Stjórnmál: Samfylking, hvar varst þú?

Birtist á Smugunni, 20. maí 2010

Þegar nefnd um erlenda fjárfestingu fjallaði um Magma samningana greiddi fulltrúi VG, sem jafnframt er varaformaður nefndarinnar, atkvæði gegn kaupum skúffufyrirtækisins í HS Orku. Það gerði líka fulltrúi Hreyfingarinnar. Rökin voru einfaldlega þau að gjörningurinn væri ekki hafinn yfir lagalegan vafa og því ætti hagur almennings að ganga fyrir. Skera þyrfti úr um vafaatriðin fyrir dómstólum. Fulltrúar hrunflokkanna – Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Samfylkingar –greiddu hins vegar atkvæði með samningunum. Í þessu samhengi heyrðu Vinstri græn enn einu sinni hótunina um stjórnarslit ef ekki færi allt eftir höfði Samfylkingarinnar.

Forstjóri Magma sagðist í Kastljósviðtali í vikunni hafa fengið misvísandi skilaboð frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Sumir segðu þeim bara að drífa í þessu en aðrir væru á bremsunni. Hann vildi ekki gefa upp hver gaf hvaða skilaboð, enda liggur það svo sem ljóst fyrir. Áberandi hluti Samfylkingarinnar hefur  viljað „erlenda fjárfesta“ inn til landsins, sama í hverju þeir hyggjast fjárfesta og með hvaða hætti. 65 ára nýtingarréttur með möguleika á framlengingu, sem kveðið er á um í Magma samningunum, á miklu meira skylt við eignarrétt en nokkuð annað. Það segir sína sögu að þegar lögin sem samningurinn byggir á voru samþykkt, í tíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þá vildu sum orkufyrirtækin og miklu fremur miða við 100 ára nýtingarrétt, en auðvitað helst engan nýtingarrétt heldur eilífðar framsal auðlindanna. Með Magma samningnum er búið að skuldbinda framtíðarkynslóðir á þann hátt að ekki verður við unað.

Að hvísla stuðningsorðum

Það sem klagar upp á ráðherra og þingmenn Vinstri grænna er að hafa ekki gripið til róttækra aðgerða og komið með tillögur að lagabreytingum sem tækju af allan vafa um að auðlindir Íslendinga á að nýta í þágu almennings, ekki hluthafa í erlendum fyrirtækjum (og heldur ekki innlendum ef út í það er farið). Þarna hefði átt að láta reyna á meirihlutann á þingi og leyfa Samfylkingunni að hafna slíkum lögum opinberlega, væntanlega í samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Þess í stað hvísla ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar stuðningsorðum í eyra forstjórans þannig að enginn sér til eða heyrir og kjörnir fulltrúar VG sitja eftir með óbragð í munni. Það er einfaldlega lýðræðislegra að taka mikilvæg mál til atkvæðagreiðslu og aðeins þannig geta kjósendur raunverulega vitað hvað þeir kjósa. Ríkisstjórnarflokkar þurfa ekki að vera sammála um öll mál og ósamstaða á ekki að leiða sjálfkrafa til stjórnarslita. Slíkt tal byggir á orðræðu leiðtogadýrkendanna sem héldu alltof lengi um stjórnartaumana á Íslandi.

Sjálfstæðisflokkurinn: Potturinn og pannan

Að þessu sögðu þá má ekki gleyma því hvaðan þessir samningar eru upprunnir. Sjálfstæðisflokkurinn hóf vegferðina þegar hann stýrði landsmálunum. Sjálfstæðisflokkurinn kom sölusamningi í gegnum borgarstjórn Reykjavíkur og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ stóð að sölu hlutar bæjarins í HS Orku. Borgarfulltrúar VG, Sóley Tómasdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson, stóðu einörð gegn sölu (eða öllu heldur gjöf) á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku til Magma. Það gerði líka Samfylkingin en þó ekki á sömu forsendum því Vinstri græn áréttuðu ítrekað þá grundvallarafstöðu að orkufyrirtæki og orkuauðlindir eigi undantekningalaust að vera í almannaeigu. En Sjálfstæðisflokkur, með liðsinni Framsóknar, keyrði málið í gegn, alveg eins og flokkurinn ætluði svo eftirminnilega að keyra REI málið í gegn og alveg eins og flokkurinn hefur viljað einkavæða allt sem almenning skiptir máli. Eftir stendur íslenska þjóðin, fátækari í dag en í gær.

Hrunhugmyndafræðin lifir enn góðu lífi, þrátt fyrir hræðilegar afleiðingar. Eftir 9 daga verður gengið til sveitarstjórnarkosninga. Þá er mikilvægt að muna fyrir hvað hinir ólíku stjórnmálaflokkar standa. Leiðum ekki fylgjendur hrunhugmyndafræðinnar enn á ný til valda. Það er of dýrkeypt.

Prev PostÓheppinn sölumaður
Next PostTopp tíu og hræðslukarlrembustéttin