Bókadómar og söguskoðun

Ég veit satt að segja ekki hvort mér finnst hún krúttleg eða fáránleg, vandlæting blaðamannanna  ‒ sem rita bókadóma um nýja bók Styrmis Gunnarssonar í DV og Fréttablaðið ‒ yfir vinnubrögðum þeim sem Styrmir lýsir á Morgunblaðinu fyrir áratugum. Fáránleg væri hún, þar sem ég hefði talið að allir blaðamenn þekktu sögu fjölmiðlunar á Íslandi nógu vel til að kunna slíkar sögur í hundraðatali, af fréttum sem voru sagðar og ekki sagðar, ýktar eða úr þeim dregið, ljósmyndum sem voru teknar sérstaklega til að gera lítið eða mikið úr hlutunum, allt eftir því hvað þjónaði þeim sjónarmiðum sem flokksblöðin vildu koma á framfæri. Krúttlegt gæti það kallast og hugsanlega tímanna tákn að upp sé vaxin kynslóð fjölmiðlafólks sem þekkir ekki þennan veruleika af eigin raun og finnst hann jafn fjarlægur og önnur hatrömm, pólitísk átök Kalda stríðsins hér á landi. Í öllu falli má spyrja hvort það sé slæmt af fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins að veita innsýn í þennan gamla tíma eða hvort það sé þvert á móti jákvætt að hann greini frá upplifun sinni af starfi flokksblaðanna á tímum Kalda stríðsins.

Þjónn hægri aflanna?

Ég hef ekki lesið bókina og legg því ekki dóm á efni hennar, en hitt er að í bókadómunum tveimur er að finna (auk hinna ýmsu fullyrðinga um Styrmi sem persónu) greinanlega söguskoðun á því hvernig Morgunblaðið þróaðist á árunum áður en Davíð Oddsson tók við ritstjórn þess. Þannig má lesa úr báðum bókadómunum að Styrmir hafi fyrst og fremst talið að Morgunblaðið ætti að vera flokkspólitískt málgagn fyrir áróður hægrisins. Síðan hafi tekið við skammur tími í lífi blaðsins þar sem það hafi orðið að góðum og hlutlausum fréttamiðli, nánar tiltekið undir stjórn Ólafs Stephensen.

Þessi söguskoðun fer fjarri minni upplifun, en ég vann á Morgunblaðinu á árunum 2003-2009 og þar af seinni hluta þess tímabils við pólitísk fréttaskrif. Saga Morgunblaðsins nær auðvitað mikið lengra aftur og aldrei voru tengsl þess og Sjálfstæðisflokksins slitin að fullu. Það sést best á því að ritstjórar blaðsins og aðstoðarritstjórar hafa nánast undantekningalaust verið félagar í þeim flokki.

Þrátt fyrir það þá var ljóst að Styrmi (þar áður í samstarfi við Matthías Johannessen) var mikilvægt að gefa út blað sem höfðaði til breiðs hóps lesenda, ekki aðeins flokksbundinna eða óflokksbundinna sjálfstæðismanna. Hann lagði áherslu á vandaðan fréttaflutning og að sanngirni væri gætt gagnvart ólíkum sjónarmiðum, sem og að ólík sjónarmið endurspegluðust á síðum blaðsins, þ.m.t. í pistlum blaðamanna.  Ennfremur var á þessum tíma lögð áhersla á metnaðarfulla  menningarumfjöllun, en lista- og menningarlífið á Íslandi hefur sannanlega ekki verið meðal dyggustu þjóna hægri-aflanna í tímans rás.

Með því er ekki sagt að Morgunblaðið hafi á þessum tíma verið gallalaust eða að samfélagsleg og pólitísk afskipti Styrmis hafi í öllu verið innan marka. Engu að síður þá má Styrmir, eins og aðrir, njóta sannmælis.

