Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég ákvað að fletta upp orðinu athyglisýki í íslenskri orðabók að það er hreinlega ekki til. Ekki er heldur hægt að vera athyglisjúkur, skv. orðabók, hvað þá athyglisjúk. En þetta orð er mér hugleikið. Ég hef nefnilega oft verið sögð sjúk í athygli. Ég get alveg viðurkennt það hér á þessum vettvangi að mér finnst athygli stundum skemmtileg. Ég á það til að tala hátt og mikið í veislum, troða upp sem trompetleikari eða með gítar (þrátt fyrir annálað hæfileikaleysi á tónlistarsviðinu) og stundum held ég óumbeðnar ræður í partíum þar sem alls ekki er ætlast til ræðuhalda. Þetta getur verið skemmtilegt en ábyggilega líka stundum þreytandi. En þegar ég hef verið sögð athyglisjúk þá hefur það öllu jafna ekki verið í tengslum við þessa veislutengdu hegðun mína.

Hvaða athyglisýki er þetta?

Hér er eitt dæmi:

Í byrjun árs 2007 tilkynnti ég um ákvörðun mína um að gefa kost á mér til formanns KSÍ. Það gerði ég vegna þess að ég taldi brýna þörf á ferskum vindum inn í samband okkar knattspyrnufólks. Kastljósinu hafði þegar verið beint að KSÍ, enda voru nálægt því tveir áratugir frá því að síðast hafði verið valinn formaður þar á bæ. Tveir karlar höfðu á þessum tíma þegar tilkynnt um framboð sitt en tilkynning mín vakti athygli þar sem aldrei áður hafði kona boðið sig fram til þessa embættis.

Athyglin var margfalt meiri en ég hafði átt von á. Fjölmiðlar hringdu stöðugt og ég þurfti að vaka stærri hluta sólarhringsins en heilsusamlegt getur talist til að komast yfir skyldubundin verk samhliða því að svara fyrir þessa ákvörðun. Athyglin var bæði jákvæð og neikvæð. Ég fékk fjöldann allan af stuðningsyfirlýsingum en um mig féllu líka ýmis ljót orð – í sumum tilfellum  óbeinar hótanir um ofbeldi ­– sem ég hef lítinn áhuga á að geyma í minni mér og hvað þá hafa eftir.

Ef ég man rétt þá var það 2-3 strembnum dögum eftir að ég tilkynnti um framboðið sem ég mætti í sjónvarpsþátt til að tala um fréttir vikunnar. Fyrsta spurningin sem þáttastjórnandi beindi til mín laut að þessu framboði og lauk henni með þessum orðum: „Hvaða athyglisýki er þetta?“

Mér vafðist auðvitað tunga um tönn. Hvorugur meðframbjóðenda minna hafði fengið þessa spurningu og ég taldi að þótt nafnalausum kommentahöfundum netheima þætti framboð mitt eingöngu bera vott um athyglisýki, myndi fjölmiðlafólk ekki éta slíkt upp gagnrýnilaust. Sjálf hefði ég miklu frekar viljað sitja heima og borða kvöldmat að lokinni erfiðri viku en í sjónvarpssal fyrir svörum. Og mér fannst eins og athyglin sem framboðið hlaut væri ekki vegna meintrar, fíknikenndrar sýki minnar, heldur vegna þess að það talaði inn í ákveðinn veruleika, þar sem KSÍ hafði að einhverju leyti fjarlægst grasrót fótboltans og orðið að hluta til að viðskipta- og hagsmunablokk hinna fáu. Á því vildi ég vekja athygli, ekki á sjálfri mér. Og hefði ég talið það nokkuð augljóst!

Deilt um form

En nú til nútímans. Eitthvað segir mér að Hildur Lillendahl hafi með því að búa til myndaalmbúm með ummælum karla ætlað sér að vekja athygli á þeim orðum sem karlar viðhafa um konur á veraldarvefnum og afstöðunni sem sumir þeirra taka með meintum og ómeintum ofbeldismönnum. Hún velur myndaalmbúminu ákveðið heiti, með bókmenntalegri skírskotun en einnig skírskotun allra þeirra kvenna – og þær eru ekki fáar – sem hafa verið sagðar hata karla vegna þess að þær knýja á um jafnrétti eða mótmæla því að konur þurfi að lifa við stöðuga ógn af ofbeldi. (Sumir kalla það fórnarlambsfemínisma að vekja athygli á því ofbeldi sem konur á Íslandi verða fyrir.)

En þá er dregin fram klisjan um að Hildur vilji aðeins vekja athygli á sjálfri sér. Með slíkum orðum – og reyndar endalausum bollaleggingum og deilum um heiti albúmsins – förum við á mis við mikilvægt tækifæri til að ræða ummælin og viðhorfin sem þau endurspegla. Ekki vegna þess að allir mennirnir sem vitnað er til séu vondir, heldur vegna þess að ummælin eru allflest ýmist vitnisburður um kvenfyrirlitningu eða tala beint inn í hana. Kvenfyrirlitning er ekki hættuleg vegna þess að hún sé þreytandi eða ófyndin heldur vegna þess að hún leiðir beint og óbeint til ofbeldis gegn konum.

Sennilega er það hluti af afneitun að velja að snúa mikilvægri gagnrýni upp í deilur um form. Aðalatriðið verður hver talar og hvernig en ekki hvað er sagt. Afleiðing þess er gjarnan sú að sendiboðinn er skotinn. Og við höldum áfram að spóla í sömu hjólförunum.

Innihald, frekar en bókstafsþrætur

En hér höfum við gullið tækifæri til að hætta bókstafsþrætum um hvor yfirskrift almbúmsins sé smekkleg eða ekki og ræða heldur um innihaldið. Sum ummælanna eru mjög hatursfull og hvetja til ofbeldis gegn konum. Í öðrum felst tortryggni gagnvart konum sem stíga fram og segja frá ofbeldi eða áreitni sem þær hafa orðið fyrir. Enn önnur eru dæmigert níð þar sem valin eru sem ljótust orð um konur vegna skoðanna þeirra.

Inn á milli slæðast síðan „sakleysislegri“ ummæli en í samhengi hlutanna eru þau e.t.v. ekki svo sakleysisleg. Þau verða nefnilega ekki slitin úr samhengi við veruleikann sem við lifum í, veruleika þar sem ekki einu sinni tekst að koma á launajafnrétti milli kynjanna. Því mælanlega markmiði náum við aldrei á meðan viðhorf eins og fram koma í almbúminu grassera.

Fyrsta skrefið er að við horfumst í augu við að alltof margir menn leyfa sér að láta viðbjóðsleg orð falla um konur. Næsta skref er síðan að skilja að orðin leiða til athafna (þótt þær séu ekki endilega framkvæmdar af sömu einstaklingum), eins og sjá má af öllu því ofbeldi sem konur verða fyrir vegna þess eins að þær eru konur. Ofbeldið reynum við stundum að réttlæta með því að varpa ábyrgðinni á brotaþolann eða þagga með því að tortryggja konur sem stíga fram og segja frá. Þannig viðhelst ójöfn staða kynjanna kynslóð fram af kynslóð. Þessi bolti þarf að hætta að rúlla og við berum öll ábyrgð á því að stöðva hann.

Þess vegna verða allir karlar sem ekki hata konur – og ég trúi því að þeir séu í miklum meirihluta – að muna að orðum fylgir ábyrgð. Upp úr hjólförunum!