum og af þingmanni sem lét sig málið varða. Myndatextinn með myndunum þremur segir sína sögu um fréttina:

  1. Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, telur að borgun fyrir að ganga með barn sé samsuða af vændi og barnasölu.
  2. [Drengurinn]hefur fengið ríkisborgararétt, en ekki vegabréf.
  3. Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, hefur gagnrýnt tregðu í að veita Jóel litla vegabréf.

Var jafnframt fullyrt að „mikil tregða“ hefði verið í ráðuneytinu vegna afgreiðslu málsins og að allir lögmætir pappírar væru fyrir hendi. Hvað hið síðarnefnda varðar var fréttinni reyndar breytt eftir á. Þá var vitnað í viðkomandi þingmann en hann hafði ásamt fleiri þingmönnum valið að keyra málið inn í flokkspólitískan farveg.

Hótun vegna uppgerðra verka

Útlegging DV var tekin upp af öðrum miðlum og fór sem eldur í sinu um internetið. Mér bárust ljót bréf og ýmis ummæli voru látin falla um mig á netinu, s.s. að ég væri heimsk og geðveik, öfgafull og hrokafull. Ummælin vísuðu sjaldnast til viðhorfs míns er varðar staðgöngumæðrun – og ekki gerði neinn tilraun til að svara þeim málefnalega – heldur til þess sem þarna var orðið „sannleikur“ að ég væri, illra skoðana minna vegna, að reyna að koma í veg fyrir að þessi litla fjölskylda gæti komið heim til Íslands. Og ekki voru liðnar nema um tvær klukkstundir frá því að DV birti sína umfjöllun og þar til mér barst það grófa hótunarbréf sem vitnað er til í blaði DV í dag.

Eins og gefur að skilja var ég ekki mjög kát með framvindu mála, því eitt er að fá hótanir og óhróðursgusur vegna skoðana sinna, annað er að vera gerðar upp skoðanir og verk og vera hótað nauðgun vegna þess. Og þar ber DV ábyrgð.

Blaðamaður DV hringdi í mig þennan sama dag og vildi fá viðbrögð mín við umfjölluninni. Ég fór á móti fram á upplýsingar frá blaðamanninum um hvað hann hefði fyrir sér í fullyrðingum sínum í fréttinni. Staðfestist þar grunur minn að þarna var að mestu verið að slá upp sem frétt skoðunum stjórnmálamanns, án þess að vísað væri til fullyrðinganna sem hans skoðana. Ég sagðist ekki vilja ræða þetta við DV, vildi ekkert láta eftir mér hafa og myndi svara fyrir mig á öðrum vettvangi, sem ég gerði síðar sama dag á vefsíðu minni.

Að ganga af göflunum?

DV birti hins vegar þetta sama kvöld frétt upp úr samtali mínu og blaðamanns en ekki fyrr en daginn eftir upp úr svarfærslu minni. Tónninn var sá sami og myndbirting og myndatextar nákvæmlega þau sömu og í fyrstu fréttinni, þannig að enn var látið að því liggja að skoðanir þær sem ég lét í ljós árið 2007 hefðu áhrif á afgreiðslu einstaklingsmáls í innanríkisráðuneytinu árið 2011. Lágmarksþekking á stjórnsýslunni ætti þó að geta komið í veg fyrir slíkar samsæriskenningar.

