Átökin sem hafa átt sér stað í Blaðamannafélagi Íslands eru athygliverð. Aðalfundur félagsins fer fram á morgun og starfsmaður félagsins hefur boðið sig fram gegn sitjandi formanni. Meirihluti stjórnar félagsins neitaði að samþykkja ársreikninga þar sem stjórnarmeðlimir töldu sig ekki hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins. Við því hafa takmörkuð svör borist en skýringar hljóta að koma fram á fundinum á morgun. Þess í stað talar starfsmaðurinn um lýðræðislegar hefðir sem verði að virða en hvergi kemur fram í hverju þær felast. Varla er lýðræðið í heiðri haft ef stjórnarmenn telja skorta á upplýsingar?

Kunnugleg stef

Í umræðu blaðamanna á milli má heyra kunnugleg stef um að formaðurinn sé frek, stjórnsöm, dónaleg og bitur kona. Einhvern veginn finnst mér ég hafa heyrt þessa lýsingu hundrað sinnum áður og hún á alltaf við um konur sem halda einhvers staðar um stjórnartauma. Ekki man ég eftir að hafa heyrt talað um frekan, stjórnsaman, dónalegan og bitran karl í þessu samhengi, þótt eflaust sé enginn skortur á  þeim.

Gagnrýni á eignarhald

Formaður Blaðamannafélagsins hefur verið harðlega gagnrýndur, jafnvel úthrópaður, vegna ályktunar frá stjórn félagsins um fjöldauppsagnir blaðamanna á Morgunblaðinu eftir að ritstjórum þar var fjölgað úr einum í tvo. Davíð Oddsson var annar þeirra. Ráðning hans var gagnrýnd vegna starfa sem tengdu hann við efnahagshrunið. Ályktunina má lesa í heild sinni hér en henni lýkur á þessum orðum:

Blaðamannafélagið lýsir jafnframt þungum áhyggjum af stöðu fjölmiðla á Íslandi, enda hefur um hundrað blaðamönnum verið sagt upp störfum síðustu misseri. Þá hefur harkalegur niðurskurður á ritstjórnum þrengt mjög að faglegri og frjálsri blaðamennsku. Þetta er sérstaklega hættulegt nú þegar aldrei hefur riðið jafn mikið á og nú að standa vörð um lýðræði hér á landi.

Erfitt er að koma auga á glæpinn í því að stjórn Blaðamannafélagsins standi með blaðamönnum og mótmæli fjöldauppsögnum. Kannski hefði mátt álykta oftar og meira og ef gagnrýnin snýst um það á að setja hana þannig fram. Þá er formanninum legið á á hálsi fyrir að hafa áhyggjur af eignarhaldi fjölmiðla á Íslandi. Þess má þó geta að formaðurinn er ekki einn um þessar áhyggjur enda koma þær skýrt fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem þáttur fjölmiðla í útrás og hruni er gagnrýndur.

Stuðningur Norðurlanda

Formenn norrænna samtaka blaða- og fréttamanna lýstu yfir áhyggjum af þróun fjölmiðla á Íslandi. Formaður BÍ var skammaður yfir að hafa matreitt ályktunina ofan í formennina og jafnvel skrifa hana bara sjálf. Í Rannsóknarskýrslu Alþingis segir:

Formenn Samtaka blaða- og fréttamanna á Norðurlöndum hafa lýst yfir áhyggjum vegna þróunar fjölmiðla á Íslandi og segja vegið að rit- og tjáningarfrelsi hérlendis. Það er dapurlegur vottur um íslenska umræðusiði að þessi athugasemd hefur ekki orðið tilefni málefnalegrar rökræðu um stöðu fjölmiðla á viðsjárverðum tímum í íslensku samfélagi heldur hafa menn hlaupið í skotgrafir.

Hvað er það í ályktuninni sem er svona hræðilegt? Hvernig væri að fá fram málefnalega umræðu frekar en að ráðast í öðru hverju orði á formann Blaðamannafélagsins eins og hún sé ekki bara alvaldur á Íslandi heldur líka um öll Norðurlönd?

Um þetta ritaði Gunnar Hersveinn góðan pistil sem má lesa hér.

Þreytandi sundurleitni

Sundurleitni hefur lengi verið vandamál í blaðamannastéttinni. Blaðamenn eiga það til að standa með eigendum sínum frekar en kollegum og grafa hver undan öðrum fremur en að standa saman. Þetta er leiðigjarnt og þreytandi. Hins vegar á þetta ekki við um alla  blaðamenn og eflaust er meirihluti sem vill hafa hlutina öðruvísi. Því er hægt að breyta.

Ég hvet alla blaðamenn til að mæta á aðalfundinn á morgun, ekki aðeins til að geta kosið og reynt að átta sig á deilum milli formanns og starfsmanns samtakanna heldur líka til að hafa áhrif á nýjar siðareglur blaðamanna sem til stendur að ræða á fundinum.

Einnig kosið í Rithöfundasambandinu

Sjálf er ég aðeins með biðaðild að Blaðamannafélaginu og ekki atkvæðisrétt. Ég geri því ráð fyrir að sitja fremur fund Rithöfundasambands Íslands en þar verður einnig kosinn nýr formaður. Valið stendur milli Kristínar Steinsdóttur og Sölva Björns Sigurðssonar. Bæði eru þau verðugir kandídatar, þótt ég halli mér fremur að Kristínu, ekki síst vegna mikillar reynslu hennar af rithöfundastörfum sem og starfi innan Rithöfundasambandsins. Kona hefur einnig aðeins einu sinni gegnt formennsku í Rithöfundasambandinu. Þá spillir ekki fyrir að Kristínu þekki ég persónulega og það af mjög góðu!

Morgundagurinn er spennandi. Ég held með konunum!