Birtist í DV 20. janúar 2012

Í vikunni stóð ég mig að því að ætla að svara spurningu sem ég kunni ekkert svar við. Sennilega þótti mér spurningin, sem kom frá útlendingi og laut að Bláa lóninu, þess eðlis að ég ætti að vita svarið. Áður en ég romsaði út úr mér ágiskunum eins og um staðreyndir væri að ræða náði ég að staldra við og svaraði heldur með þeim einfalda hætti: „Ég veit það ekki.“

Þetta kom mér til hugar þegar ég heyrði Liz Kelly, prófessor og sérfræðing í meðferð kynferðisbrotamála, tala um kröfur sem gerðar eru til brotaþola kynferðisofbeldis þegar þeir leita réttar síns. Hvernig tengist þetta tvennt? Jú, Liz Kelly vekur athygli á því hvernig við hegðum okkur í daglegu lífi  og hvernig sönnunarkröfur í kynferðisofbeldismálum geta gengið á skjön við mannlega hegðun. Út frá rannsóknum á meðferð kynferðisbrota á Bretlandi og í Bandaríkjunum tekur hún tvö dæmi:

1.    Þegar við segjum frá einhverju sem reynist okkur erfitt á frásögnin til að vera óreiðukennd og óyfirveguð. Ef við þekkjum viðmælandann takmarkað byrjum við stundum á því að prófa hann með því að segja frá litlum þætti þess sem liggur okkur á hjarta, til að átta okkur á því hvernig hann tekur upplýsingunum og hvort honum sé treystandi. Í kynferðisbrotamálum er hins vegar gerð krafa um skipulega frásögn frá fyrsta stigi og það kann að vera notað gegn brotaþola komi hann fram með nýjar upplýsingar á síðari stigum.

2.    Þegar við höfnum einhverju í daglegu lífi gerum við það sjaldnast hreint út heldur tölum við í kringum neitunina, til að særa ekki tilfinningar annarra. Einfalt svar við matarboði frá vini getur jafnvel innihaldið langa afsökun: „Því miður kemst ég ekki, ég er að…“. Þegar kemur að því að greina hvort manneskja hafi hafnað kynlífi getur hins vegar verið gerð krafa um miklu skýrari neitun, helst með orðinu nei og jafnvel líkamlegri mótspyrnu.

Með sama hætti eigum við til að svara spurningum með ágiskunum, e.t.v. vegna þess að við teljum upplýsingarnar litlu máli skipta. Slíkt getur hins vegar komið sér afar illa þegar sakamál er til rannsóknar!
Liz Kelly verður meðal fyrirlesara á ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota sem innanríkisráðuneytið og lagadeild Háskóla Íslands í samvinnu við Evrópuráðið og Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr standa fyrir í dag. Á ráðstefnunni verður meðal annars fjallað um barnvinsamlegt réttarkerfi, þróun nauðgunarhugtaksins og mat á trúverðugleika. Ráðstefnan er liður í að skoða hvort og þá hvernig megi halda áfram að bæta meðferð kynferðisbrota til að brotaþolar og sakborningar upplifi að þeir hljóti réttláta málsmeðferð. Ráðstefnan hefst kl. 10 og er öllum opin.