Ég taldi að þarna væri málinu lokið og var létt yfir að mesti hamagangurinn væri yfirstaðinn. En nokkrum dögum síðar birti DV sandkorn um að ég hefði „trompast“ í samtali við blaðamanninn daginn sem fréttin var birt og orðljót bréf tóku að berast. Rétt er að taka fram að það að trompast þýðir að ganga af göflunum, þannig að þarna var vel í lagt, og langt í frá í samræmi við það sem átti sér stað í samtalinu. Skilaboðin voru skýr: DV myndi ekki líða það að ég skyldi reiðast útleggingu þess í fréttaflutningi og svara fyrir mig, alveg óháð því hvort útleggingin gæti með einhverjum hætti hafa talist sanngjörn eða ekki. Þá hélt ballið áfram því 19. janúar birti DV nýtt sandkorn í sínum kaldhæðinslega stíl, enn og aftur til að vekja athygli á því að ég hefði skoðun á staðgöngumæðrun. Þannig  viðhélt blaðið glæðunum í því báli sem það hafði kveikt á DV.is, einmitt því báli sem varð til þess að mér var hótað ofbeldi. Ég hugleiddi á þessum tíma að svara fyrir mig aftur en vissi sem var að það myndi hafa þær afleiðingar einar að umfjöllunin héldi áfram, með tilheyrandi myndbirtingum, háðuglegum sandkornum og ljótum orðum, jafnvel hótunum, á internetinu.

Hvernig leið mér?

En hvernig leið mér, svo sem DV spyr nú?

Það að er vond upplifun að vera hótað. Það er líka sárt að sjá ljót orð falla um sig á internetinu og að skynja hversu margir eru tilbúnir til að rægja einstaklinga en láta ótalið að fjalla um málefnið. Þetta er ekki bara sárt fyrir manneskjuna sem er hótað, heldur líka fólk í hennar nánasta umhverfi. Þannig var það í þessu tilfelli. Og það var óþægilegt að finna að ég var allt í einu orðin vör um mig. Ég óttaðist að hitta fólk sem kynni að halda að mér væri illa við lítil börn. Ég óttaðist að venslafólk og félagar sem ég var ekki í reglubundnum tengslum við tryði e.t.v. óhróðrinum upp að einhverju marki og að næstu vikur færu í að leiðrétta það sem ég gæti. Og það er vont að koma heim til sín, sjá að ljósið sem vanalega er kveikt er slökkt, og hugsa ekki strax að það hljóti að vera sprunginn pera, heldur eitthvað annað og verra.

Ég áttaði mig samt ekki á því þá að skrifin höfðu margfalt meiri áhrif á fólk sem þekkti mig ekki en fólk sem þekkti mig. Seinna sagði mér kona að hún og hennar fjölskylda hefðu hikað við að leita til mín sem aðstoðarmanns ráðherra þar sem þau hefðu haft af mér þá ímynd að ég væri viðskotaill og ófagleg, sérstaklega þegar kæmi að málefnum barna, en þeirra erindi varðaði börn.

Það sem var þó erfiðast í þessu máli var að finna að ég gat ekki haldið áfram að svara fyrir mig. Upplifunin var sú að DV myndi halda áfram þar til ég lægi. Og vopnið var mynd af litlu barni sem átti samúð landsmanna.

Ég átti þess vegna erfitt með að tjá mig um þetta við DV af því tilefni sem nú er, enda var DV miðillinn sem kveikti bálið og kaus að kynda undir því, þrátt fyrir að ég hefði bent á það með málefnalegum hætti að útlegging fréttasíðunnar væri úr lausu lofti gripin.

Þarf meira til

Nú er drengurinn löngu kominn til Íslands og staðgöngumæðrun hefur hlotið nánari umræðu á Íslandi. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun en í greinargerð með henni er vikið að þeim sömu sjónarmiðum og ég setti fram í viðhorfspistlinum árið 2007 sem fram til ársins 2011 lá óhreyfður.

Til að renna frekari stoðum undir tjáningarfrelsi á Íslandi er mikilvægt að fólk sem tjáir sig eigi ekki yfir höfði sér ofbeldishótanir. Framlag DV nú til þeirrar umræðu er mikilvægt. En það þarf meira til. Fyrir það fyrsta þurfum við enn og aftur að æfa okkur í að fjalla um málefnið, ekki manneskjuna – fara í boltann, ekki manninn. Við þurfum að leggja okkur fram um að skilja hvað fólk er að segja, áður en við rjúkum upp til handa og fóta og fellum dóma. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð hvað þetta varðar. Þar finnst mér að DV þurfi líka að horfa inn á við.

Prev PostMannréttindi: Vernd barna óháð landamærum
Next PostFáðu já!