Hið meinta hlutleysi

Hvað Ólaf Stephensen áhrærir þá er hún líka umhugsunarverð söguskoðunin að í stuttri  ritstjórnartíð hans hafi Mogginn verið allslaus við nokkurn lit, hlutlaus í hvítvetna. Fyrir það fyrsta þá er þetta hlutleysishugtak sem tröllríður öllu í íslenskri blaðamennsku stórgallað. Þá fyrst er upp kominn vandi ef blaðamaður telur sig fullkomlega hlutlausan gagnvart viðfangsefni. Aukinheldur er erfitt að skilja hvernig Ólafur átti að geta talist hlutleysið uppmálað. Hann var alinn upp á Morgunblaðinu, starfaði þar frá 19 ára aldri, varð aðstoðarritstjóri 33 ára gamall og skrifar með zetu þótt hún hafi verið afnumin áður en hann byrjaði í skóla. Hann var formaður Heimdallar (eins og fleiri ritstjórar Morgunblaðsins) og hann var og er mjög tengdur inn í ýmsa valdahópa í íslensku samfélagi. Þess sáust stundum merki í ritstjórnartíð hans, bæði á Morgunblaðinu og á 24 stundum, og sjást enn í Fréttablaðinu.

Ólafur á sér líka marga kosti sem ritstjóri og fjölmiðlamaður, og þeirra má hann njóta. Hann er skipulagður og vel ritfær og var nútímalegri stjórnandi en forverar hans. Eins og af öðrum sem störfuðu á Morgunblaðinu lærði ég margt af Ólafi sem gagnaðist mér í blaðamennskunni og á öðrum vettvangi síðar meir.

Skilin milli hans og forvera hans í ritstjórastóli voru hins vegar fjarri því að vera svo afgerandi sem bókadómararnir halda fram. Eftir að Ólafur tók við upplifði ég í fyrsta sinn í starfi sem þingfréttaritari þætti sem leiddu til þess að ég missti traustið á því að ritstjórinn stæði með mér gegn þeim öflum og einstaklingum sem vildu ekki aðeins hafa áhrif á fréttaflutning Morgunblaðsins, heldur líka mannaval. Fyrir vikið varð sjálfsritskoðun mín meiri en nokkru sinni fyrr, en hún er einn af stærstu óvinum blaðamannsins.

Hvaða pottar krauma undir?

Það er gagnlegt að fjalla um íslenska fjölmiðla í sögulegu ljósi, sérstaklega með það að markmiði að skilja betur stöðu þeirra í dag. Og þá má velta upp mörgum spurningum. Ritstjórar tveggja stærstu dagblaðanna,  Morgunblaðs og Fréttablaðs, eru báðir úr Sjálfstæðisflokknum. Pólitísk skrif helgarblaðanna (Reykjavíkurbréf og Kögunarhóll) eru á hendi tveggja manna sem slógust um formannsstólinn í Sjálfstæðisflokknum árið 1991, hafa báðir hafa verið formenn þess flokks og forsætisráðherrar. Flokksblöðin lögðust af en eignarhald blaðanna (og síðar netmiðlanna) færðist þá á annarra hendi. Á sama tíma færðust völd að einhverju leyti úr stjórnmálum og inn í viðskiptalífið. Hvaða pottar krauma undir starfandi blaðamönnum í dag? Og hvaða höndum fer tíðarandinn um fjölmiðlun nú þegar ríflega tuttugu ár eru liðin frá því að Kalda stríðinu lauk?

Við höfum sannanlega ekki nálgast óskastað þegar kemur að frjálsri fjölmiðlun á Íslandi og að einhverju leyti varð bakslag með hruninu. Starfsumhverfi og -öryggi blaðamanna er í mörgu ljósárum á eftir því sem tíðkast í nágrannalöndunum. Þetta þarf að fjalla um af alvöru.

Bókadómana má nálgast hér:

„Innsýn í hugarfylgsni lítilla karla“

„Ógeðsleg innsýn“

Prev PostVG og kvennakvóti á framboðslista
Next PostMannréttindi: Vernd barna óháð landamærum