Miður er hvernig umræða um listamannalaun hefur spunnist í samfélaginu. Halda mætti að helsta byrði á íslenska ríkinu væru þeir fáu listamenn sem fá laun frá ríkinu í takmarkaðan tíma í senn. Þess má geta að margfalt færri fá listamannalaun en þess óska og ættu skilið. Listamannastéttin er jafnframt sjálfbær í þeim skilningi að hún skilur meira eftir sig í samfélaginu en hún tekur frá því. Það mættu margir taka til fyrirmyndar, til að mynda þeir sem telja rétt að þeir fái bónusgreiðslur sem hljóða upp á slíkar fjárhæðir að halda mætti uppi fjölda listamanna fyrir.

Greiðslur til listamanna þarf að setja í samhengi. Samkvæmt fjárlögum fara 373,8 milljónir í listamannalaun á þessu ári. Á einmitt sömu fjárlögum fá Samtök iðnaðarins litlar 420 milljónir til sinnar starfsemi. Réttlætingin fyrir því síðarnefnda er sú að fjármunirnir fáist með innheimtingu iðgjalds sem lagt er á allan iðnað í landinu. Fyrirtækin eru hins vegar bundin að lögum til að greiða það gjald og það rennur í gegnum ríkissjóð. Eins og annar skattur, t.d. virðisaukaskattur af bókum.

Það væru mikil glöp að gefa skít í listir á menningu, þótt nú sér hart í ári. Þjóðir sem hafa úr miklu minni fjármunum að spila halda uppi öflugu listalífi. Listir og menning eru mikilvægur hluti af samfélaginu og hreinlega af lýðræðinu. Þannig á það að vera áfram.