Hinn eitursmellni penni Viðskiptablaðsins, Andrés Magnússon, heldur víst enn úti fjölmiðlapistlum í blaðinu en á sínum tók hann við keflinu af vini mínum Ólafi Teiti Guðnasyni. Ég sé aldrei þetta strákablað en ekki þarf ég að örvænta enda tekur vefmiðillinn Pressan pistil „fjölmiðlarýnisins“ upp sem um frétt væri að ræða. Endar fréttin á þessum orðum:

„Og í lokin sendir fjölmiðlarýnirinn Andrés eitraða pillu á forystu Blaðamannafélags Íslands, sem ekkert hefur tjáð sig um ritstjóraskiptin á Fréttablaðinu í gær, en sendi frá sér umdeilda ályktun þegar Ólafur var rekinn af Morgunblaðinu og þeir Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen ráðnir í hans stað. Andrés veltir fyrir sér hvort faxtækið á skrifstofu Blaðamannafélagsins kunni að vera bilað?“

Óþarfi er að eyða plássi í að leiðrétta ranghermi pistlahöfundarins og um leið Pressunnar um ályktanir Blaðamannafélagsins en ekki þarf mikla snilligáfu – og alls ekki faxtæki – til að finna þær á heimasíðu félagsins. Hins vegar vakna spurningar um hvort það hljóti ekki að vera annað hvort mjög langt milli borða á Viðskiptablaðinu eða takmörkuð samskipti milli starfsmanna. Andrés hefði nefnilega vel getað spurt ritstjórann sinn, Sigurð Má Jónsson, út í málið og fengið þá allar upplýsingar um hvernig Blaðamannafélagið hefur ályktað og hvort einhvers nýs væri að vænta úr þeim ranni. Sigurður þessi situr jú í stjórn Blaðamannafélags Íslands. Það er auðvitað umfjöllunarefni út af fyrir sig að ritstjóri skuli sitja í stjórn stéttar- og fagfélags blaðamanna en þangað var hann auðvitað kosinn áður en hann varð ritstjóri.

En þarna er kannski rót misskilningsins. „Fjölmiðlarýnirinn“ heldur eflaust að stjórn Blaðamannafélagsins sé ritstjóraklúbbur. Slíkur klúbbur hlyti auðvitað að álykta um öll ritstjóraskipti en hafa minni áhyggjur af fjöldauppsögnum blaðamanna. Líklega hafa þó almennir félagar í Blaðamannafélagi Íslands meiri áhyggjur af hinu síðarnefnda.