Í forsetakosningunum árið 2004 kaus ég Ólaf Ragnar Grímsson. Ég kaus hann ekki af því að mér fyndist hann á nokkurn hátt sérstaklega spennandi forseti eða af því að hann hefði staðið sig svo vel. Mest langaði mig að skila auðu. En Sjálfstæðisflokkurinn hafði hrundið af stað mikilli herferð gegn Ólafi þar sem öll atkvæði sem ekki féllu honum í skaut átti að túlka sem andstöðu við forsetann,næstum því stuðning við Sjálfstæðisflokkinn og þáverandi leiðtoga hans sem var æfur eftir að Ólafur synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Morgunblaðið birti stríðsfyrirsögn um að auðir seðlar yrðu taldir sérstaklega í fyrsta skipti og þar með aðskildir frá ógildum seðlum. Áróðurinn var mikill og hann náði til mín. Ég ákvað að kjósa Ólaf frekar en að skila auðu því ég nennti ekki að horfa upp á Sjálfstæðisflokkinn hrósa sigri yfir atkvæði mínu.

Ég hef alltaf séð eftir þessari ákvörðun.

Mér finnst ótrúlegt að stjórnmálamenn og álitsgjafar skuli sí og æ taka sér vald til þess að skilgreina um hvað kosningar snúast og túlka niðurstöður út og suður eftir því. Þjóðaratkvæðagreiðslan í dag snýst um hvort núgildandi Icesave lög eigi að halda gildi eða ekki. Ég er á móti þeim samningi eins og hann lítur út. Þess vegna mæti ég á kjörstað og segi nei. Atkvæði mitt snýst um það. Ekki um ríkisstjórnina, stjórnarandstöðuna, Grikkland, Írland, Ólaf Ragnar Grímsson eða einstaka samningamenn. Enginn skal fá að taka atkvæði mitt og lesa út úr því allt önnur skilaboð en þau að ég sé á móti þessum Icesave samningi. Og ég sé enga ástæðu til að sitja heima og sleppa því að kjósa, ekki í þessum kosningum frekar en nokkrum öðrum. Áróður fyrir því finnst mér óskiljanlegur.