Ræða flutt á flokksráðsfundi VG

Ágætu félagar,

Ég ákvað að þessu sinni að vera með skrifaða ræðu. Ég skrifa yfirleitt ekki ræður fyrir flokksráðsfundi nema að mér finnist ég þurfa að koma miklu til skila á skömmum tíma eða – og á það við í þessu tilfelli – mér er svo mikið niðri fyrir að ég treysti mér tæplega til að tala blaðlaust.

Það kemur kannski ekki á óvart að það mál sem ég vil gera að umtalsefni er þingsályktunartillöga um að heimila staðgöngumæðrun. Ég gæti haldið um þetta mjög langt erindi en ætla að halda mig við mínúturnar fjórar, sem mér er úthlutað.

Í umræðunni um staðgöngumæðrun blandast saman svo margt sem hreyfir ekki aðeins við kollinum á mér heldur hreinlega innyflunum, þar með talið leginu. Ekki þó svo að skilja að legið fari á flakk og ég upplifi svokallaða hysteríu, sem var læknisfræðileg skýring fyrri tíma á þjáningum kvenna.

Ég leyfi mér hér að tala um leg vegna þess að það líffæri hlýtur að eiga að vera miðlægt í umræðu um staðgöngumæðrun. Samt hef ég afar sjaldan heyrt á það minnst og sennilega aldrei í opinberri umræðu, nema þá í læknisfræðilegum tilgangi þegar fjallað er um konur sem missa leg eða fæðast án legs, eða um vægast sagt vafasama nýjung sem sænskir læknar hafa þróað: Að taka leg úr einni konu og setja í aðra.

Ástralska fræðikonan Germaine Greer ritar um legið í bók sinni The whole woman og bendir á hvernig líffræðilegar skýringarmyndir hafa sýnt þetta líffæri, ranglega, eins og vasa á billjard-borði, rými sem bíður þess að vera fyllt. Menningarlegt meðvitundarleysi um leg geri það að verkum að tungumálið nái ekki einu sinni utan um það. Þannig tölum við um að verðandi móðir gangi með barn í maganum – sem væri afar óþægilegt fyrir alla – en ekki í leginu. Tíðarverkir eru sagðir í maga eða baki, en hvar eru þeir í alvörunni?

Greer segir:

„Tungumál okkar styrkir í sessi þá hugmynd að legið sé tómarúm sem þurfi að fylla, mannlaust húsnæði sem bíður leigjanda. Í umræðu um staðgöngumæðrun er oft talað um leg til láns eða leg til leigu, eins og kona sem samþykkir að vera staðgöngumóðir reki mannlega heimavist.“

Séu yfirleitt tengsl milli líkamlegrar nándar og tilfinningalegrar þá geti sú tenging varla orðið meiri en milli konu og barns sem dafnar inni í líkama hennar, bendir Greer á. Samt sé til þess ætlast að konur gangi með barn og gefi það frá sér án þess að finna til.

Í áratugi hafa konur á Íslandi barist fyrir því að þurfa ekki að gefa frá sér börn sem þær ganga með. Uppbygging velferðarkerfisins og almenns menntakerfis gekk öðrum þræði út á það, að ekki sé minnst á frjálsar fóstureyðingar. En nú, árið 2012, hefur Alþingi falið velferðarráðherra að semja frumvarp sem gengur út á að konur gangi með börn gagngert til að gefa þau frá sér, þvert gegn áliti allra umsagnaraðila nema frjálshyggjumanna og hagsmunaaðila.

Það er merkilegt að samfélag sem er jafn ómeðvitað um leg og raun ber vitni, sé tilbúið, nánast umhugsunarlaust, að heimila með lögum að hægt sé að biðja konu um að veita afnot af legi sínu og líkama, til að aðrir geti náð fram sínum markmiðum. Og þetta þarf að ræðast alveg óháð því hversu falleg markmiðin sem hér um ræðir geta verið, þ.e. að uppfylla löngunina til að ala upp barn af ást og umhyggju.

Ég spyr því: Var hér e.t.v farið fram af kappi, fremur en forsjá? Getur verið að við sem samfélag séum langt frá því að geta tekið ákvarðanir eins og þessa? Ég tel svo vera.

Þess vegna hvet ég eindregið – og í fullum kærleika – þá þingmenn sem samþykktu þingsályktunartillöguna að endurskoða afstöðu sína, því frumvarpið er enn ekki orðið til og lög hafa ekki verið sett. Skipumst á skoðunum og sameinumst um að gefa samfélaginu miklu lengri tíma til umræðunnar og hinu alþjóðlega umhverfi til rannsókna á langtíma áhrifum staðgöngumæðrunar. Umræðan á ekki að fjalla um einstaklinga, heldur um hugmyndir, siðferði, menningu og samfélag. Já og kannski leg!