Eftirfarandi erindi flutti ég á hátíðarmálþingi Orators í Háskóla Íslands fyrr í dag. Umræðuefnið var staða lögfræðinnar í samfélaginu í dag og auk mín fluttu Tryggvi Gunnarsson, Umboðsmaður Alþingis, og Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands, erindi. Fundurinn var líflegur og vel sóttur og það verður áhugavert að sjá hvernig umræðan heldur áfram innan lögfræðingastéttarinnar sem utan.

Ágæta samkoma,

Mig langar að byrja á að óska okkur öllum til hamingju með daginn, það er með afmæli Hæstaréttar. Stofnun hans markaði ekki aðeins mikilvæg spor í þróun í átt til þrískiptingar ríkisvalds á Íslandi heldur var hún líka merkur áfangi í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þá óska ég líka Orator til hamingju með daginn og þakka fyrir að fá að taka þátt í þessari hátíðardagskrá.

***

Það er áhugavert fyrir mig sem kennara, að ávarpa hóp sem að stofninum til er ókennaramenntaður. Við kennarar kunnum nefnilega öðrum fremur að tala fyrir framan hóp. Okkur er kennt  að koma flóknum upplýsingum á framfæri með einföldum hætti, vita hvernig á að beita röddinni við mismunandi aðstæður – og erum víðlesin þegar kemur að staðsetningu í fyrirlestrasal eða kennslustofu. Þá kunnum við að greina hópa og hópamyndanir, átta okkur á hvaða einstaklingar hafa áhuga á því sem við setjum fram og hverjir fylgjast ekki með. Við sjáum  gegnum þá sem þykjast lesnir en hafa aldrei opnað bók. Þessi sérhæfða kunnátta er viðkvæm og vandmeðfarin í eðli sínu og spyrja má  hvort ókennaramenntað fólk − eða leikmenn eins og ég kýs að kalla það − ætti yfirhöfuð að fá að tjá sig fyrir framan hóp − hvað þá að miðla upplýsingum með þeim hætti sem hér er gert í dag.

Eða hvað?

***

Hvers vegna byrja ég erindið á þessum  torkennilegu nótum?

Þegar haft var samband við mig vegna þessa hátíðarmálþings var mér sagt að þegar væri búið að velja tvo frummælendur, það er þá ágætu menn sem hér hafa talað. Þriðja frummælandann vantaði og að talið væri æskilegt að sú manneskja væri: a) kona og b) ólöglærð. Mér er til efs að nokkur önnur stétt setji forskeytið „ó“ framan við menntun sína og vísi þannig til allra annarra en sinna líka. Það orð mun ég engu að síður nota í þessu erindi, enda heyri ég það oft, og sífellt oftar eftir að ég hóf störf í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, sem nú heitir innanríkisráðuneyti.

En af beiðninni um þátttöku í þessu málþingi má ráða að ég er hér sem fulltrúi kvenna annars vegar og ólöglærðra hins vegar. Við það bættist að mér var ætlað að túlka „álit almennings“ á lögfræði og lögfræðingastéttinni. Með öðrum orðum er ég fulltrúi hinna á þessum fundi, í hinni klassísku sundurgreiningu á fyrirbærunum „við“ og „hinir“.

***

Þegar núverandi innanríkisráðherra tók við embætti lýstu margir áhyggjum af því að ólöglærður maður settist í þann stól. Var látið að því liggja að ólöglærður maður gæti varla lesið og skilið lög og lagafrumvörp og hvað þá farið fyrir heilu réttarkerfi. Skipti þá engu máli að sá hinn sami hafði unnið við það í ein fimmtán ár að setja lög.

Reyndar má rifja það upp að þegar sami maður gerðist heilbrigðisráðherra þá töldu einhverjir honum til vansa að vera ekki heilbrigðismenntaður og auðvitað helst læknir. Hann svaraði því á þá leið að spyrja hvort það væri e.t.v. mikilvægara að heilbrigðisráðherra hefði verið sjúklingur eða aðstandandi sjúklings. Hvort sú reynsla væri dýrmætari. Og kannski má svara gagnrýni á lagamenntunarleysi ráðherra dómsmála á þennan sama hátt.

