Birtist á Smugunni 22. nóvember 2012

Vinstri græn á Suðvesturhorninu ganga að kjörborðinu nú á laugardag og velja fólk á lista fyrir komandi Alþingiskosningar. Á þessum tímamótum er mikilvægt að líta um öxl og velta fyrir sér: Hvað hefur gengið vel og hvað ekki? Hvernig hefur okkur tekist að framfylgja stefnu VG í störfum okkar?

Í þessari grein langar mig að greina frá því hvernig stefnumál VG hafa náð fram að ganga á verksviði innanríkisráðuneytisins á undanförnum tveimur árum (og 2 mánuðum), eða síðan Ögmundur Jónasson tók við embætti innanríkisráðherra. Sjálf hef ég starfað með honum á þeim vettvangi.

Innanríkisráðuneytið varð til við samruna dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis 1. janúar 2011 en fram að því gegndi Ögmundur embættum beggja ráðherra. Innanríkisráðuneytið er því eitt af viðamestu ráðuneytunum hér á landi og heyra 45 málaflokkar undir það, þar á meðal mannréttindamál, samgöngumál, barnaréttur, sveitarstjórnarmál, dómsmál, löggæsla og útlendingamál.

Stefna Vinstri grænna byggir á fjórum stoðum: Félagslegu réttlæti, umhverfisvernd, kvenfrelsi og félagslegri alþjóðahyggju.

En hvernig hefur okkur gengið að framfylgja stefnu VG í málaflokkum innanríkisráðuneytisins, eða með öðrum orðum: Innanríkisráðuneyti + VG = sönn ást?

Félagslegt réttlæti

Í stefnu VG segir: Vinstrihreyfingin – grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar og uppruna.

Fyrir það fyrsta má vekja athygli á einu lykilhugtaki sem nú hefur sérstakan sess í íslenskri stjórnsýslu: Mannréttindi.

Áður var mannréttindum sinnt til hliðar við önnur verkefni en nú hefur orðið breyting þar á og hefur Ögmundur Jónasson mannréttindi í öndvegi í starfi sínu sem innanríkisráðherra. Unnið hefur verið markvisst úr þeim athugasemdum sem Ísland hefur fengið á alþjóðavettvangi um stöðu mannréttindamála hér á landi. Þær athugasemdir hafa öðru fremur lotið að misrétti milli karla og kvenna (og þá einkum að kynbundnu ofbeldi) og fangelsismálum hér á landi. Um hið fyrrnefnda er fjallað hér á eftir en varðandi hitt síðarnefnda þá hefur verið samþykkt að ráðast í byggingu nýs fangelsis, sem mun leysa af hólmi önnur fangelsi, s.s. Hegningarhúsið á Skólavörðustíg og Kvennafangelsið en þau uppfylla ekki kröfur um mannúðlegan aðbúnað fanga.

Mótun landsáætlunar í mannréttindamálum stendur nú yfir og hefur í því skyni verið efnt til opinnar umræðu um mannréttindamál, þ.m.t. um mannréttindi geðsjúkra, réttindi útlendinga utan EES á Íslandi, tjáningarfrelsi og lýðræði, trúfrelsi og ofbeldi gegn konum.

Sérstaklega hefur verið lögð áhersla á vandaða umræðu um lýðræðismál, þ.m.t. beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur. Endurspegluðust þessar áherslur Ögmundar í frumvarpi til sveitarstjórnarlaga þar sem kveðið er á um að ákveðinn fjöldi íbúa sveitarfélags geti farið fram á íbúaatkvæðagreiðslu um áríðandi málefni. Alþingi samþykkti frumvarpið en ákvað, andstætt því sem innanríkisráðherra vildi, að setja takmarkanir um þessar atkvæðagreiðslur.

Hvað trúfrelsi varðar liggur nú í annað sinn fyrir Alþingi frumvarp um lífsskoðunarfélög sem færir rétt lífsskoðunarfélaga til jafns á við trúfélög en í tvo áratugi hefur Siðmennt barist fyrir þessum breytingum.

Alþingi þarf jafnframt að taka afstöðu til tillögu Ögmundar um lénamál en í tíð fyrri stjórnvalda var lénið .is einkavætt. Með frumvarpi um lénamál er reynt að vinda ofan af þessari þróun og koma böndum á starfsemina, neytendum til varnar.

Alþingi samþykkti frumvarp innanríkisráðherra til breytinga á barnalögum en með þeim er kveðið skýrar á um réttindi barna, þ.m.t. varðandi forsjá og umgengni, og grunngildi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögfest. Ættleiðingamál hafa einnig verið tekin föstum tökum, eftir því sem kostur gefst á samdráttartímum. Komið hefur verið á ættleiðingasambandi við Tógó og ráðuneytið hefur átt gott samstarf við Íslenska ættleiðingu.

