Fundur Blaðamannafélags Íslands í gær var til marks um þau miklu átök sem eiga sér stað í íslensku samfélagi eftir efnahagshrunið. Alls staðar er tekist á og enginn vill láta hanka sig á rugli.

Það var sorglegt að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skyldi ekki gefa kost á sér áfram sem formaður, enda ljóst að eitt ár í formannsstóli er alltof skammur tími. Hins vegar skil ég vel hennar ákvörðun, það er erfitt að taka þátt í svona sirkús, þegar félagatalið er handónýtt  og að því er virðist háð geðþóttaákvörðunum  hver fær að halda aðild og hver ekki. Ég virðist t.d. vera dottin út af félagaskrá þrátt fyrir að hafa óskað eftir biðaðild í gegnum starfsmann stjórnar félagsins, sem nú er orðinn formaður, eftir að ég missti vinnuna á Morgunblaðinu. Síðan kemur í ljós að kannski hefði ég ekkert þurft að óska eftir biðaðild heldur bara að vera áfram fullgildur félagi. A.m.k. lítur allt út fyrir að Árni Johnsen sé fullgildur félagi og þar af leiðandi með atkvæðarétt í félaginu! Þá virðist engin umsókn um biðaðild hafa verið tekin fyrir í stjórn félagsins síðustu ár sem aftur þýðir að varla er nokkur félagsmaður biðfélagi, enda þarf stjórnin samkvæmt lögum félagsins að samþykkja biðfélaga.

Efasemdir um kjörgengi nýs formanns

Í grein 2.1 segir:

Félagar geta orðið allir þeir, sem hafa fjölmiðlun að aðalstarfi eða eru fastráðnir starfsmenn ritstjórna á dagblöðum, vikublöðum, sértímaritum, landshlutablöðum, vefmiðlum og fréttastofum útvarps- og sjónvarpsstöðva, svo og aðrir þeir, sem fastráðnir eru við frétta- og fjölmiðlun á launakjörum, sem félagið hefur samið um eða gefið út taxta fyrir Þar með eru taldir blaðamenn, fréttamenn, útlitsteiknarar, prófarkalesarar, handritalesarar, ljósmyndarar, ritstjórar, ritstjórnarfulltrúar, fréttastjórar, dagskrárgerðarmenn fréttadeilda útvarps- og sjónvarpsstöðva hljóð- og tökumenn, tækni- og aðstoðarfólk á dagskrár- og fréttadeildum.

Af þessu er ljóst að áhöld eru um hvort starfsmaður stjórnar félagsins hafi verið kjörgengur þegar hann lagði framboð sitt fram. Kannski hefur hann lausapennaaðild að félaginu eða mögulega biðaðild, þótt ólíklegt teljist auk þess sem biðfélagar eiga samkvæmt lögunum ekki að hafa atkvæðarétt á fundinum og geta því tæplega talist kjörgengir. Það er þó ekki skýrt í lögum. Svör við þessu komu ekki fram á fundinum í gær að öðru leyti en því að starfsmaðurinn veifaði eintaki af Blaðamanninum og sagðist hafa skrifað í hann greinar. Vel má vera að starfsmaðurinn sé fullgildur félagi en það hefði þurft að vera á hreinu fyrir formannskosninguna.

Á þessu vakti Svavar Halldórsson athygli  í upphafi fundar. Hann benti einnig á að starfsmaður félagsins hefði skráð tugi félaga sem biðfélaga án þess að fyrir því lægi samþykki stjórnar. Kjörskrá var hins vegar breytt á miðvikudagskvöld að frumkvæði stjórnar og að fengnu lögfræðiáliti þess efnis að þar sem mál biðfélaganna voru ekki tekin fyrir í stjórn teljist þeir fullgildir félagar. Það orkar þó líka tvímælis því samkvæmt lögunum getur allt þetta fólk ekki verið fullgildir félagar. Þarna var því kominn hópur fólks sem hafði fyrr í vikunni fengið þau skilaboð að það væri hvorki kjörgengt á fundinum né með atkvæðisrétt.

