Úr Morgunblaðinu í dag:

„Dómarnir verða birtir síðar í dómabók en samkvæmt reglunum verða nöfn og annað sem tengir menn persónulega við málið afmáð,“ segir Helgi [I. Jónsson, dómstjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur]. Það sé ávallt gert þegar um persónuleg mál sé að ræða svo sem kynferðisbrotamál eða málefni barna.

Það er nefnilega það. Kynferðisbrot eru „persónuleg mál“. Samt er um brot á almennum hegningarlögum að ræða. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að nöfn kynferðisbrotamanna væru ekki birt opinberlega í þeim tilfellum þar sem hægt væri að tengja þá beint við brotaþolann. M.ö.o. væri verið að vernda fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi, ekki fólk sem beitir því. En það var greinilega misskilningur.

Ef þú kaupir vændi þá er það persónulegt mál þitt, eins ef þú brýtur gegn barni eða nauðgar konu. Ef þú stingur undan fé í Bónus er það hins vegar alls ekki persónulegt mál.

Dæma auðveldlega “niður fyrir sig”

Eva Joly vakti athygli á því í Silfri Egils í vor að dómarar ættu oft erfitt með að dæma „sína líka“. Það komi skýrt í ljós þegar dómstólar taka á fjárglæframönnum. Þá mæti dómarar mönnum sem eru úr sömu hverfum og þeir sjálfir, menn með fín bindi og snyrtilega klæddir. Dómararnir hafa samúð með þessum mönnum og trúa engu illu upp á þá. Hins vegar eiga þeir mun auðveldara með að „dæma niður fyrir sig“. Fella hiklaust dóma yfir fíkniefnaneytendum, útlendingum, rónum, slagsmálahundum og svo framvegis.

Í Svíþjóð var gerð umfangsmikil rannsókn á afdrifum kynferðisbrotamála. Þar kom í ljós að kynferðisbrotamenn sem eru af erlendu bergi brotnir eða tilheyra lægri stéttum eru  miklu líklegri til að fá dóm en millistéttarmenn og góðborgarar.

Þetta má greinilega uppfæra á íslenskan veruleika. Vændiskaupendur eru verndaðir á sama tíma og nafn erlenda vændismiðlarans er ítrekað birt og myndir með. Svipaða sögu má segja um kassastúlkuna í Bónus sem dró sér fé, nafn hennar er birt, refsingin er þyngri en fyrir að kaupa sér vændi og dómurinn fer beint á Netið.

Vændiskaupendurnir sem þegar hafa verið dæmdir fá svo ótrúlega litla refsingu að sækja þarf um sérstakt leyfi til að geta áfrýjað málinu til Hæstaréttar. Þannig var dómurinn þrátt fyrir að mennirnir hefðu ekki mætt í dómsal. Og vegna þess að mennirnir mættu ekki í dómsal er dómurinn ekki birtur á Netinu!

Hér stendur ekki steinn yfir steini.

Allt er þetta ákvörðun eins dómara, sem vildi helst ekki þurfa að dæma mennina og alls ekki fyrir opnum tjöldum. Hann virðist hafa samúð með þeim, líkt og Hæstaréttardómararnir tveir sem neituðu að taka kæru mína á ákvörðun um lokað þinghald til efnislegrar meðhöndlunar. Heldur vísuðu þeir henni frá, á tæknilegum forsendum, sem standast ekki nánari skoðun.

Sumir eru meiri blaðamenn en aðrir

Ákvörðun meirihluta Hæstaréttar er ekki bara út úr öllu korti gagnvart grasrótarsamtökum sem láta sig ákveðna málaflokka varða heldur líka áfall fyrir íslenska blaðamenn, enda ljóst miðað við fyrri dómaframkvæmd að mál mitt var ekki tekið fyrir þar sem ég starfa ekki lengur á fjölmiðli. Ég vinn sjálfstætt sem blaðamaður, fræðimaður og rithöfundur. Það dugar ekki dómurunum, sem eru greinilega þess umkomnir að greina á milli blaðamanna með allt öðrum hætti heldur en hefur verið gert innan stéttarinnar. Ef ég hefði unnið á Morgunblaði Davíðs Oddssonar þá hefði málið verið tekið fyrir.

Dómararnir vildu svo gjarnan vísa málinu frá, því þeir vissu sem var að annars hefðu þeir þurft að rökstyðja stuðning sinn við ákvörðun um lokað þinghald með þeim hætti að það hefði stangast á við ákvörðun Hæstaréttar í öðru máli þessu líku, þar sem maður var ákærður fyrir vörslu á barnaklámi.

Dómskerfið stýrist í þessu máli af tilfinningasemi og meðvirkni í garð karlanna sem „lentu í því að kaupa sér vændi“. Þess vegna þarf réttarkerfið allt að líta í eigin barm, ekki seinna en strax.