Það væri gaman að hitta fyrir  brandarakarlinn eða –kerlinguna sem skipuleggur snjómokstur í Reykjavík. Einhvern veginn hélt ég að það heyrði sögunni til að snjó væri mokað upp á gangstéttir þannig að bílarnir gætu komist leiða sinna en gangandi vegfarendur alls ekki. Þetta gengur alveg upp í rólegum götum þar sem umferð er hæg en þegar erfitt er að komast leiðar sinnar meðfram umferðabrjálvirkjum á borð við Miklubraut og Hringbraut þá er fokið í flest skjól. Allra furðulegast er þegar snjónum af götunum er rutt upp á eyjurnar sem gangandi vegfarendur þurfa að fara yfir til að komast yfir götu. Þá þarf að klofa snjóinn eða drösla hjólinu í gegnum hann, sem er bæði strembið og pirrandi. Ég get rétt ímyndað mér að fyrir eldra fólk og lítil börn geti þessar snjóhrúgur orðið hinn versti farartálmi.

Þarna reynir auðvitað á forgangsröðunina og hún er augljóslega í þágu þeirra sem fara um á einkabílum. Hvernig væri að breyta því í vor?