En getur ólöglærður maður skilið lög? Ef svarið við þeirri spurningu er nei  er eitthvað meira en lítið að lögunum.  Það hlýtur að vera tilgangur með allri lagasetningu að gera hana skiljanlega  því að fólki er gert að lifa eftir lögum. Um leið og lög eru orðin of torskilin er okkur hætta búin sem samfélagi. Óskýr lög, og lögfræðingar sem reyndu að finna á þeim glufur, var meðal þess sem leiddi til efnahagshrunsins hér á landi. Virki lög ekki fyrir almenning virkar réttarkerfið ekki fyrir almenning. Og þá er réttarríkið víðs fjarri.

En réttarkerfi er fleira en lög. Innan þess starfar fólk, einstaklingar sem margir hverjir fengu sína menntun innan þessara veggja. Væri ég laganemi myndi ég, eins og háskólanema með gagnrýna hugsun sæmir, spyrja mig hvaðan þekkingin sem er hér innan þessara veggja kemur. Er lagadeild Háskóla Íslands í miklum alþjóðatengslum eða er hún lokuð og einangruð? Í því samhengi má benda á að allir prófessorar og dósentar við lagadeild Háskóla Íslands, að undanskildum einum, eru með embættispróf frá þessari sömu lagadeild. Hluti þeirra hefur sótt framhaldsmenntun erlendis en grunnmenntunin er héðan.

Vissulega er ekkert óeðlilegt að fólk sem vill lesa lög einbeiti sér að þeim lögum sem gilda þar sem það hyggst starfa. Hins vegar er það svo að í litlu samfélagi getur slík menntastétt hæglega orðið einsleit og hætta er fyrir hendi á því að ein hugsun verði ráðandi á kostnað annarra kenninga og sjónarmiða. Verum þess minnug að þekking er vald.

Þá má spyrja hvort laganám búi nemendur undir það að líta réttarkerfið gagnrýnum augum. Líta lögfræðingar svo á að þeir eigi að bæta réttarkerfið eða  að þeir eigi að verja núgildandi skipulag? Og  enn fremur, lítur lögfræðingur svo á að Ísland sé nú þegar réttarríki og að það þurfi aðeins að verja fyrir ágangi ofstækisfulls almennings, eða er það e.t.v. hlutverk lögfræðinga að leggja sitt af mörkum við að skapa réttarríki, þróa það og bæta? Þessar spurningar skipta allar máli þegar mat er lagt á stöðu lögfræðinnar í íslensku samfélagi.

Flestir lögfræðingar sem starfa á Íslandi, hvort sem er við lögmennsku eða önnur störf, hafa stundað nám við lagadeild Háskóla Íslands; þeir hafa eflaust einnig verið í því félagi sem heldur þetta málþing. Þótt hægfara breyting kunni að verða á þessu nú þegar fleiri háskólar bjóða upp á laganám er ljóst að félagar í Orator munu mynda stofninn í íslenskri lögfræðingastétt á næstu árum og jafnvel áratugum. Og stétt lögfræðinga er bæði valda- og áhrifamikil í íslensku samfélagi. Þá hlýtur hver laganemi að spyrja sig: Hvernig mun ég fara með það vald og hvernig hyggst ég beita áhrifum mínum? Ekki ætla ég að gerast sú sem legg línurnar hvað það varðar en deili þó með ykkur skoðunum mínum.

Ég lít svo á að laganám og þekking á lögum séu öðru fremur verkfæri til að efla og þróa − jafnvel skapa − réttarríki á Íslandi. Eins og komið hefur fram þá hef ég ekki lagt stund á nám við þessa deild. Hugmyndir mínar um hana byggja á viðhorfum  þess sem stendur fyrir utan og horfir inn en einnig af afspurn og því að hafa fylgst með góðum vinum ganga þennan menntaveg. Vegna þess að ég er fulltrúi hins ólöglærða almennings  ætla ég að veita ykkur innsýn í mynd mína af lagadeild Háskóla Íslands.

