Birtist á Smugunni, 14. október 2010

Þriðjudaginn síðastliðinn fékk ég sms kl. 7:38 um morguninn frá gömlum samstarfsfélaga sem var mikið niðri fyrir vegna leiðaraskrifa Morgunblaðsins. Ekki kom fram um hvað leiðarinn fjallaði en ég svaraði sms-inu eitthvað á þessa leið: „Ekki búin að sjá leiðarann. Leyfðu mér að giska. Hann fjallar um að ÖJ [dómsmálaráðherra] sé ekki með réttu ráði að hafa rætt við ríkissaksóknara og viðbrögðin við tali þess síðarnefnda eru kennd við femínista í VG.“ Þótt ég segi sjálf frá þá komst ég ótrúlega nærri innihaldinu. Spádómsgáfan mín er þó ekki svo mikil að ég hafi giskað út í loftið. Ég hafði einfaldlega lesið heimasíðu Björns Bjarnasonar daginn áður og jafnframt „fuglahvísl“ AMX. Þeir fara ekkert í felur með samhæfð viðbrögð sín, það er nokkuð ljóst.

Viðurkennd réttarfarsleg sjónarmið?

Forsaga málsins er sú að ríkissaksóknari birtist í tveimur viðtölum við DV og reifaði skoðanir sínar á nauðgunarmálum, þar með talið á einstaka málum sem hafa verið felld niður hjá embættinu. Dómsmála- og mannréttindaráðherra barst fjöldi athugasemda vegna þeirra viðhorfa sem komu fram í viðtölunum. Athugasemdirnar komu víða að og ekki síst frá þolendum kynferðisbrota, sem upp til hópa virðast veigra sér við að leita réttar síns og þótti ummælin meiðandi og til þess fallin að draga enn frekar úr trausti kvenna (og í sumum tilvikum karla) á réttarvörslukerfinu. Stígamót lýstu yfir efasemdum um að þau gætu ráðlagt konum að kæra nauðgun.

Í framhaldinu hitti ráðherra ríkissaksóknara og greindi honum frá viðbrögðunum. Þar fékk ríkissaksóknari jafnframt tækifæri til að skýra sitt mál. Að sama skapi óskaði ráðuneytið eftir greinargerð frá embættinu. Þetta finnst nafngreindum og ónafngreindum „fuglahvíslurum“ fyrir neðan allar hellur og leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir að ríkissaksóknari hafi aðeins lýst „eðlilegum og viðurkenndum refsiréttarlegum sjónarmiðum.“ . Samkvæmt því   eru t.d. eftirfarandi  viðhorf  ríkissaksóknara „viðurkennd réttarfarsleg sjónarmið“:

„Manneskja sem verið er að nauðga biður ekki um smokk.“

„Er mælikvarðinn endilega sá að hún sé ekki virk í rúminu með honum, taki ekki þátt? Það held ég að sé nú bara mismunandi.“

Einnig er vert að vekja athygli á því að dæmin sem voru reifuð í umfjölluninni voru raunveruleg dæmi. Dæmi kvenna sem leituðu réttar síns en þurftu að sætta sig við niðurfellingu málsins hjá embætti ríkissaksóknara. Þær gátu nú lesið um mál sitt í DV og í framhaldinu skoðanir ríkissaksóknara á málinu. Ef við skiptum nauðgunarmálum út fyrir einhvern annan brotaflokk væri hljóðið kannski annað í „hvíslurunum“.

Nauðganir í flokkspólitískum gröfum

Hitt er síðan annað og öllu alvarlegra, og það eru tilraunir hvíslaranna til að láta eins og athugasemdir hafi aðeins komið frá Vinstri grænum femínistum. VG væri sannarlega ríkur flokkur ef það væri rétt. Hafi „hvíslararnir“ lesið fjölmiðlaumfjöllun um málið má þeim vera ljóst að gagnrýnin barst víða að.

Með því að draga umfjöllun um nauðganir niður í flokkspólitískar grafir er gert lítið úr þeim fjölda kvenna og karla sem hafa þurft að þola kynferðislegt ofbeldi og búa við þann napra veruleika að slík mál rata afar sjaldan í gegnum allt réttarvörslukerfið. Aðeins örfáir þolendur, sem þó kæra, fá mál sín tekin fyrir hjá dómstólum. Og til að það sé sagt þá vil ég árétta að það að horfast í augu við þennan veruleika verður ekki lagt að jöfnu við að ætla að hengja saklausa menn í stórum stíl. Engar kröfur eru uppi um slíkt, þótt leiðarahöfundur Morgunblaðsins kjósi að láta sem svo sé.

Á Íslandi eru 200-300 nauðganir á ári hverju. Nauðganir eru veruleg ógn við líf og heilsu kvenna, jafnt á Íslandi sem annars staðar í heiminum. Fáir ofbeldismenn þurfa að svara til saka og margfalt færri eru fundnir sekir. Það er sorglegt til þess að hugsa að fyrrum dómsmálaráðherra, ritstjóra Morgunblaðsins og hinum ónafngreindu „fuglahvíslurunum“ skuli þykja það minna áhyggjuefni en að núverandi dómsmálaráðherra greini ríkissaksóknara frá viðbrögðum kvenna og karla – og þolenda nauðgana – við áðurnefndum viðtölum við DV. Áhugavert er þeirra réttlæti, að ekki sé meira sagt.