Birtist á Smugunni

4. maí 2010

Orkumálastjóri sagði á kynningarfundi um Rammaáætlun  nýverið að klofning í litlum sveitarfélögum vegna virkjanaframkvæmda mætti rekja til þess að það væri alltaf „einhver minnihluti“ sem vildi ekki sætta sig við meirihlutalýðræðið. Því miður gafst ekki tóm til að ræða þetta nánar.

Frétt sem birtist á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu í dag segir allt sem segja þarf. Þar kemur fram að sveitarstjórn Flóahrepps hafi, korteri fyrir kosningar, skuldbundið bæjarfélagið til að greiða allt að 300 milljónum króna fyrir vatnsveitu verði Urriðafossvirkjun ekki sett á aðalskipulag hreppsins. Þetta er í kringum hálfmilljón króna á hvern íbúa sveitarfélagsins.

Þessi samþykkt kemur í beinu framhaldi af því að hópur fólks kom saman framboði sem hefur það að meginstefnumáli sínu að vinna gegn virkjunaráformum í neðrihluta Þjórsár. Við slíkt framboð verður auðvitað ekki unað og þá er fátt annað í stöðunni en að kaupa kosningarnar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Landsvirkjun sendir „asna klyfjaða gulli að þeim borgarmúrum sem ekki falla við fyrsta högg“, eins og Mörður Árnason hefur orðað það. Orkumálastjóri getur ekki kallað slík vinnubrögð lýðræðisleg. Hann þarf að útskýra mál sitt betur.