Eitt af því mest áberandi sem ég hef tekið eftir hjá laganemum er hversu tíðrætt þeim er um miklar annir í námi sínu. Viðhorfið virðist vera að ekkert nám sé eins strembið og það sem stundað er hér og engin menntun eins mikil raun. Svipað viðhorf þekki ég frá læknanemum. Í öllum yfirlýsingunum um erfiði námsins gleymist hins vegar stundum að segja okkur hinum frá innihaldi þess.

Staðreyndin er sú að allt nám er strembið og ef það er ekki strembið þá er það leiðinlegt og nánast tilgangslaust. Strembnast er samt nám sem krefst sífelldrar gagnrýninnar hugsunar og skilnings á bæði hlutbundinni og óhlutbundinni þekkingu. Háskólanemar eiga að gera kröfu um að kennsla þeirra taki mið af slíku og að gagnrýnin hugsun sé talin fólki til tekna fremur en vansa. Sú sem hér stendur og horfir inn hefur stundum fengið þá tilfinningu að laganám letji fólk frekar en hvetji í þessum efnum. Þann veruleika þekkið þið betur en ég og megið gjarnan mótmæla mér í umræðum hér á eftir.

***

Ég vék að því áðan að lög eigi að vera almenningi skiljanleg. Þó er ljóst að hinn almenni Íslendingur hefur varla lesið sig í gegnum allan lagabókstafinn til að skilja hvað hann má og hvað ekki. Við gerum okkur samt sem áður nokkurn veginn grein fyrir því hvað okkur er heimilt og hvenær við þurfum að spyrja til að vera viss. Það er vegna þess að lög byggja á viðmiðum samfélagsins um æskilega hegðun, hegðun þar sem frelsi eins á ekki að skaða annan. En hvað gerist þegar löggjöfin virkar ekki utan um þessi samfélagslegu viðmið?

Hvað gerist til dæmis þegar skattalöggjöf er gloppótt þannig að efnafólk kemst upp með að borga varla krónu í sameiginlega sjóði, þótt það nýti þjónustu sem kostuð er af skattfé? Í aðdraganda efnahagshrunsins tóku sumir lögfræðingar að sér að aðstoða efnafólk við að borga sem minnstan skatt. Slík brögð voru jafnvel kennd í háskólum og eru e.t.v enn. En hvert er þá samfélagslegt hlutverk lögfræðinga? Tóku einhverjir lögfræðingar að sér að benda á götin sem þyrfti að stoppa í til að skattalöggjöfin næði líka utan um efnafólk? Ég læt öðrum eftir að svara þeirri spurningu. Ég leyfi mér einnig að velta því upp, eins og einn lögfræðingur hafði á orði við mig um daginn, hvort lögfræðingar litu hlutverk sitt öðrum augum væru þeir láglaunastétt en ekki hálaunastétt. Ef þeir samsömuðu sig fremur leikskólakennara en lækni, svo dæmi sé tekið. Þessa spurningu tel ég mikilvæga vegna þess að ég veit að til eru löglærðir menn í háum stöðum, til dæmis dómarastöðum, sem líta svo á að þeir eigi og geti verið ónæmir fyrir samfélaginu sem þeir lifa í. Vissulega eiga þeir að hefja sig yfir dægurþras og þeir verða að kunna að bregðast við þrýstingi. Það verður hins vegar ekki gert nema með sjálfsgagnrýni og skilningi á eigin stétt og stöðu.

Eva Joly hafði orð á því í Silfri Egils sl. vor að dómarar ættu oft erfitt með að dæma „sína líka“, ef þannig má að orði komast. Vísað Joly til meðhöndlunar dómstóla á fjárglæframönnum en þá mæta dómarar oftar en ekki mönnum sem eru með svipaða samfélagslega stöðu og þeir sjálfir. Dómurum hætti til að hafa meiri samúð með mönnum sem þeir samsama sig en eigi mun auðveldara með að „dæma niður fyrir sig“.

