Varnarmálastofnun tók til starfa 1. júní 2008. Þá þegar voru uppi miklar efasemdir um stofnunina, þótt ekki færu þær hátt þá. Ári síðar hafði ný ríkisstjórn komist að samkomulagi um að stofnunina skildi leggja niður. Það var í júní í fyrra og nú er kominn mars.

Þótt fagna beri því að utanríkisráðherra hafi lagt frumvarp fyrir ríkisstjórn í dag þá hefði mátt ætla að það yrði aðeins bitastæðara. Stofnunin á að starfa fram að áramótum, sem er illskiljanlegt. Sérstök stjórn á að koma verkefnum stofnunarinar fyrir á þeim tíma og skal hún skipuð embættismönnum 5 ráðuneyta, einmitt sömu ráðuneyta og áttu fulltrúa í nefnd sem nú hefur skilað af sér og átti að undirbúa tilfærslu þessara sömu verkefna.

Það tekur eitt og hálft ár að leggja niður stofnun sem starfaði í ár og alltaf voru efasemdir um. Einmitt út af þessu á ekki að koma á fót nýjum ríkisstofnunum að vanhugsuðu máli. Þetta hefur verið gríðarlega kostnaðarsamt ævintýri.