Þá hefur Ögmundur lagt fram frumvarp sem stoppar upp í göt á lögum um bann við áfengisauglýsingum og væntanlegt er frumvarp um happdrættismál en markmiðið með því er að takast á við þann mikla vanda sem spilafíkn er á Íslandi.

Í útlendingamálum var í tíð Rögnu Árnadóttur ráðist í aðkallandi breytingar á málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd (hælisleitenda). Þar hefur hins vegar ekki verið látið staðar numið því Ögmundur hefur boðað heildarendurskoðun á útlendingalögum og verður frumvarp lagt fyrir Alþingi von bráðar. Með því verður staða flóttafólks styrkt enn frekar og réttur útlendinga utan EES til að sameinast fjölskyldu sinni skýrður og bættur, svo dæmi séu tekin. Þá má nefna að strax haustið 2010 voru endursendingar hælisleitenda til Grikklands stöðvaðar vegna bágborins mannréttindaástands þar, sem hafði sætt mikilli gagnrýni.

Kvenfrelsi

Í stefnu VG segir: Hreyfingin vill samfélag þar sem bæði konur og karlar fá notið sín og hafnar því að sé mismunað eftir kyni.

Á Íslandi er kynjunum mismunað á afgerandi hátt og væri langt mál að lista það allt upp hér. Grófustu birtingarmynd kynjamisréttis er að finna í kynbundnu ofbeldi, þ.m.t. heimilisofbeldi, vændi, mansali, nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi.

Baráttan gegn þessu ofbeldi hefur verið í öndvegi í innanríkisráðuneytinu. Austurríska leiðin, um að fjarlægja megi ofbeldismann af heimili sínu, var leidd í lög og vinna er hafin við að fullgilda sáttmála Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum. Sáttmáli Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu gegn börnum hefur nú verið fullgiltur og á grunni þess sáttmála hefur innanríkisráðuneytið leitt vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum. Þar er fræðslu beint að börnum og fólki sem á samskipti við börn í starfi sínu.

Á haustdögum 2010 hófst í ráðuneytinu viðamikið samráð um meðferð nauðgunarmála þar sem saman komu allar helstu stofnanir réttarvörslukerfisins, grasrótarsamtök og aðrar stofnanir sem koma að málaflokknum. Á grunni þessarar umræðu hefur verið ráðist í margs konar aðgerðir, þ.m.t. fræðslu um kynferðisofbeldi í samvinnu við Evrópuráðið og lagadeild HÍ, samstarf við EDDU – öndvegissetur við HÍ um fræðilega rannsókn á meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu og nauðsynlegar lagabreytingar, s.s. varðandi greiðslu miska- og skaðabóta.

Þá hefur ráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti, staðið fyrir samráði og ráðstefnu um klám en þessa dagana er farið yfir niðurstöður þess.

Umhverfismál

Í stefnu VG segir: Almenningssamgöngur eru ódýr, umhverfisvænn og hagkvæmur kostur. Öllum ráðum þarf að beita til að auka vægi þeirra hvarvetna á Íslandi og gera þær aðgengilegar.

Með samningi innanríkisráðherra og fjármálaráðherra, ásamt Vegagerðinni og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, í maí 2012 var stigið afdráttarlaust skref í átt að eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Með því er áætlað að fresta stórum vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu en tvöfalda þess í stað hlut almenningssamgangna.

Þá hafa strandsiglingar verið boðnar út en ákall um þær hefur verið hluti af áherslum VG til langs tíma.

Félagsleg alþjóðahyggja

Í stefnu VG segir: Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu.

Hvað félagslega alþjóðahyggju varðar þá vísast m.a. til eindregnar afstöðu innanríkisráðherra til Evrópusambandsins og þeirra kapítalísku gilda sem það reisir stoðir sínar á, varnaðarorð og –aðgerðir gegn kaupum útlendinga á landi og áherslu hans á ábyrgt alþjóðlegt samstarf, sem fjallar um mannréttindi og bætt kjör. Þá hefur Ögmundur tekið afdráttarlausa afstöðu, sem mannréttindaráðherra, gegn þjóðarmorðum Ísraelsmanna á Palestínumönnum.

Sönn ást

Ég tel að gott vinstri grænt verk hafi verið unnið undir leiðsögn Ögmundar Jónassonar í innanríkisráðuneytinu (og þar áður í embætti ráðherra þeirra tveggja ráðuneyta sem runnu saman í innanríkisráðuneyti) og að full ástæða sé til að halda því áfram.

Okkar bíða ennfremur mörg brýn verkefni innan málaflokka innanríkisráðuneytisins, enda tekur tíma að móta og framkvæma stefnu í lýðræðislegu og opnu ferli, svo ekki sé talað um að breyta tíðaranda. Þess vegna er mikilvægt að vinstrimenn haldi áfram um stjórnartaumana.

Innanríkisráðuneyti + VG = sönn ást!