Klukkan 14:25 streyma konur út af vinnustöðum á Íslandi til að taka þátt í fjöldagöngu og baráttufundi í tilefni af 24. október. Tímasetningin er engin tilviljun. Kl. 14:25 hafa konur unnið fyrir launum sínum. Ennþá árið 2010 er kynbundinn launamunur á Íslandi þetta mikill. Konur vinna einnig mikla ólaunaða vinnu og þeim meira sem skorið er niður í velferðarkerfinu þeim meiri vinna lendir á herðum kvenna. Það er raunar ótrúlegt að heilt samfélag skuli sætta sig við þessa stöðu.

Að þessu sinni er kastljósinu beint að baráttu kvenna gegn kynferðislegu ofbeldi. Á Íslandi er a.m.k. 2-300 konum nauðgað árlega. Sé litið til ofbeldis gegn börnum þá eykst enn á tölfræðina en áætla má að í kringum 500 konur og börn, og í sumum tilfellum karlar, verði fyrir kynferðislegu ofbeldi á ári hverju. Aftur: Það er ótrúlegt að heilt samfélag skuli sætta sig við þessa stöðu.

Ofbeldið verður ekki til í tómarúmi. Það eru ofbeldismenn, í langflestum tilfellum karlar, á bak við hvert einasta tilvik og þeir eru að jafnaði álíka margir og þolendurnir. (Þótt sumir menn beiti margar konur og börn ofbeldi þá eru líka margir þolendur sem verða fyrir ofbeldi af hálfu margra manna).

Við litla varðhunda feðraveldisins sem geta ekki lesið svona greinar án þess að rísa upp á afturlappirnar og hrópa að þetta sé meira eða minna bull eða að femínistar séu hræðilegt fólk að halda því fram að ofbeldismennirnir séu langflestir karlar vil ég segja eftirfarandi: „Tölurnar tala sínu máli. Ísland er ekki eyland í þessum efnum því kynferðislegt ofbeldi á sér stað um allan heim og þolendurnir eru í langflestum tilfellum konur og börn. Það má vel vera að ofbeldi gegn körlum sé vanmetið þar sem þeir greini síður frá en það að gera hróp að þeim sem berjast gegn ofbeldi breytir engu um það. Takið frekar þátt í baráttunni með okkur.“

Taina Bien Aime, framkvæmdastýra samtakanna Equality now!,benti á það á ráðstefnu Skottanna um kynferðislegt ofbeldi í Háskólabíói í gær að einhverju sinni hefðu menn haldið því fram að þrælahald væri óhjákvæmilegt og það yrði aldrei hægt að útrýma því með öllu. Það hefði hins vegar ekki reynst rétt og jafnrétti væri því ekki óraunhæft markmið.

En til þess á ná jafnrétti þarf að útrýma ljótustu birtingarmynd misréttisins, kynferðislegu ofbeldi  í hvaða formi sem það birtist. Setjum okkur að markmiði að Ísland verði fyrsta land í heimi þar sem konur þurfa ekki að lifa við stöðuga ógn um nauðganir eða annars konar ofbeldi. Ísland gæti þá raunverulega orðið friðsælt land. Hvernig væri það?