Alþýðusamband Íslands hefur nú fundið sinn „skötusel“ í deilum við ríkisstjórnina, það er áform um sameiningu Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar. Á sama tíma skammast kóngur ASÍ yfir því að starfsendurhæfingarsjóður verkalýðsfélaganna sé ekki orðinn nógu digur. Samkomulag um þennan sjóð voru mistök og ríkisstjórnin ætti fremur að taka skref til baka en áfram í þeim efnum. Eins og glöggt má sjá af lestri á bréfi Gylfa Arnbjörnssonar til forsætisráðherra þá gengur sjóðurinn út á það að tryggja rétt fólks á vinnumarkaði umfram aðra, s.s. ef kemur til slysa eða veikinda. Fjárhæðirnar sem renna eiga í þennan sjóð eru alltof háar miðað við þann niðurskurð sem hið opinbera stendur frammi fyrir. Það er ekki réttlætanlegt að höggva í velferðarkerfið þannig að allur almenningur líði fyrir en veita á sama tíma fé inn í sérstaka sjóði verkalýðsfélaga sem er ætlað að bjóða fólki á vinnumarkaði betri þjónustu en þeim sem utan hans standa.

Forsvarsmenn ASÍ verða að taka tillit til samfélagsins alls í kröfum sínum og það sama á við um Samtök atvinnulífsins. Þessi valdamiklu hagsmunasamtök eiga að axla sína ábyrgð. Það verður ekki gert með stöðugum hótunum.