Upphlaup Gunnars I. Birgissonar í framhaldi af forvali Sjálfstæðismanna í Kópavogi er óborganlegt. Hann sóttist eftir 1. sæti en hafnaði í því þriðja. Um þetta er ýmsum að kenna, svo sem núverandi bæjarstjóra, mótframbjóðanda hans í prófkjörinu og svo auðvitað hinum ógurillu bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar. Einhvern veginn læðist að manni sá grunur að Rússarnir hljóti að hafa komið eitthvað að málum. Óhróðri var dreift, upplýsingum lekið og ekki nóg um það heldur kaus fólk í prófkjörinu sem tilheyrir öðrum flokkum!

Nú má kannski minna á að hér á landi er fólki frjálst að vera skráð í alla þá stjórnmálaflokka, félagasamtök og hreyfingar sem það lystir. Þannig er hægt að vera félagi í öllum flokkum og reyna jafnt að hafa áhrif á stefnu þeirra sem mannaval á lista fyrir kosningar. Þetta getur varla verið nýtt í augum hins gamalreynda stjórnmálamanns í Kópavoginum.

Lætin í Gunnari minna dálítið á fyrstu viðbrögð sjálfstæðismanna við mótmælunum sem síðar leiddu til búsáhaldabyltingarinnar. Þá var ekki tímabært að leita að sökudólgum en á sama tíma leituðu kjörnir fulltrúar að sökudólgum í öllum hornum, nema þeirra eigin auðvitað. Ótrúlegasta fólk var dregið til ábyrgðar fyrir þá gagnrýni sem flokkurinn sætti og lengst gengu samsæriskenningarnar þegar því var haldið fram fullum fetum að Vinstri græn stæðu ein og óstudd að baki öllum mótmælunum á Austurvelli.

Stundum er kannski betra að líta í eigin barm. Og verði Gunnari litið þangað þá finnur hann eflaust ýmislegt sem hafði meiri áhrif á gengi hans í forvalinu en allt hitt „vonda fólkið“.