Umfangsmikil rannsókn sem var gerð í Svíþjóð á afdrifum kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu þar í landi rennir stoðum undir þetta. Í ljós kom að kynferðisbrotamenn sem eru af erlendu bergi brotnir eða tilheyra lægri stéttum eru  miklu líklegri til að fá dóm en millistéttarmenn og góðborgarar. Að sama skapi er líklegra að menn fái dóm ef þeir nauðga „upp fyrir sig“, það er ef brotaþolinn er með hærri samfélagslega stöðu. Vissulega geta aðrir þættir haft áhrif en það breytir ekki því að þarna eru gryfjur sem dómarar – og aðrir sem réttar okkar eiga að gæta – þurfa að varast að falla í. Eina leiðin til að komast hjá því að falla í slíka gryfju er að vera með stöðugri meðvitund um hætturnar. Afneitun getur aftur á móti verið mög varasöm. Í þessu samhengi gætu lögfræðingar lært mikið af öðrum fræðigreinum sem fjalla um samspil einstaklings og samfélags.

Eitt dæmi get ég tekið héðan af landi ­– og get ég um leið greint frá reynslu ólöglærðar konu sem reynir að fóta sig í frumskógi réttarkerfisins. Það var sú ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur að loka réttarhöldum yfir vændiskaupendum, þeim fyrstu sem sóttir voru til saka eftir að ný lög um bann við kaupum á vændi tóku gildi. Rökstuðningur fyrir lokun réttarhaldanna var rýr og sem blaðamaður og þá talskona Femínistafélags Íslands kærði ég ákvörðun Héraðsdómarans til Hæstaréttar. Hæstiréttur klofnaði í afstöðu sinni en tveir dómarar af þremur tóku ákvörðun um að vísa kæru minni frá, jafnvel þótt blaðamenn hafi áður fengið sambærileg mál tekin fyrir hjá Hæstarétti. Sumir blaðamenn eru þannig meiri en aðrir fyrir æðsta dómstóli landsins. Réttarhöldin fóru fram fyrir luktum dyrum og nöfn dæmdra vændiskaupenda verða ekki gerð opinber.

Skömmu síðar var felldur dómur yfir 17 ára gömlum dreng sem gerst hafði sekur um vörslu barnakláms (sbr. 4. nóvember 2010 S-284/2010). Nafn drengsins var birt og fór í framhaldinu í fjölmiðla. Þarna má spyrja hvort nægilegar röksemdir hafi búið að baki í hvoru tilfellinu fyrir sig og „almenningurinn“ ég fæ ekki betur séð en að í síðara tilfellinu hafi hagsmunirnir af nafnleynd verið öllu meiri, enda um ólögráða dreng að ræða.

Nú er formaður Lögmannafélagsins eflaust farinn að aka sér í sætinu, enda höfum við tekist á um þessi málefni á vettvangi alnetsins og höfum á þeim mjög skiptar skoðanir. Engu að síður ætla ég að halda áfram á þessari braut og fjalla ítarlegar um kynferðisbrot vegna þess að ég lít svo á að þau séu réttarkerfinu mikil prófraun.

Á síðasta ári leituðu um 230 einstaklingar, mest konur, sér aðstoðar hjá Neyðarmóttöku og Stígamótum vegna nauðgunar eða nauðgunartilraunar. Gerendurnir eru í langflestum tilfellum karlar og ofbeldið er því kynbundið í eðli sínu. 65 mál bárust lögreglu, 42 rötuðu inn á borð ríkissaksóknara, 17 ákærur voru gefnar út og sakfellt var í samtals átta málum. Fólk sem á þetta bendir fær oft á sig ásakanir um að vilja fangelsa saklausa menn í stórum stíl og taka jafnvel af lífi án dóms og laga. Ég hvet alla sem hér eru inni til að hefja umræðuna upp úr þeim hjólförum.

Ég tek það einnig fram að inni í þessum tölum er ekki ofbeldi gegn börnum. Ef við tökum það með í reikninginn má gróflega áætla að um 400-500 manns leiti sér aðstoðar vegna kynferðislegs ofbeldis á ári hverju, á 365 dögum. Í sumum tilfellum kann að vera um gömul mál að ræða en hvað sem því líður  er tölfræðin þannig að hugsandi fólk hlýtur að staldra við. Hvers vegna er nauðgað  annan hvern dag – eða þriðja hvern dag ef við viljum draga úr – á  Íslandi á meðan sakfellt er í aðeins átta málum? Er óeðlilegt að spyrja slíkrar spurningar?

