Fréttaskýring

Birtist á Smugunni 3. mars 2010

Niðurstöðu starfshóps um niðurlagningu Varnarmálastofnunar er að vænta á næstu dögum en í hópnum sitja fulltrúar fimm ráðuneyta. Hópurinn hefur farið yfir verkefni Varnarmálastofnunar og mun leggja mat á hvar sé æskilegt að þau verkefni verið hýst í framtíðinni. Þegar ríkisstjórnin tilkynnti ákvörðun sína um að leggja niður Varnarmálstofnun 4. desember sl. var hún tengd við mögulega stofnun innanríkisráðuneytis, sem á að verða til við sameiningu samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis og mannréttinda- og dómsmálaráðuneytis. Eins og gildir um allar breytingar á verkaskiptingu ráðuneyta þá eru skiptar skoðanir um stofnun innanríkisráðuneytis innan stjórnsýslunnar. Þótti sumum sem tengingin á milli þess og niðurlagningar Varnarmálastofnunar væri aðeins til þess fallin að fresta því síðarnefnda. Engu að síður var frá upphafi tekið skýrt fram að leggja þyrfti Varnarmálastofnun niður strax á þessu ári en stofnun innanríkisráðuneytis tæki lengri tíma.

Hver tekur við ratsjáreftirlitinu?

Samkvæmt heimildum Smugunnar hefur bæði verið rætt um að koma sem flestum verkefnum Varnarmálastofnunar fyrir á einum stað, svo sem hjá Landhelgisgæslunni, og að dreifa verkefnunum á ólíkar ríkisstofnanir. Stærsta einstaka verkefni stofnunarinnar er rekstur ratsjárkerfisins sem Bandaríkjaher bar áður kostnað af og Ratsjárstofnun sinnti. Bandaríkjaher byggði ratsjárkerfið upp á 9. áratugnum en íslensk stjórnvöld settu skilyrðið um að það gæti nýst til eftirlits með borgaralegu flugi. Kerfið er því tvíþætt. Annars vegar er um að ræða svokallaðar svarratsjár sem nema merki sem flugvélar senda frá sér og hins vegar frumratsjár en þær geta greint vélar sem ekki senda slík merki frá sér og eru því á ferð í öðrum tilgangi en að flytja farþega eða vörur. Eina dæmið um þetta síðustu ár eru ferðir rússneskra sprengjuvéla á svæðinu í kringum Íslands en áréttað skal að það svæði sem fylgst er með er margfalt stærra en íslensk lofthelgi. Hún nær aðeins um 12 mílur frá landi en utan við lofthelgi ríkja er alþjóðlegt flugsvæði, sem öllum er frjálst að fljúga um, þ.m.t. Rússum.

Lítið hefur verið rætt um þann möguleika að slökkva á frumratsjárkerfinu en það er mun dýrara í rekstri en svarratsjárnar. Flugmálayfirvöld leggja ríka áherslu á að geta fylgst með allri flugumferð í kringum landið, meðal annars til að geta gert flugmönnum í borgaralegu flugi viðvart ef óþekktar vélar eru á ferð á svæðinu. Flugstoðir ohf. (sem til stendur að sameina Keflavíkurflugvelli ohf.) sinna borgaralegri flugumferðastjórn og iðulega hefur verið bent á að vel væri hugsanlegt að koma eftirliti með merkjum úr frumratsjám fyrir þar. Slíkt lægi raunar beinar við en að Landhelgisgæslan tæki við verkefninu en til að leggja mat á það þyrftu að liggja fyrir frekari upplýsingar um áætalaðan kostnað stofnananna hvorrar fyrir sig við að taka verkefnið yfir. Landhelgisgæslan væri aftur á móti vel í stakk búin að taka við umsjón með svokallaðri loftrýmisgæslu NATO herja og heræfingum sem haldnar eru hér á landi, ef ákveðið verður að halda þeim verkefnum til streitu.

Framtíð loftrýmisgæslu óráðin

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnaflokka er sérstaklega tekið fram að loftrýmisgæsla skuli tekin til endurskoðunar. Loftrýmisgæsla kallast viðvera herja NATO-ríkja hér á landi en hún átti upphaflega að eiga sér stað fjórum sinnum á ári í 2-3 vikur í senn. Þeim skiptum var þó fækkað á síðasta ári með vísan til efnahagsástands og íslensk stjórnvöld afþökkuðu áætlaða komu Breta í desember 2009 eftir að þeir síðarnefndu beittu hryðjuverkalögum gegn íslenskum fyrirtækjum.

Nú er hins vegar danskur her á landinu í þessum tilgangi og áætlað er að hann sinni því fram til 30. mars. Á sínum tíma var gert ráð fyrir að kostnaður íslenskra skattgreiðenda við loftrýmisgæslu væri í kringum 50 milljónir króna fyrir hvert skipti. Eftir efnahagshrunið var þess farið á leit að erlendu herirnir bæru meiri kostnað og samkvæmt upplýsingum frá Varnarmálastofnun er áætlaður kostnaður við loftrýmisgæslu Dana í kringum 15 milljónir króna. Kostnaðurinn er greiddur af Varnarmálastofnun, sem fékk úthlutað tæpum 970 milljónum króna á fjárlögum fyrir árið 2010.

