Réttindi barna og umræða um barnalög

Í gær fór fram umræða á Alþingi um frumvarp til nýrra barnalaga. Verði frumvarpið að lögum verða grunngildi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögfest og réttarstaða barna styrkt til muna, ekki síst barna sem deilt er um forsjá yfir og umgengni við. Sátt er lykilhugtak frumvarpsins og aðkoma hins opinbera að deilum mun miða að því að aðstoða foreldra við að ná sátt, vegna þess að sátt er best fyrir börnin. Málefni barna eiga ekki heima inni í farvegi átaka, heldur farvegi sáttar. Þannig er gert ráð fyrir að veita stórauknum fjármunum til sáttameðferða og foreldrar sem eiga í deilum verða skikkaðir til að ræða málin með fagaðila.

Sporin hræða

Þetta eru byltingarkenndar breytingar og ég játa því að það kom mér á óvart hversu takmarkað pláss þær hlutu í umræðunni á þingi, sem nokkrir þingmenn tóku þátt í. Mest púður fór í að ræða hvort dómarar eigi að hafa heimild til að dæma sameiginlega forsjá, en í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að lögfesta slíka heimild. Þar að baki býr m.a. það sjónarmið að leita eigi allra leiða til að draga þessi mál út úr dómstólafarvegi og inn í heilbrigðari farveg sáttameðferðar. Takist það ekki, sé hins vegar erfitt að koma á samstarfi með dómi. Þótt öll Norðurlöndin hafi dómaraheimild í sínum lögum þá hræða sporin. Í Svíþjóð kom í ljós að dæmd var sameiginleg forsjá í alltof mörgum málum þar sem ljóst mátti þykja að foreldrar gætu ekki starfað saman og í alltof mörgum málum þar sem sterkar vísbendingar, jafnvel sannanir, voru um að annað foreldrið hefði beitt hitt ofbeldi. Enn verra er að til eru dæmi þess að dæmd sé sameiginleg forsjá og úrskurðuð jöfn umgengni í málum þar sem foreldri hefur orðið uppvíst af ofbeldishegðun gagnvart börnum. Börnin hafa þannig ekki notið vafans í öllum tilfellum þar sem sameiginleg forsjá hefur verið dæmd. Rétt er að taka fram að til eru dæmi um að sameiginleg forsjá hafi verið dæmd og það lukkast vel. En hin dæmin eru sláandi.

Frumvarp til barnalaga setur auknar skyldur á hið opinbera þegar kemur að ákvörðun um forsjá og umgengni. Skilyrðislaust ber að líta til hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimilinu hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi.

Þótt deilt sé um dómaraheimild um sameiginlega forsjá væri afar slæmt ef sú deila yrði til þess að frumvarpið – sem felur í sér veigamiklar réttarbætur fyrir börn – hlyti ekki afgreiðslu Alþingis.

Þótt ræða megi réttindi barna í samhengi við dómaraheimildina og að ég beri virðingu fyrir þeim ólíku sjónarmiðum sem þar eru uppi, þá er ljóst að réttindi barna sem kveðið er á um í þessu frumvarpi einskorðast ekki við þetta ákvæði. Þvert á móti.

Samhengi hlutanna

Þegar umræðu um þetta frumvarp lauk á Alþingi í gær tók við umræða um frumvarp sem er liður í fullgildingu á sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu á börnum. Þar er m.a. að finna ákvæði sem gerir það refsivert að mæla sér mót við barn í kynferðislegum tilgangi, en hingað til hefur slíkt aðeins verið álitið undirbúningsathöfn að glæp í skilningi laganna. Verði frumvarpið að lögum er löggjöf gegn barnaklámi – eða myndrænni kynferðislegri misnotkun á börnum – einnig styrkt.

Það er aldrei rétt að gera það að kröfu að baráttufólki fyrir réttindum á einu sviði skuli berjast á öðrum sviðum líka. Engu að síður vakti það athygli að þegar kynferðisbrotafrumvarpið kom til umræðu, u.þ.b.  30 sekúndum eftir að barnalagafrumvarpsumræðunni lauk, hurfu allir talsmenn réttinda barna úr þingsal, að undanskildum einum, Siv Friðleifsdóttur, sem fagnaði frumvarpinu og hét því að vinna því framgöngu á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar.

Íslensk börn búa við einar bestu aðstæður sem um getur í heiminum. Það gerðist hins vegar ekki af sjálfu sér, heldur vegna þrotlausrar og óeigingjarnrar baráttu fólks, þ.m.t. þingmanna, fyrir réttindum barna, réttindum sem byggja á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og bestu framkvæmd hans sem finna má í löndum heims. Okkur sem á eftir komum, hvort sem er innan ráðuneyta, stofnana, Alþingis eða samfélagsins í heild, ber skylda til að viðhalda þessum árangri og skoða í hvívetna möguleika á að bæta um betur. Hætt er við að umræðan einskorðist við einstök pólitísk viðfangsefni samtímans, eins og sjá mátti á umræðu um dómaraheimildina á Alþingi í gær. Alþingismenn verða að geta hugsað stærra en svo til að viðhalda og berjast fyrir auknum réttindum barna.

Umræðan um barnalögin er aðgengileg hér: http://www.althingi.is/altext/140/02/l02163413.sgml

Prev Post„Því miður kemst ég ekki, ég er að ...“
Next PostUm leg