Meirihluti Íslendinga er andsnúinn því að slakað sé á kröfum um umhverfisvernd til að greiða fyrir stóriðjuframkvæmdum. Þetta er niðurstaða könnunar Fréttblaðsins, sem greint er frá í dag. Könnunin er gott veganesti fyrir ríkisstjórnina og þá ekki síst umhverfisráðherra sem hefur sett alla landsins „aðila“ í uppnám með því að standa með umhverfinu en ekki frekum körlum. Könnunin hlýtur líka að hreyfa aðeins við fjölmiðlum og opna á smá sjálfsgagnrýni varðandi viðmælendaval þegar kemur að umræðu um virkjanaframkvæmdir og stóriðju. Þannig lætur nærri að míkrafónn sé rekin framan í talsmenn stóriðjusinnaðra samtaka og fyrirtækja a.m.k. fjórum sinnum fyrir hvert skipti sem umhverfisverndarsinnar fá að tjá sig. Kannski er kominn tími til að leita fanga víðar þegar kemur að viðbrögðum við yfirlýsingum eða ákvörðunum sem tengjast náttúrvernd.

Mismunur  á afstöðu kynjanna kemur ekki á óvart, enda er þetta mynstrið um allan heim. Konur eru líklegri til að vilja standa vörð um náttúruna andspænis stórfyrirtækjum og sterkum hagsmunaöflum. Hins vegar vekur athygli að þrátt fyrir þetta þá vill helmingur íslenskra karla ekki að slakað sé á kröfum um umhverfisvernd. Þetta eru skýr skilaboð.

Munurinn á afstöðu eftir stjórnmálaskoðunum kemur heldur ekki á óvart. Hægri öflin héldu hér úti gegndarlausri stóriðjustefnu á meðan vinstri flokkarnir hafa heldur viljað skoða aðrar leiðir, bæði vegna umhverfisins og vegna efnahagslegra afleiðinga heróínstefnunnar. En stjórnarandstaðan (að undanskilinni Hreyfingunni) syngur enn sama sönginn um virkjanir og álver. Getur einhver tekið að sér að kenna henni nýtt lag?

Niðurstaða skoðanakönnunarinnar er vindur í segl stjórnarflokkanna sem vinna nú hörðum höndum að því að byggja upp nýtt, fjölbreytt og lýðræðislegt Ísland.