VG og kvennakvóti á framboðslista

Birtist á Smugunni 29. nóvember 2012

Aðeins í tveimur ríkjum heims eru konur helmingur eða ríflega helmingur þingmanna, það er í Rúanda og Andorra. Á Íslandi hafa konur aldrei verið helmingur þingmanna. Eftir síðustu kosningar voru konur á Alþingi í fyrsta sinn yfir 40%, sem fer að nálgast það að geta talist ásættanlegt. Þeim hefur að vísu fækkað á kjörtímabilinu með brotthvarfi Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og stendur hlutfallið nú í 39,7%.

Í sögulegu ljósi hafa konur átt alltof litla aðkomu að ákvarðanatöku. Það myndi e.t.v. litlu skipta ef samfélagið væri ekki jafn kynjað og raun ber vitni. Við erum svo upptekin af því að skilja kynin að og eigna þeim sitt hvora eiginleikana að við merkjum þau bleikum og bláum litum frá því að þau koma í heiminn.

Breiður bakgrunnur

Kvenfrelsi er ein af grunnstoðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Í því felst margt. Það mikilvægasta er sennilega að konur geti lifað frjálsar frá ógninni af ofbeldi, en fleiri þættir spila þar inn, þ.m.t. að konur hafi aðkomu að lýðræðislegri ákvarðanatöku til jafns á við karla. Svo er ekki í dag og hefur aldrei verið. Ein leið til að flýta fyrir nauðsynlegri þróun er að beita kvennakvóta.

Kvótar geta almennt verið erfiðir viðfangs, á hvaða grunni sem þeir byggjast, þ.m.t. kjördæmakvótar sem við beitum við Alþingiskosningar. En í kvótum felst líka viðurkenning á því að ákvarðanataka geti ekki verið á hendi eins samfélagshóps með einn og sama bakgrunninn.

VG nýtir kvóta til að tryggja að konur komist að á framboðslistum hreyfingarinnar. Þetta er ekki úr lausu lofti gripið. Ekki einasta er þörf á vegna takmarkaðarar aðkomu kvenna að ákvarðanatöku, svo sem áður er rakið, heldur hafa konur almennt komið verr út úr prófkjörum en karlar. Á því eru margar skýringar sem ekki verða raktar hér.

Hins vegar virðist þetta smátt og smátt vera að breytast innan VG og kjósendur velja konur á lista til jafns á við karla (sé litið til landsins í heild). Þetta er gleðilegt og gefur von um að ekki líði um langt áður en mögulegt verður að afnema kvótareglur við kosningu á framboðslista, þar sem þær hafa þjónað tilgangi sínum.

Jafnrétti á framboðslistum?

Nú bregður við að margir vilja túlka það sem svo að jafnt hlutfall kynjanna á framboðslista eigi að vera sérstakt kappsmál kvenfrelsishreyfingarinnar. Þess vegna eigi að færa karla upp um sæti og tryggja að þeir leiði lista til jafns á við konur. Tilfellið er hins vegar það að kvótunum var ætlað að greiða aðkomu kvenna að ákvarðanatöku, ekki að tryggja jafnt hlutfall kynjanna á framboðslistum, enda eru framboðslistar sem slíkir ekki vettvangur lýðræðislegrar ákvarðanatöku.

Það stendur upp á þá sem krefjast karlakvóta á framboðslistum að rökstyðja slíkar tillögur sínar. Og kannski mætti beina þeirri spurningu að öðrum flokkum sem nýtast við para- eða fléttulista hvaða markmiði kynjakvótar þeirra á framboðslistum eigi að þjóna.

Prev PostInnanríkisráðuneyti + VG = sönn ást?
Next PostBókadómar og söguskoðun