Skuldarar þekki rétt sinn

Á laugardag var haldið upplýsinga- og samstöðuþing í Iðnó þar sem skuldarar voru hvattir til að kynna sér rétt sinn. Nú er ég ein af þessum stórfurðulegu tegundum sem tók engin lán í góðærinu, nema námslán (og að vísu eitt skuldabréf árið 2002 til að kaupa mér hlut í búsetaíbúð, það greiddi ég upp ári síðar). Ég skulda því ekkert og á frekar lítið. Fyrir vikið hef ég ekki sett mig neitt sérstaklega vel inn í umræðu um „skuldavanda heimilanna“. Á köflum hef ég átt dálítið erfitt með þessa umræðu en eins og verða vill þá heyrir maður oft aðeins í þeim sem hæst gala en hávaði er ekki alltaf í jöfnu hlutfalli við skynsemi. Kröfurnar hafa stundum virst út úr öllu korti.

En á þinginu í Iðnó fékk ég greinarbetri mynd af þeirri gagnrýni og þeim kröfum sem settar eru fram. Þar mátti líka heyra á spurningum og umræðum að margt fólk er mjög óvisst um réttarstöðu sína vegna lána sem það hefur tekið og er nú gert að greiða margföld til baka . Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

Ályktun frá Upplýsinga- og samstöðuþingi

Iðnó, 27. febrúar 2010

Upplýsinga- og samstöðuþing, haldið í Iðnó 27. febrúar 2010, hvetur viðskiptavini lánastofnana til að kynna sér réttindi sín. Mikil óvissa ríkir um réttmæti þeirra krafna sem hafa verið settar fram á hendur skuldugum einstaklingum eftir efnahagshrunið. Lánastofnanir hafa túlkað ýmsa lánasamninga sér í hag, einkum er varðar svokölluð gengistryggð lán. Þannig hafa lán verið hækkuð án þess að sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti að það sé heimilt. Má nefna sem dæmi skuldabréf þar sem lánþegi fellst á greiða til baka jafnvirði tiltekinnar krónutölu. Jafnvirðið er því bundið við íslenska krónu en lánastofnanir hafa reynt að tengja það við erlenda gjaldmiðla, sem aftur leiðir til þess að skuld lánþegans margfaldast. Ef lánastofnanir ætla að halda þessari túlkun sinni til streitu er rétt að þær fái hana sannreynda fyrir dómstólum. Á meðan það hefur ekki gerst eiga lántakendur að njóta vafans.

Þingið krefst þess af stjórnvöldum að standa við gefin loforð um að draga úr vægi verðtryggingar. Viðurkenna þarf þann forsendubrest sem varð milli lánastofnana og lánþega og úrræði eiga að taka mið af því. Tryggja þarf sanngjarna meðferð lántakenda. Þannig á fólk að eiga rétt á sértækri skuldaaðlögun eða greiðsluaðlögun þrátt fyrir að það hafi mögulega skuldsett sig umfram greiðslugetu. Ábyrgð lánveitenda er að veita ekki lán nema ljóst sé að einstaklingur geti staðið í skilum. Lánveitendur hafa hins vegar varpað allri ábyrgð yfir á lántakendur. Mjög gagnrýnivert er að skuldug fyrirtæki og lánastofnanir fái betri meðferð en skuldugir einstaklingar. Það var ekki hinn almenni launamaður sem setti Ísland á hausinn heldur einmitt lánastofnanir og fyrirtæki sem spiluðu langt um efni fram og tóku stöðu gegn almennum lántakendum.

Þingið fer fram á að nýfallinn Héraðsdómur nr. E-7206/2009 í máli Lýsingar gegn viðskiptavini sínum hljóti flýtimeðferð fyrir Hæstarétti. Binda þarf endi á þá réttaróvissu sem ríkir um gengistryggð lán.

Að upplýsinga- og samstöðuþinginu stóðu: Opinn borgarafundur, Samtök lánþega, Þrýstihópur um réttláta meðferð bílalána og Hagsmunasamtök heimilanna. Borgarahreyfingin kostaði þinghaldið.

Prev PostLangt á milli borða á Viðskiptablaðinu?
Next PostEinkabílaborgin Reykjavík