Frestun ekki samþykkt

Félagatal BÍ stangast á við lög félagsins. Lögin eru vissulega meingölluð. Þau eru óskýr og ekki nægilega vel skrifuð. Ný stjórn hlýtur að koma af stað vinnu við að endurskoða lögin. En það þýðir það ekki að brjóta megi lögin áður en þeim er breytt. Svavar flutti dagskrárbreytingartillögu sem fól í sér að kjöri formanns og stjórnar yrði frestað til að hægt væri að skera úr um öll vafaatriði. Einnig lagði hann til að umræðu um ársreikninga yrði frestað þar sem meirihluti stjórnar félagsins taldi sig ekki hafa nægar upplýsingar til að staðfesta reikningana.

Fram kom frávísunartillaga á dagskrárbreytingartillögu Svavars. Hún var samþykkt með 43 atkvæðum gegn 28. Fundurinn hélt því áfram samkvæmt dagskrá þótt mikil áhöld væru um lögmæti hans og formannskjörsins. Það er mjög miður.

Engin „skúringakelling“

Formaður félagsins flutti fundinum skýrslu þar sem ágreiningi við starfsmann stjórnarinnar var lýst. Starfsmaðurinn steig síðan fram og flutti dramatíska ræðu um góða efnahagsstöðu félagsins og dugnað hans sjálfs í starfi. Um hvorugt skal efast. Ræðan var hins vegar heldur sundurlaus og gagnrýni sem raunverulega beindist að starfsmanninum hefði mátt svara skýrar, s.s. varðandi það að stjórnin hafi ekki fengið þau gögn sem hún óskaði eftir (og þar er átt við gögn, ekki munnlegar romsur).

Af ræðunni að dæma fékk ég best skilið að stærstu glæpir formanns félagsins hefðu verið að gagnrýna eignarhald á fjölmiðlum, að leggja til að blaðamaður fengi hlutastarf sem felst í umsjón með vefnum press.is  í stað Birgis Guðmundssonar, prófessors og að hafa viljað þiggja styrk sem norrænu blaðamannafélögin vildu bjóða BÍ vegna erfiðra aðstæðna á Íslandi. Flest af þessu þykir mér mjög eðlilegt. Starfsmaðurinn vildi hins vegar ekki þessa miklu krítík á eigendur, ekki að blaðamaður fengi hlutastarf á press.is og alls ekki að taka við styrk frá útlöndum. Félagið væri nógu vel statt til að sjá um sig sjálft, þótt starfsmaðurinn hafi reyndar sagt upp ræstitækninum sem skúraði gólfin vegna efnahagshrunsins. Vakti hann athygli á framtakssemi sinni við skúringar og klykkti hann út með orðunum að halda mætti að félag eins og BÍ ætti að geta haft „skúringakerlingu“ í vinnu. (Hann var þó ekki einn um að tala um „kerlingar“ á fundinum því það gerði líka mín gamla samstarfskona Agnes Bragadóttir sem hrópaði að Þóru Krístinu að hún væri „nauðaómerkileg dylgjukerling“. )

Eftir ræðu starfsmannsins stóðu þrír stjórnarmenn upp og sögðu af sér úr stjórn eða gáfu ekki kost á sér áfram. Síðan var kjörin ný stjórn, skipuð 6 körlum og einni konu. (Vel í takti við þá tilhneigingu „Nýja Íslands“ að afhausa konur og hampa körlum.) Hinn nýi formaður varð við ósk fráfarandi formanns um að sitja ekki áfram sem framkvæmdastjóri tæki hann við embætti formanns. Staða framkvæmdastjóra verður því væntanlega auglýst á næstunni og eflaust verða margar umsóknir frá blaðamönnum, enda kjörin góð og starfsöryggi meira en víða í stéttinni.

Hærri meðalaldur og meira fjör

Ég missti því miður af umfjöllun um fjölmiðlahlutinn í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem ég fór yfir á aðalfund Rithöfundasambands Íslands, sem ég er nýr félagi í. Þar var stemmningin öll önnur (og meðalaldur margfalt hærri!). Kristín Steinsdóttir var kjörin formaður en Sölvi Björn Sigurðsson fékk einnig góða kosningu. Þau töluðu vel hvort um annað og hinir eldri rithöfundar voru yfir sig hamingjusamir með fundinn. Það hefur þó ekki alltaf verið þannig, í fyrri tíð voru þessir fundir víst allt að því blóðugir.

Blaðmannafélag Íslands er klofið og það er miður, ekki síst á þessum tímum. Kannski tekst samt með tíð og tíma að vinna að sátt innan félagsins og kannski rennur sá dagur upp að blaðamenn standi saman sem stétt, en ekki sundraðir. Let us hope.