Ég átti leið niður á Alþingi á dögunum og ákvað að kíkja upp í þingfréttaritaraherbergið til að heilsa upp á gamla kollega. Eflaust átti það ekki að koma mér á óvart en kollegarnir voru í eintölu, það er Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður Ríkisútvarpsins.

Þegar ég byrjaði sem þingfréttaritari vorum við langoftast fjögur í húsi og stundum fimm. Fréttablaðið og Mogginn höfðu fasta blaðamenn í að sinna Alþingi, Ríkisútvarpið hafði tvo, einn fyrir sjónvarp og annan fyrir útvarp og af og til datt inn fréttamaður frá Stöð 2.

Smám saman fór viðvera Fréttablaðsins minnkandi í þinghúsinu. Þegar fréttadeildir útvarps og sjónvarps voru sameinaðar var ákveðið að Jóhanna Vigdís sinnti báðum miðlum. Næst ákvað Morgunblaðið að leggja niður stöðu þingfréttaritara (það er mína stöðu) og fréttamenn Stöðvar tvö sáust æ sjaldnar.

Áhugavert er að þessi þróun átti sér stað á nákvæmlega sama tíma og völdin færðust úr viðskiptalífinu og aftur inn í pólitíkina. Allt í einu voru stóru bankarnir allir komnir undir ríkishattinn og um leið fjöldinn allur af fyrirtækjum. En fjölmiðlar höfðu samt sem áður, og hafa enn, margfalt meiri áhuga á viðskiptalífinu, sem er bæði fjárhagslega og hugmyndafræðilega gjaldþrota. Þannig vinnur fjöldinn allra blaðamanna við að skrifa viðskiptafréttir á meðan pólitískum fréttaskrifum er iðulega sinnt í hjáverkum. Rétt er að taka fram að með þessu er ég hvorki að varpa rýrð á þá blaðamenn sem skrifa um viðskipti né þá sem skrifa um stjórnmál heldur aðeins að velta upp spurningum um forgangsröðunina.

Eftirlitshlutverk fjölmiðla er gríðarmikilvægt og ekki síður nú þegar endurmótun íslensks samfélags stendur yfir. Liður í slíku eftirliti er að fylgst sé með umræðum sem eiga sér stað á Alþingi. Slíkt aðhald getur ekki komið frá einum fréttamanni sjónvarpsins. Það þarf fleiri til.