Hátt í hundrað konur voru á fundi Félags fjölmiðlakvenna í gærkvöld. Hiti var í konum, enda ástandið á fjölmiðlum slæmt þessa dagana. Þetta var líflegur og fjörugur fundur og þarna voru miklir reynsluboltar í bland við konur sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjölmiðlum. Eftirfarandi ályktun var samþykkt og verður vonandi sú brýning sem efni gefa til:

“Fjölmennum fundi Félags fjölmiðlakvenna, sem haldinn var í Reykjavík 3. febrúar 2010, ofbýður ástandið á ritstjórnum fjölmiðla landsins. Hlutur kvenna hefur ávallt verið rýr innan fjölmiðla. Uppsagnir hafa orðið til þess að konur eru ekki eins sýnilegar á fjölmiðlum og áður og þróunin er uggvænleg. Engar konur eru meðal æðstu stjórnenda stærstu fréttamiðla landsins og í hópi næstráðenda er hlutur kvenna aðeins um þriðjungur. Konum hefur einnig snarfækkað í hópi almennra blaða- og fréttamanna og þáttastjórnenda og var hlutfallið ekki gott fyrir. Einsleitur hópur karla er ráðandi í ákvörðunum um efnistök sem er ekki síst alvarlegt í ljósi þess að nú á sér stað endurmótun íslensks samfélags.

Félag fjölmiðlakvenna harmar uppsagnir kvenna sem hafa gagnrýnt yfirmenn og eigendur fjölmiðla og krefst þess að hneykslanlegar uppsagnir á reyndum fjölmiðlakonum síðustu misserin verði leiðréttar og þær ráðnar aftur til starfa. Um leið styður félagið heils hugar við bakið á þeim konum sem eftir eru á ritstjórnum fjölmiðla og hvetur þær til góðra verka.
Fundurinn skorar á stjórnvöld og yfirmenn fjölmiðla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að rétta hlut kvenna á fjölmiðlum landsins.”