Það er mín upplifun að baráttufólk gegn kynferðisbrotum hafi flest allt tileinkað sér skilning á lögum og grundvelli laga sem um þau brot gilda. Hins vegar hefur mér þótt bera á því að óþægilega margir lögmenntaðir menn vilji ekki kynna sér eða skilja veruleikann sem lagabálknum er ætlað að ná utan um. Þeir vísa fram og aftur í lög og reglur og nota jafnvel orðið „réttarríki“ til að þagga umræðu um ofbeldi. Kynferðislegt ofbeldi er stærsta ógn við líf og heilsu kvenna, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heim. Í því samhengi er það ekki aðeins ofbeldið sem skaðar heldur líka hin sífellda og yfirvofandi ógn, sem konur, og í sumum tilfellum karlar, búa við.

Staðreyndin er sú að þegar kemur að kynferðislegu ofbeldi  virkar réttarríkið ekki sem skyldi og stórir hópar fólks bera ekki nægilegt traust til réttarkerfisins. Það fólk sem innan réttarkerfisins starfar þarf að horfast í augu við það, og hefur sumt gert, hversu treglega gengur að koma lögum yfir menn sem beita kynferðislegu ofbeldi. Þetta snýst ekki um að brenna menn á torgum eða fangelsa saklausa menn heldur þvert á móti um að reyna að sjá til þess að sekir menn séu sekir fundnir. Með slíkri samræðu er kannski hægt að finna leiðir til að gera betur, kannski ekki, en að minnsta kosti fáum við aldrei úr því skorið með afneitun og þöggun.

Og hvert er hlutverk lögfræðinga í slíku samhengi?  Sumir líta svo á að það sé aðeins að standa vörð um núgildandi kerfi, blása á alla gagnrýni og reyna jafnvel að láta að því liggja að þessir 230 einstaklingar sem leituðu sér aðstoðar vegna nauðgunar eða nauðgunartilraunar séu meira eða minna að misskilja eigin upplifun eða jafnvel ljúga til um hana. En segjum að helmingi þessa fólks hefði  ekki verið nauðgað í raun og veru, þá stæðum við samt uppi með skelfilega stóran hóp fólks sem verður fyrir ofbeldi. Og það sem enn verra er, skelfilega stóran hóp manna sem nauðga og komast upp með það.

Ég hefði haldið að ábyrgir lögfræðingar tækju þátt í þessari umræðu á yfirvegaðan hátt og með það að markmiði að þróa réttarríkið í betri átt eins og fremst er unnt. Ábyrgir lögfræðingar gæta líka að sjónarmiðum og rétti þeirra sem sakaðir eru um ofbeldi. Annað þarf hins vegar ekki að útiloka hitt.

Þannig tel ég að lögfræðingar, hvar sem þeir starfa, geti unnið að því sem tilgreint er í 1. grein siðareglna lögmanna: Að efla rétt og hindra órétt.

***

Ágæta samkoma,

Hér stendur fyrir framan ykkur kennari og alþjóðastjórnmálafræðingur sem vinnur inni í hringiðu lögfræði og lagahyggju, í ráðuneytinu sem fer með dómsmál. Ég hef lært mikið af þeim góðu lögfræðingum sem þar starfa, eins og öðrum sem ég hef umgengist í leik og starfi. Kannski gæti lögfræðin mætt öðrum fræðigreinum með opnari augum og lært af þeim. Kannski eru þetta ekki „við“ og „hinir“, löglærðir og ólöglærðir, heldur einmitt bara við. Við sem viljum gera Ísland að góðu og traustu, lýðræðislegu réttarríki, sem þjónar veikum jafnt sem sterkum, efnuðum sem fátækum, konum sem körlum, börnum sem fullorðnum, menntafólki sem verkafólki. Okkur kann að greina á um markmið og leiðir en við megum öll taka þátt í umræðunni, hvort sem við höfum menntað okkur til þess eða ekki.  Ég held það sé lögfræðinni til góðs að ráðast til atlögu við eigin orðræðu og lögfræðingum að gerast  sjálfsgagnrýnir.

En hvað veit ég, ekki bara ólöglærð, heldur líka kona!

Ég vonast eftir líflegum umræðum hér á eftir og óska ykkur enn og aftur til hamingju með daginn.

Takk fyrir mig