Hringavitleysa Brynjars Níelssonar

Brynjar Níelsson sýnir mér þann heiður að tileinka mér heilan pistil á bloggi sínu á Pressunni. Um pistil hans hef ég þetta að segja:

Ég hef gagnrýnt lokun þinghalds yfir vændiskaupendum, væga dóma yfir þeim tveimur sem játuðu en mættu ekki fyrir rétt, nafnleysi þeirra eftir að þeir voru sekir fundnir og þá staðreynd að dómarnir eru ekki aðgengilegir á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Brynjar segir okkur femínista ekki hafa getað litið glaðan dag vegna þess að farið hafi verið að lögum í málum vændiskaupendanna. Staðreyndin er sú að hvergi segir í lögum að réttarhöld yfir vændiskaupendum eigi að vera lokuð eða nöfn þeirra ekki birt. Það segir heldur ekki í lögum að réttarhöld í kynferðisbrotamálum eigi að vera lokuð. Þvert á móti er meginreglan sú að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði. Dómarar geta hins vegar lokað þinghaldi en þeim ber að vera reiðubúnir til að rökstyðja þá ákvörðun sína.

Eitt er jákvætt við pistil Brynjars, sem er formaður Lögmannafélags Íslands og reyndur lögmaður á sviði kynferðisbrota, og það er að hann flokkar vændiskonurnar sem brotaþola. Ég fæ hins vegar ekki séð að þær hafi stöðu brotaþola í þessum málum, heldur aðeins stöðu vitna.

Vel hefði mátt loka vitnaleiðslum yfir vændiskonunum, til að vernda þær, en hafa aðra þætti réttarhaldanna opna. Dómarinn lagði hins vegar mikið upp úr því að vernda brotamennina og þá vaknar sú spurning hvers vegna þeir eigi að njóta verndar umfram aðra brotamenn, eins og ég hef ítrekað bent á.

Forvarnargildið út í veður og vind

Vændiskaupendurnir tveir sem játuðu brot sín (annar þó aðeins að hafa gert tilraun til að kaupa vændi) mættu ekki fyrir rétt en fengu samt sláandi litla refsingu í formi lágra sekta. Vegna þess að þeir mættu ekki fyrir rétt eru dómarnir ekki birtir á Netinu, sem er út af fyrir sig undarleg regla. Fjölmiðlar, hagsmunasamtök, alþingismenn og aðrir sem láta sig málið varða geta því ekki kynnt sér hvernig dómarinn komst að sinni niðurstöðu og um leið njóta karlanir tveir áframhaldandi nafnleyndar.

Brynjari líkar illa samanburður minn á máli stúlkunnar sem fundin var sek fyrir fjárdrátt og máli vændiskaupendanna. Stúlkan er dæmd í skilorðsbundið fangelsi og nafngreind í dómnum á meðan vændiskaupendurnir fá sektir og eru hvergi nafngreindir. Staðreyndin er sú að brotin áttu sér stað í sama landi og málin voru rekin fyrir sama dómstóli. Þess vegna er eðlilegt að vekja athygli á þeirri misjöfnu meðferð sem brotamennirnir fá.

Þótt refsiramminn sé misjafn í brotaflokkunum sem um ræðir, eins og Brynjar bendir réttilega á, þá hefur hámarksrefsing fyrir brot ekki ráðið því hvort nöfn brotamanna eru birt eða ekki. Dæmdir kynferðisbrotamenn hafa öllu jafna notið nafnleyndar þegar tengsl þeirra við brotaþola eru þannig að með því að gefa upp nafn kynferðisbrotamannsins sé gefið upp nafn brotaþolans um leið. Þegar kemur að vændi eiga þessi rök ekki við.

Staðreyndin er sú að í vændisfrumvarpinu var rík áhersla lögð á fornvarnargildi sem slík lög myndu hafa og með skýrum hætti sagt að tilgangur laganna væri að koma í veg fyrir vændiskaup. Forvarnargildið fer út í veður og vind ef menn fá 80.000 kr. refsingu og nöfn þeirra birtast hvergi. Vændiskaupandinn greiðir þannig einvörðungu hærra verð fyrir vændið, en hann hefði ella gert.

Brynjar talar í hringi þegar hann í aðra röndina leggur þunga áherslu á að um kynferðisbrot sé að ræða en í hina hneykslast hann á því að kaup á vændi séu ólögleg. Því í huga Brynjars heitir vændi „kynlífsþjónusta“ og hann leggur það að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju algerlega að jöfnu við kynlíf, eins dapurlegt og það hljómar.

Á bak við luktar dyr

Lokun þinghalda yfir vændiskaupendunum byggir á mjög veikum rökum og það gerði líka ákvörðun Hæstaréttardómaranna tveggja sem neituðu að taka kæru mína til umfjöllunar. Það kemur ekki á óvart að Brynjar Níelsson skuli deila tilfinningaseminni sem þær ákvarðanir stýrðust af. Hann virðist almennt hafa mikla samúð með körlum sem beita konur ofbeldi. Eins og skyldan býður honum ver hann slíka menn fyrir rétti og er það vel. Tilhneiging hans til að verja þá líka í opinberri umræðu og gera um leið allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir réttarbætur í þágu þolenda kynbundins ofbeldis er hins vegar óskiljanleg.

Í réttarríki Brynjars má gera allt „bak við luktar dyr svefnherbergisins“, eins og hann orðar það sjálfur. Til að réttlæta skoðanir sínar ber hann vændi og kynferðislegt ofbeldi saman við samkynhneigð og framhjáhald. Ekki þarf að fara mörgum orðum um slíkan samanburð.

Við þetta má bæta að Femínistafélag Íslands hefur alla tíð barist fyrir því að ofbeldi gegn konum sé tekið alvarlega í samfélaginu. Félagið beinir almennt ekki sjónum sínum að einstaklingum sem slíku ofbeldi beita heldur að samfélagsgerðinni sem ofbeldið þrífst í og að kerfinu sem reynist oft vanmáttugt til að takast á við það. Tal Brynjars um ofsóknir, vandlætingu, reiði og hefndarhug er því út úr öllu korti og byggir öðru fremur á rökþurrð, og kannski hans eigin vandlætingu í garð þeirra sem berjast gegn ofbeldi.

Prev PostAð dæma sína líka
Next PostVerst að þetta var draumurinn