Hann er sterkur listinn sem Vinstri græn í Reykjavík stilla upp fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Sóley Tómasdóttir hefur sýnt og sannað að hún býr yfir miklum leiðtogahæfileikum, þrautseigju og atorku. Vonandi leiðir hún ekki bara listann í kosningunum heldur borgina eftir kosningar. Þorleifur Gunnlaugsson, sem hlaut góða kosningu í forvalinu í gærkvöld, hefur líkt og Sóley staðið sig afspyrnu vel á vettvangi borgarinnar og saman mynda þau gott teymi til sigurs í vor.

Hástökkvari forvalskosninganna er Líf Magneudóttir en hún hlaut 3. sætið í kosningunum í gær. Þar er á ferðinni dugnaðarforkur sem kemur án efa með ferskan blæ inn í baráttuna. Elín Sigurðardóttir er í 4. sæti en hún er bæði reynslumikil og kröftug. Þá skipar Davíð Stefánsson 5. sætið á listanum en á þessari síðu er varla við hæfi að hafa of mörg orð um hann, enda er hann sambýlismaður höfundarins og fengi því kannski óþarflega mikla lofræðu. Í 6. sæti er Hermann Valsson en hann hefur verið varaborgarfulltrúi og þekkir því vel starfsemina í borginni.

Á Akureyri fór einnig fram forval í gær og þar hreppti Andrea Hjálmsdóttir 1. sætið. Andreu treysti ég til góðra verka og það er mikill fengur fyrir Vinstri græn að fá hana af krafti inn í flokksstarfið. Listinn á Akureyri er einnig sterkur með nýliðum og reynsluboltum í bland.

Svo er bara að vona að þetta verði Vinstri grænt vor – um allt land!