Ég hef lesið nokkuð víða á internetinu og í blöðum að árið 2006 hafi ég gerst sérstök forgöngumanneskja um að berjast gegn lögum um að sameiginleg forsjá yrði gerð að meginreglu við skilnað eða sambúðarslit foreldra. Ég hef staldrað við þessar staðhæfingar, sem eru í ætt við hið þekkta áróðursbragð: „Let them deny it“. Séu fullyrðingarnar ekki hraktar er þeim slegið endurtekið fram alveg burtséð frá því hvort það er sannleikskorn í þeim eða ekki.

Rökleiðslan er eitthvað á þessa leið:

Fullyrðing: Femínistafélag Íslands sendi inn umsögn og lýsti sig andsnúið breytingum á barnalögum árið 2006.

Fullyrðing: Halla Gunnarsdóttir var talskona Femínistafélags Íslands.

Niðurstaða: Halla Gunnarsdóttir barðist gegn breytingum á barnalögum árið 2006.

Ekki nóg með að rökleiðslan standist ekki skoðun þá eru fullyrðingarnar líka á veikum grunni. Ég finn hvergi staðfestingu á því að Femínistafélagið hafi sent inn umsögn um umrætt frumvarp árið 2006. Samkvæmt Alþingistíðindum bárust umsagnir frá þessum aðilum: Heimili og skóla, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Samtökunum ‘78, Sýslumannafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, Félagsþjónustunni í Hafnarfirði, Prestafélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Lögmannafélagi Íslands, kvennadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, dómstólaráði, Félagi íslenskra barnalækna, umboðsmanni barna, sifjalaganefnd, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, Barnaverndarstofu, kærunefnd barnaverndarmála, Tryggingastofnun ríkisins, fjölskylduráði, Íslenskri ættleiðingu, Guðrúnu Kristinsdóttur prófessor, Kvennaathvarfi, Félagi einstæðra foreldra og Félagi ábyrgra feðra.

Femínistafélagið er hvergi nefnt á nafn.

Ekki nóg um það heldur var ég ekki í ráði Femínistafélagsins árið 2006 og hvað þá talskona. Meirihluta þess árs eyddi ég erlendis, fyrst í Malí og síðan Ástralíu, og man ekki til þess að hafa tjáð mig um breytingarnar á barnalögum eða að ég hafi yfirleitt haft fastmótaða skoðun á þeim. Ég var hins vegar talskona Femínistafélagsins um nokkurra mánaða skeið frá 2009-2010 en þá hafði sameiginleg forsjá löngu verið leidd í lög.

Ég velti því fyrir mér hvað býr að baki þessum röngu fullyrðingum sem hafa verið settar fram og ályktununum sem af þeim eru dregnar. Sennilega er þetta sett fram til að styrkja málstað þeirra sem vilja lögfesta heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá, en ég hef haft efasemdir um að fara þá leið. Mín skoðun er engu að síður sú að bæði fylgjendur dómaraheimildarinnar og andstæðingar hennar hafi vel rökstuddan málstað. Og þeir sem hafa góðan málstað þurfa ekki að dylgja. Eða hefur einhver hag af því að persónugera umræðuna með því að draga mitt nafn fram með þeim hætti sem gert hefur verið? Er ekki vænlegra að eiga orðastað um málefnið? Spyr sú sem ekki veit og ekki skilur.