Framtíð loftrýmisgæslunnar er óráðin. Innan VG er mikil andstaða við veru erlendra herja á Íslandi, hvort sem er vegna heræfinga eða loftrýmisgæslu. Ekki er virk andstaða við slíkt í öðrum flokkum en margir þingmenn telja takmörkuðum fjármunum betur varið í önnur verkefni en loftrýmisgæslu. Á móti kemur að sumir telja „sýnilegar varnir“ mikilvægar fyrir öryggi Íslands og um leið samstarf við NATO. NATO-ríkin eru hins vegar ekki á einu máli um mikilvægi loftrýmisgæslu og sem dæmi má nefna að hún er aðeins að nafninu til í Slóveníu.

Um þetta gæti þó orðið einhver ágreiningur á Alþingi en ólíklegt er að stór hópur þingmanna reyni að koma Varnarmálastofnun í heild sinni til bjargar. Þegar stofnuninni var komið á laggirnar árið 2008, í tíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, var takmörkuð pólitísk sannfæring fyrir því að koma á fót sérstakri stofnun utan um þessi verkefni. Hugmyndin var runnin undan rifjum nokkurra embættismanna í utanríkisráðuneytinu og forsætisráðuneytinu og ekki spannst um lögin mikil umræða, hvorki á þingi né úti í samfélaginu. Allir flokkar sem þá áttu sæti á Alþingi greiddu atkvæði með lögunum, að undanskilinni Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Eftir efnahagshrunið í október 2008 beindust hins vegar sjónar að þessari stofnun sem þótti hafa heldur rúm fjárráð og fara nokkuð frjálslega með vald sitt, eins og m.a. kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar í nóvember í fyrra.

Erfitt fyrir ríkisstjórnarflokkana ef málið tefst meira

Andstöðu Vinstri grænna við tilurð stofnunarinnar má rekja til friðarstefnu hreyfingarinnar og almennrar andstöðu við hvers kyns „hernaðarbrölt“. Innan Sjálfstæðisflokksins hafa einnig verið talsverðar efasemdir þótt á öðrum forsendum séu. Þar á bæ er lítil hrifning þegar nýjum ríkisstofnunum er komið á fót og fyrrum dómsmálaráðherra og þingmaður flokksins, Björn Bjarnason, var alltaf á þeirri skoðun að verkefni Varnarmálastofnunar gætu vel rúmast innan þeirra borgaralegu stofnana sem fyrir starfa í landinu. Framsóknarflokkurinn studdi varnarmálalögin árið 2008, m.a. vegna þess að  vinnan við umrætt frumvarp hófst í tíð Valgerðar Sverrisdóttur í utanríkisráðuneytinu. Hins vegar hefur mikil endurnýjun orðið innan þingflokks Framsóknar og alls ekki víst að þar á bæ telji þingmenn sérlega ráðlagt að ráðast í stjórnarandstöðu gegn niðurlagningu stofnunarinnar. Þá verður að teljast ólíklegt að andstaða komi frá Borgarahreyfingunni eða Þráni Bertelssyni, óháðum þingmanni.

Málið gæti orðið Samfylkingunni erfiðast en hún fór með utanríkisráðuneytið þegar varnarmálalögin voru samþykkt og gerir það einnig nú þegar nýtt frumvarp um niðurlagningu Varnarmálastofnunar og hugsanlega almenna breytingu á varnarmálalögunum verður tekið til umfjöllunar. En þrátt fyrir að enginn þingmaður innan Samfylkingarinnar hafi borið upp efasemdir þegar varnarmálalögin voru samþykkt árið 2008 ríkti þar innaborðs ekki sannfæring ein og ekkert bendir til þess að þingmenn flokksins leggist að einhverju leyti gegn mögulegum breytingum.

Þess er að vænta að frumvarp um niðurlagningu stofnunarinnar líti ljóst á vorþingi og það gæti orðið ríkisstjórnarflokkunum, einkum Vinstri grænum, óþægur ljár í þúfu ef málið dregst mikið lengur. Vinstri græn hafa talið sér til tekna að leggja eigi stofnunina niður og í umræðum um þann stóra bita sem hreyfingin kyngdi með aðildarumsókn að Evrópusambandinu hefur iðulega verið bent á að á móti komi niðurlagning Varnarmálastofnunar, þótt málin séu vitaskuld ólík að umfangi og inntaki. Stjórnarandstaðan mun að líkindum minna á uppruna málsins og stefnubreytingu Samfylkingarinnar, þótt það veiki málstað hennar að Sjálfstæðisflokkur er einnig í þeirri stöðu að hafa greitt atkvæði með stofnun Varnarmálastofnunar án þess að hafa haft sannfæringu fyrir því. Ekki þarf því að búast við andstaðan verði  mikil, enda á Varnarmálastofnun sér enga raunverulega pólitíska stuðningsaðila. Það ætti því að vera unnt að leggja stofnunina niður á næstu vikum án teljandi vandræða.